Skírnir - 01.04.1997, Síða 155
SKÍRNIR
TIL HVERS ER ÞJÓÐERNISUMRÆÐAN?
149
húsnæði og atvinnu - rétt eins og gerast mundi hvar sem er þar
sem þeim gæðum væri úthlutað eftir kirkjudeildum.
4.
Bæði þessi dæmi - Bosníu og Irlands - minna á það, að sama er
hvað til er nefnt: þjóðernisstefna, heimsveldisstefna sem færir
margar þjóðir eða þjóðflokka undir yfirráð eins stórveldis, hvort
þeim er það ljúft eða leitt, eða þá helstu trúarbrögð mannkyns:
allt eru þetta aflvakar sem snúa má til nokkurs góðs, til nokkurra
framfara eða þá til fólskuverka og stórglæpa. Sama má og segja
um alþjóðahyggju sem ekki verður tengd svo mjög við forræðis-
hyggju einstakra risavelda fyrst og fremst, heldur við þau mark-
aðsöfl og það fjármagnsstreymi sem nú um stundir smala íbúum
heimsbyggðarinnar inn í svokallað heimsþorp.
Guðmundur Hálfdanarson tekur það réttilega fram, að
„[þjjóðernisvitundin hefur [...] staðið af sér allar breytingar,
fræðimönnum til nokkurrar furðu“ (bls. 15). Mál er að hætta að
gera sér þessa staðreynd að undrunarefni: þjóðernið gufar ekki
upp þótt sagnfræðingar, heimspekingar, mannfræðingar og fé-
lagsfræðingar leggist á eitt um að tæta það sundur með skilgrein-
ingum. Blátt áfram vegna þess, að þjóðerni er gildur þáttur í
sjálfumleika manna (flestra, en ekki allra vitanlega), ræður afar
miklu um skilning þeirra á því hverjir þeir eru og hvaða skilnings
og samúðar þeirra tilvistarvandi njóti í heiminum. Umræðan
hlýtur því að halda áfram með einum hætti eða öðrum.
Og ef menn vilja hafa þessa umræðu til nokkurs gagns, þá er
réttast að minna á það sem fyrr var sagt: þjóðernishyggja, þjóð-
rækni, þjóðmenning - allt eru þetta hugtök hlaðin töluverðri
jákvæðri orku, sem smáþjóðir, ekki síst við Islendingar, hafa ver-
ið svo heppnar að njóta nokkurs góðs af (eins og flestum ber
reyndar saman um). „Heppni“ okkar kemur einmitt ágætlega í
ljós hjá Guðmundi Hálfdanarsyni þegar hann ber saman þjóðern-
isstefnu Islendinga og Bretóna. Bretónar lögðu aldrei í það að
stefna á aðskilnað frá Frakklandi, enda hefði hið öfluga mið-
stjórnarvald franska ríkisins aldrei tekið það í mál - vafalaust hafa
bretónskir menntamenn líka verið veikir fyrir röksemdum stór-