Skírnir - 01.04.1997, Page 125
SKÍRNIR
AÐ SKILJA LÍFIÐ OG LJÁ ÞVÍ MERKINGU
119
er samt hæstánægður með hlutskipti sitt, geti verið til. En Taylor
gæti brugðist við með því að staðhæfa að óhugsandi sé að líta á
utangarðsmanninn sem einhvern tiltekinn mannlegan einstakling.
Taylor telur að í hvert skipti sem við spyrjum spurningarinnar
„Hver er þetta?“ (t.d. í símanum eða um manninn hinumegin við
ganginn) lítum við á persónuna sem við erum að spyrja um sem
einhvern sem getur svarað fyrir sjálfan sig (t.d. með því að segja
að hún heiti Pálína eða sé búddisti).13 Samkvæmt Taylor teljum
„við það því vera grundvallaratriði um mannlegan geranda að
hann lifi innan sviðs spurninga".14 Að vera sá tiltekni mannlegi
einstaklingur sem maður er (að hafa tiltekið ,,ídentítet“) jafngildir
því að taka tiltekna afstöðu til spurninga sem lúta beint og óbeint
að því hver maður er. Að missa tökin á því hver maður er (að
lenda í sjálfskreppu eða „ídentítetskrísu") felst þess vegna í því að
týna sér innan spurningasviðsins.15 Vegna þess að slíkt spurninga-
svið er forsenda þess að geta skilið sig sem þann tiltekna einstak-
ling sem maður er og líka þess að lenda í sjálfskreppu, lítur
Taylor svo á að þessar spurningar geti ekki verið tilbúningur ein-
staklingsins sjálfs. Samkvæmt Taylor er hér um að ræða spurn-
ingar sem óhjákvæmilega koma upp og svara verður með sterku
gildismati og með tilvísun til viðmiðunarramma. Þess vegna telur
hann óhugsandi að skýra hver maður er með tilvísun til langana
einna saman; maður getur ekki svarað spurningunni „Hver er
13 Taylor telur að gera megi grein fyrir því tilviki þar sem einstaklingur liggur x
dái og getur ekki svarað fyrir sig með hliðsjón af hinum venjulegu tilfellum;
sjá Taylor, Sources of the Self, bls. 29.
14 Taylor, Sources of the Self, bls. 29.
15 Þetta þýðir í raun að Taylor ætti að greina á milli vægrar sjálfskreppu og rót-
tækrar sjálfskreppu (sem fæli í sér að sjálfið þurrkaðist út, ef svo má að orði
komast). Væg sjálfskreppa felst í því að standa ráðþrota gagnvart spurningum
um sterka gildisdóma, með öðrum orðum að tapa áttum á spurningasviðinu.
Róttæk sjálfskreppa jafngildir á hinn bóginn því að alls engar slíkar spurning-
ar vakna - með öðrum orðum er með slíkri kreppu átt við tilvist utan við
spurningasviðið. Fyrri kreppunni má til skýringar líkja við ástand manns sem
ber skynbragð á rúm og tíma en veit til dæmis ekki hvort tiltekin skrifstofa er
á efri eða neðri hæð. Síðari kreppan væri þá sambærileg við ástand manns sem
hefur ekki einu sinni tilfinningu fyrir því hvað snýr upp og hvað niður (sbr.
Taylor, Sources of the Self bls. 27-31).