Skírnir - 01.04.1997, Page 151
SKÍRNIR TIL HVERS ER ÞJÓÐERNISUMRÆÐAN? 145
samvinnu geypilega rómantískra þjóðernissinna og söluklókra
vefnaðarvöruframleiðenda. En gáum að því um leið, að það fóður
sem menn láta ofan í sig á þorrablótum hefur glatt íslenska maga
lengi, auk þess sem þorrablót eru gömul og ný viðbrögð við
þjóðarþörf, ef svo mætti kalla, fyrir skemmtun og samkvæmi á
þeim hluta árs þegar veður eru einna leiðinlegust hér á landi og
lengst í aðrar hátíðir og tildragelsi. Að auki má leiða að því rök,
að sjálfur aldur hefðar skipti í raun minna máli en það hlutverk
sem hún hefur hlotið í samtímanum og lífslíkur hennar í framtíð-
inni.
3.
í Skírnisgreininni sem fyrr var nefnd rekur Guðmundur Hálf-
danarson ýmsar hugmyndir sem skotist hafa á milli fræðimanna á
síðari árum um það, hver sé sjálfur kjarni þessara mála, á hvaða
forsendum skilningur manna á þjóð og tilvistarnauðsyn hennar
rísi. Hann kveður mikla grósku hafi orðið í fræðilegri umræðu
innan félags- og hugvísinda um þjóðerni en:
[e]ins og oft vill verða í þessum vísindum hefur mikill áhugi ekki leitt til
ákveðinnar niðurstöðu um viðfangsefnið - þvert á móti, því meira sem
rætt hefur verið um það og ritað, því fjölbreyttari hafa viðhorf fræði-
manna orðið.5
Þetta gerist áreiðanlega ekki vegna þess eins að hugvísindi eigi
samkvæmt eðli sínu erfitt með að komast að einhlítri niðurstöðu
um veigamikla þætti samfélags og menningar - og þá ekki síst á
okkar póstmódernísku tímum. Ágreiningurinn ræðst ekki síður
af því pólitíska umhverfi sem þjóðernisumræðan fer fram í, og
þeirri pólitísku afstöðu sem fræðimennirnir sjálfir hallast að.
Sumir þeirra hafa einkum leitað sér að rökum fyrir því, að sjálft
hugtakið þjóð standi á brauðfótum (enda „ímyndað samfélag"),
að fyrirbærið sé tiltölulega nýtt í sögunni og líklega skammlíft og
menningarleg og pólitísk þjóðernisstefna leiði til ófriðar, kúgunar
og fordóma. Þeir fræðimenn eru um leið líklegir til að taka
afstöðu með þeirri alþjóðahyggju sem telur þjóðríkið úrelt og
5 „Hvað gerir íslendinga að þjóð?“, bls. 15-16.