Skírnir - 01.04.1997, Page 179
SKÍRNIR HEIMURINN SEM KRÓNÍSK RANGHUGMYND
173
Bældar hvatir einstaklingsins fá oft útrás í draumum eða martröðum. Ef
um jafnvægisleysi er að ræða getur draumlífið sýnt misbrest milli innri
þarfar og krafna umhverfisins. I Eftirmálanum boða svörtu skýjaflók-
arnir fullkomna upplausn. Samfélagið megnar ekki lengur að stjórna
óheftu hvatalífi hverfisbúa en kaflaheitin bera þessari lausung glöggt
vitni: „Af léttlyndum konum og lauslátum“, „Gluggagægjufaraldurinn"
og „Uppreisn tossanna". Jafnvel fífldjarfir menn í hettuúlpum leggja á
flótta undan þeim ógnarmyndum sem birtast óveðursnóttina löngu.
Slík er veröld hinna fullorðnu í Eftirmálanum nóttina sem kirkjur
brenna í draumum og Guð virðist dauður. Inni á prestssetrinu sitja
Daníel og eiginkona hans Sigríður, hún við hannyrðir og hann við safn-
aðarstörf. Þegar Sigríður sofnar og útsaumaða Kristsmyndin fellur úr
höndum hennar er Daníel prestur skilinn eftir í guðlausri veröld, þar sem
ógnvænlegt myrkur svífur um íbúð og hverfi og framliðnir sjómenn
berja að dyrum. I Eftirmálanum víkur undur fyrri bókanna fyrir
ókennileikatilfinningu, en ókennileika má skilgreina sem það tómarúm
sem myndast þegar menn geta ekki lengur nálgast svið hins undursam-
lega. Ef barnaveröldin einkennist af nánum tengslum við undrið, vaknar
ókennileikinn þegar undrið er gert útlægt úr heimsmyndinni.
I ritgerð Freuds „Um ókennileika“ (1919) gerir hann tilraun til að
skilgreina hugtakið út frá forsendum sálgreiningar.23 Kennileiki vísar til
þæginda og kunnugleika, þess að eiga sér heimili í tilvistinni. Ókennileiki
{das Unheimlich) felst í því að eiga sér hvergi heimili. Hann afhjúpar það
sem hulið er og vísar til þess sem er ókunnuglegt, falið, undarlegt og
framandi. I fantasíunni er það hulda dregið fram í dagsljósið og við það
verður hið kunnuglega ókunnuglegt og framandi. Freud taldi ókenni-
leika fanga þann einstakling sem reyndi að leita skýringa á honum, og að
eina leiðin til þess að losna væri að taka ókennileikanum sem hluta af
lífinu.24
I söguheimi Einars hverfist það undur sem býr í veröld barnanna yfir
í ókennileika hjá hinum fullorðnu þar sem þeir geta ekki tengt vitranir
sínar raunsæislegri veruleikasýn. Þegar Daníel prestur reynir að afgreiða
draumana sem ómerkinga, áréttar hann um leið hversu nauðsynlegir þeir
eru andlegri heilsu einstaklingsins: „Æ draumar. Eru þeir ekki bara rugl,
lúsakambar til að hreinsa sálina?“ (58). Tilraun Daníels til þess að útiloka
ókennileikann gerir það að verkum að hann verður aldrei samur maður,
heldur upplifir í sífellu geðshræringar næturinnar ógurlegu:
23 Sigmund Freud, The Standard Edition of the Complete Psychological Works,
þýð. og ritstj. James Strachey, 24 bindi. „Essay on ‘The Uncanny’“, 17. bindi,
217-52. London: Hogarth Press, 1953.
24 Sjá nánari umfjöllun í bók Rosemary Jackson, Fantasy: The Literature of
Suhversion. London: Methuen, 1981, s. 63-72.