Skírnir - 01.04.1997, Page 158
152
NJÖRÐUR P. NJARÐVÍK
SKÍRNIR
Enn getum við skoðað þennan texta sem einbera náttúrumynd
sem felur í sér eins konar hringferð. Steinn stendur á sjávar-
ströndu, stormur rís, brim skellur á steininum og lætur hann
syngja, brimið hljóðnar og steinninn þagnar og stendur þögull
við hafið. En náttúrumyndin breytist óneitanlega, þegar við vit-
um að ljóðið heitir „Skáld“. Við það breytist í raun allt.
Og nú hljótum við að spyrja: hvað á þessi brimsorfni steinn
skylt við skáld?
Eitt megineinkenni nútímaljóðlistar, sem ef til vill má segja að
hefjist með symbólistunum frönsku á síðustu öld, er að fást við
fyrirbæri sem í eðli sínu hafa hvorki mynd né lögun, eru ásýndar-
laus og óhlutbundin. Reyndar gengu sumir symbólistanna svo
langt að fyrirbærið mætti aldrei nefna á nafn. Það hefur þó heyrt
til undantekninga. Þvert á móti er fyrirbærið oft notað sem eins
konar lykilorð, eins og í þessu stutta ljóði Eljartar Pálssonar.
Auðvitað er það ævaforn aðferð í táknfræði mannsins að per-
sónugera hugtök og fyrirbæri eins og t.d. ást og dauða. I forn-
grískri list var dauðinn táknaður sem fagurlimað, nakið ung-
menni eða sem gamall skeggjaður maður með vængi. En frá því á
14du öld er algengasta mynd hans beinagrind sem heldur á orfi
og ljá í hægri hendi og tímaglasi í þeirri vinstri:
Dauðinn má svo með sanni
samlíkjast, þykir mér,
slyngum þeim sláttumanni,
er slær allt, hvað fyrir er,
segir í kvæði Hallgríms Péturssonar Um dauðans óvissan tíma. I
nútímaljóðlist er hins vegar reynt að forðast stöðluð tákn. Jóhann
Sigurjónsson gerir dauðann sýnilegan í ljóði sínu Bikarinn-.
Bak við mig bíður dauðinn,
ber hann í hendi styrkri
hyldjúpan næturhimin
helltan fullan af myrkri.
Sá sem heldur á næturhimninum líkt og bikar, er nærri því óend-
anlega stór vexti, og myrkur þess bikars er hann steypir yfir