Skírnir - 01.04.1997, Page 111
SKÍRNIR ALDUR LANDNÁMS OG GEISLAKOLSGREININGAR
105
Einnig væri mögulegt að leysa vandann, og á skjótari hátt,
með því að beita nýrri tækni, svokallaðri AMS aðferð. Þar er
C14/02 hlutfallið mælt í sérhæfðum massagreini, ekki geisla-
virknin. Oll C-14 atómin í jónageisla eru þá talin, en í geislamæl-
ingu er einungis mögulegt að telja þau atóm sem ummyndast á
mælitímanum og er síðarnefnda aðferðin því mun tímafrekari.
Kostur AMS tækninnar er að mælisýnið er einungis um 1/1000
úr grammi, um þúsund sinnum minna en þarf til geislamælingar.
Þegar dýrmæt sýni eru aldursgreind, eins og til dæmis manna-
bein, ætti einungis að beita þessari aðferð. Nýjasta kynslóð AMS
kerfanna getur náð ±25 ára óvissu í reglubundnum mælingum.
Kerfin kosta tæplega 200 milljónir króna og hver mæling um 60
þúsund krónur. AMS mæling hvers sýnis er um tvöfalt dýrari
geislamæling.
Lítum á hvaða sýni þarf að mæla til að sannprófa á fullnægj-
andi hátt áreiðanleika geislakolsgreininga og finna réttan aldur
landnáms, nú þegar aukin nákvæmni væri fengin. I rannsóknum,
þar sem óvissan í einstökum mælingum var um 50 ár, hefur verið
sýnt að tilgáta Ingridar stenst vart. Til að eyða öllum vafa verðum
við að þekkja jafnvel smáar kerfisbundnar skekkjur í aldursgrein-
ingunum. Því þarf að kanna hvort haf- eða eldfjallahrif sjáist þeg-
ar mælióvissan er aðeins 25 ár og sýni tekin víðsvegar á landinu.
Það ýtir einnig undir ítarlegri athugun á þessum hrifum að til er
beinni leið og traustari til að kanna staðbundið frávik í C-14
remmu yfir Islandi en sú sem skosku vísindamennirnir völdu.
04/02 hlutfallið í árhringjum í íslenskum trjám yrði þá borið
saman við hlutfallið í samtíma árhringjum í írskum eikum, sem
C-14 kvörðunarferillinn er byggður á. Þennan samanburð verður
að gera með sýnum úr árhringjum með vaxtartíma fyrir 1950, t.d.
frá árunum 1920-1950, þ. e. áður en geislakol vetnissprengjanna
raskaði C-14 jafnvæginu í andrúmsloftinu. Sýndi þessi mæling að
C-14 styrkur í íslensku birki sé nákvæmlega sá sami og í írsku
eikunum, væri fengin staðfesting á áreiðanleika geislakolsgrein-
inga á íslenskum sýnum. Engin mæling önnur gæti gefið traustari
staðfestingu.
Finnist ekkert í aðstæðum hér á landi sem getur truflað ald-
ursákvarðanir með geislakoli, verður fyrst mögulegt að beita