Skírnir - 01.04.1997, Page 165
SKÍRNIR RASISTI, BÍLL, SKILGREININGAR OG ÍSLENSK ORÐ
159
og Japanir nota oftast táknstafi sem vísa beint til fyrirbærisins, en
koma framburði málsins, og orðunum, ekkert við. Þannig hefur
t.d. hljóðið ki í japönsku fjölmargar merkingar, og það er táknað
með mismunandi táknstöfum eftir merkingu. Tré er táknað á allt
annan hátt en lífsorka, en bæði eru sögð ki.
Hugsun er mikilvæg, en orðin sem hún er tjáð með skipta
litlu. Ast er þungvæg, en það er ekkert lógískara að orðið ást vísi
til fyrirbærisins ljúfa, en hljóð (orð) eins og bant, amour eða love.
Og raunar vísa tvö síðustu orðin til þess. Hitt var ég að búa til
rétt í þessu.
En margir líta mjög hátíðlegum augum á orð og á tungumál.
Sérstaklega hafa sumir heimspekingar, með Platón í broddi fylk-
ingar, haldið fram nánum tengslum hugsunar og máls, eða jafnvel
að þau séu „eitt en ekki tvennt“.12 I Sófista Platóns segir „sá
ókunnugi": „hugsun og tal eru það sama, utan að það sem við
köllum hugsun er [...] innri samræður hugans án talaðra orða“,
eða „samræður hugans við sjálfan sig“.13 Þorsteinn segir sjálfur að
„skynsamleg hugsun er öðru fremur leikur að fjörlegum og djarf-
legum líkingum, skáldlegum líkingum. Eins og fagur skáldskapur
er skynsamur, er skynsemin skáldleg.“14 Sú ályktun hefur verið
dregin að því „betri“ og „fegurri" sem orðanotkun sé, og setn-
ingaskipan, því vandaðri sé hugsunin.15 Látum nægja að velta fyr-
ir okkur hvernig heyrnarlausir hugsi þá, sem ekki hafa nein orð,
eða hvernig hugsað sé um útreikninga, rúmfræði eða útlit (fólks,
dýra, bygginga ...), en snúum okkur að tengslum orða og fyrir-
bæra.
I raun er tungumál tæki til að tjá hugsanir eða tilfinningar
manna á milli, og ekkert merkilegra - þótt það sé stórmerkilegt -
en t.a.m. bendingar, tónbrigði eða grettur. Bandaríski fræðimað-
urinn Stevenson kallar þetta að vekja sálræn viðbrögð eða lýsan-
legar merkingar.16 Og það virkar ef fólk leggur sömu, eða
12 Tilvitnunin er í Að bugsa á íslenzku, bls. 36, þar sem Þorsteinn talar um
Platón.
13 Platón: Sófistinn, 263-64.
14 Að hugsa á íslenzku, bls. 54. Ur samnefndri grein.
15 Eins og Kristján Kristjánsson gerir í Þroskakostum, Rannsóknarstofnun í
siðfræði, Reykjavík, 1992, bls. 179, 233.
16 Ethics and language,Yale University Press, New Haven, 1944, bls. 37-39 og 67.