Skírnir - 01.04.1997, Page 152
146
ÁRNI BERGMANN
SKÍRNIR
heldur til trafala á þeirri braut til „alþjóðavæðingar" sem allar
þjóðir hljóti að leggja inn á. Svo eru þeir sem efast síður um for-
sendur þess að unnt sé að tala um þjóðir, telja þjóðerni reist á
samkennd og samstöðuþörf sem fylgt hafi þjóðflokkum lengur
en sögur herma og hafa tilhneigingu til að draga fram jákvæð
áhrif og jákvæða möguleika þjóðernishyggju; hún styrki fjöl-
breytni, efli þjóðum, ekki síst hinum smærri, sjálfstraust til að
„vera þær sjálfar" og sanna rétt sinn til þess með sæmilegum verk-
um og öflugu menningarlífi. Þessir menn, hvort heldur þeir eru
kenndir við fræðimennsku eða aðra starfsemi, eru líklegir til að
líta alþjóðavæðinguna hornauga, hvort heldur hún birtist í Evr-
ópusamrunanum svonefnda eða í auknum pólitískum vanmætti
þjóðríkja um allan heim, líka fjölmennra ríkja og ríkjabandalaga,
andspænis alþjóðlegum fjármálarisum og fjölmiðlasamsteypum.
Þessi lýsing er vissulega einföldun. Til eru þeir sem vilja einna
helst færa umræðuna á siðferðisplanið og halda því fram að þjóð-
ernishyggja, jafnvel í góðkynjuðu formi ættjarðarástar (patriot-
ism) og þjóðrækni, komi í veg fyrir að einstaklingar elski alla
menn jafnt. Aðrir svara slíkum ádrepum að hætti Stephans G.
Stephanssonar, sem kallaði heimsborgara „ógeðs yfirklór“ og
bætti við:
alþjóðrækni er hverjum manni of stór,
út úr seiling okkar stuttu höndum.
(„Ferðaföggur")
Og enn aðrir komast að því að átök um andstæðurnar
„cosmopolitanism-patriotism" séu ef til vill óþörf, menn geti
hæglega tekið það skásta úr hvoru gildakerfi og smíðað úr eitt-
hvað sem hald er í.6
Málflutningur Guðmundar Hálfdanarsonar er reyndar skýr
staðfesting á því sem að ofan sagði um það, hve mikilvæg hið
pólitíska umhverfi og pólitískar forsendur verða í raun fyrir allar
áherslur í umræðu um þjóðir og þjóðernisstefnu. Guðmundur
undrast það að „land, þjóð og saga“ hafi í raun verið „þrenning
sönn og ein“ í vitund Islendinga, einhver grundvallarstaðreynd
6 Sjá: Martha C. Nussbaum: For Love of Country. Debating the Limits of
Patriotism. Boston 1996.