Skírnir - 01.04.1997, Page 92
86
ELEONORE M. GUÐMUNDSSON
SKÍRNIR
á hana eftir að hún slítur sambandi þeirra, getur ekki leyft henni
að taka sjálfstæðar ákvarðanir. Hún er stælpía eftir hans smekk
og hann elskar sjálfan sig gegnum hana. En sú Dagný sem hann
elskar er aðeins til í hugarheimi hans og þegar heimsmynd hans er
hrunin, og brotin fara að raðast saman aftur eftir nýjum lögmál-
um, breytist Dagný í samnefnara kvenmynda sem eiga ekkert
skylt við hina raunverulegu stúlku:
[...] því að ég hef verið að mála mynd af stúlku sem ég elska. Hún heitir
Dagný og er ótrúlega falleg, með brjóst einsog birkitré og augu einsog
berjalyng, en þegar ég strýk ávalar mjaðmir hennar og snerti brjóstin
gufar hún upp og ekkert er eftir nema glugginn þar sem hún stóð, minn
rammi út í heiminn, mitt líf og minn dauði.
Eg játa að með tímanum hefur Dagný orðið æ meiri hugarburður.
Ég hef ekki aðeins ruglað henni saman við léttklæddu stúlkurnar úr
Playboyblöðunum og svarthærðu Tahítistúlkurnar af Gauguinmáiverk-
unum.
Ég hef einnig séð henni bregða fyrir í Hollywoodkvikmyndum og
eitt sinn hélt ég að hún hefði ráðið sig sem hjúkrunarkonu hjá Banda-
ríkjaher og orðið eftir í Víetnam. (107-108)
Páll breytist smám saman í ófreskju, sem fjölskyldan er hrædd
við. Árásargirni einkennir samband hans við umhverfi sitt og of-
skynjanir verða ágengari. Setning eins og, „einhver var að reyna
að bregða fyrir mig fæti“ (133, 141), bera ofsóknarkennd hans
vitni. Hann grunar Harald bróður sinn og strákana sem heim-
sækja hann um græsku. Yngri systkinin hætta smátt og smátt að
bjóða vinum sínum heim. Enginn fær aðgang að heimi Páls, ekki
einu sinni Rögnvaldur, besti vinur hans.
Eftir enn einn árekstur við fjölskylduna ákveður Páll að
bregða sér til Ameríku: „Einhvern tíma um nóttina eða snemma
morguns geng ég eftir Keflavíkurveginum, en ferðin að heiman
og þangað er stór svört hola. Eg veit heldur ekki af hverju skórnir
eru horfnir af fótunum og sokkarnir líka. Eg er berfættur, en held
enn á ferðaútvarpinu og það er stillt á Kanann. Það er rigning og
þoka“ (155). Myndin er í hæsta máta táknræn fyrir sturlun Páls:
Sokkar og skór „normalítetsins" eru horfnir, tengslin við um-
heiminn rofin og sársaukafull í orðsins fyllsta skilningi. Tónlistin