Skírnir - 01.04.1997, Page 186
180
GUÐNI ELÍSSON
SKÍRNIR
eða vísindalega út frá forsendum klínískrar greiningar. Sálgreinandinn og
geðlæknirinn hafa einir heimild til þess að finna merkingu í tali brjálæð-
ingsins. Um leið er brjálæðinu fundinn staður innan stofnunarinnar og
dregin skýr markalína milli samfélagsins og geðsjúkrahússins.
Markalína skynsemi og brjálæðis hefur löngum verið óljós í skáld-
sögum Einars. Kleppur er hugarástand sem er ekki einvörðungu bundið
við vistmennina sem af einhverri kostulegri tilviljun búa í einu höll
hverfisins og ögra þannig ómeðvitað þeirri lögbundnu stigskiptingu sem
mótuð er af ólíkum húsakynnum yfirvalds og almúga. Þeir eru líka einu
íbúarnir sem bera aðalstitla og nægir þar að nefna Baldvin Bretakóng úr
Englunum, og þá venju að kalla eina deildina á Kleppi aldrei annað en
Lávarðadeildina.37 Á ákveðnu veruleikasviði eru þeir því settir ofar heil-
brigðari íbúum hverfisins.
Á móti kemur útilokunarkrafa samfélags sem reynir eftir fremsta
megni að halda svæði geðveikinnar utan ramma daglegs lífs. Sú meinloka
Bergsveins listmálara að hafa Kleppsspítala inni á nær öllum málverkum
sínum verður þess valdandi að enginn vill kaupa myndirnar hans: „Get-
urðu ekki breytt honum í kú, nú, eða látið trén vaxa upp fyrir þakið
þannig að sjálfur spítalinn sjáist ekki?“ spyr félagi Bergsveins, Kúddi, í
forundran.38 Sú almenna sanngirniskrafa sem felst í orðum Kúdda er þó
til lítils ef menn búa í sagnaheimi Einars, því líkt og helvíti fylgir Kölska
í Paradísar missi Miltons hvert sem hann fer, er brjálsemin ekki einangr-
uð við Kleppsspítalann, heldur flæðir hún um allt hverfið. Læt ég hér
nægja tilvitnanir úr V'œngjaslœttinum og Eftirmálanum. Fyrra dæmið lýs-
ir stjórnlausum ótta Jóhanns Péturssonar eftir hengingartilraunina sem
áður var nefnd, hið síðara greinir frá þeim undrum og stórmerkjum sem
gerast í fjörunni hjá geðspítalanum nóttina sem stormurinn gengur yfir:
Gegnum hlátursköllin með snöruna um hálsinn hleyp ég útí myrkrið
yfir sandauðnina gegnum dimm öngstrætin. Mér finnst ég halda á
tunglinu í fanginu og geðveikrahælið gula blikkar ljósum inní höfði
mér.
Næstu daga sat ég stjarfur útí glugga, taldi fótsporin sem hurfu
framhjá og hreyfði mig ekki út úr húsi. (98)
[...] þeirri spurningu hefur einnig verið varpað fram á málþingum
víðs vegar um hverfið:
Já getur það verið að geðspítalinn hafi með einhverjum sálvíkk-
andi bellibrögðum fært út kvíarnar og þannig stækkað andlega lög-
sögu sína?
37 Einar Már Guðmundsson, „Malbikunarvélin", Leitin að dýragarðinum, s. 63-
64.
38 Einar Már Guðmundsson, Englar alheimsins, s. 78.