Skírnir - 01.04.1997, Page 188
182
GUÐNI ELÍSSON
SKÍRNIR
innar. Tilraun Brynjólfs til þess að framandgera íslenskan veruleika með
því að brjóta upp vélrænan lestur á vörumerki Sláturfélags Suðurlands
væri þá hafnað af geðsjúklingnum Páli út frá sannleikskröfu þar sem
ímyndunaraflinu er úthýst með öllu.
Líkt og í sögunni af Dominique verður margræðni Englanna aðeins
skilin með því að athuga samspil þess undurs sem ræður ríkjum í fyrstu
sögum Einars og írónískrar söguraddar Leitarinnar og Rauðra daga. Við
það verður bilið milli raunveruleika og fantasíu óræðara þegar kemur að
Englunum. Einar hefur sjálfur vikið að þessari þróun: „Mér finnst eigin-
lega að ég hafi sameinað í Englunum andrúmsloftið í trílógíunni og hina
beinu frásögn sem mótaðist í smásögunum og Rauðum dögum. Þá er ég
að tala um frásagnartæknina“.39
Irónían í trílógíunni er mótuð af sögutímanum og tengd tilvistarlegu
falli. Rofið, sem finna má í síðustu köflum fyrstu þriggja bókanna, sést í
því að sú lífssýn sem gat af sér fantasíuna getur ekki haldist að eilífu og
er því leyst af hólmi af grákaldri veruleikasýn. Þannig felst írónían frem-
ur í breytingu á högum aðalpersónanna, en í mótrödd innan textans.
Spenna trílógíunnar stafar með öðrum orðum fyrst og fremst af því að
fantasían er að lokum rofin með dauðanum í Riddurunum þegar Garðar
fellur niður um opið stigagat, af borgaryfirvöldum í Viengjaslættinum
með því að dúfnakofarnir eru rifnir af hreinsunardeild borgarinnar og af
breytileika veðurfarsins í Eftirmálanum því óveðrið gengur yfir. Niður-
staðan litar vissulega sýn okkar á þá heimsmynd sem sögurnar draga upp
en heimar undurs og raunsæis eru rækilega aðskildir í tíma og ein lífssýn
tekur við af annarri.
I Englunum kemur írónían mun fremur fram í formgerð frásagnar-
innar, eins og sést best á því að þar er ekki að finna beina röð atburða,
heldur blandast saman fortíð, nútíð og framtíð á óræðan máta. Þetta ger-
ir Einari kleift að halda fantasíunni fram í síðustu setningu sögunnar.40
Togstreitu undursamlegs sögusviðs og írónískrar söguraddar má ekki
aðeins finna í tvöfaldri vitundarmiðju geðsjúklings og engils, heldur
einnig í þeirri mótsögn sem Foucault gerði að umræðuefni, að orð geð-
sjúklingsins eru annars vegar „dæmd dauð og ómerk“ og hins vegar talin
„tjá dulinn sannleika". Afstaða lesandans til sögumanns Englanna er því
39 Silja Aðalsteinsdóttir, „Ósýnilegi barþjónninn segir frá“, s. 26.
40 Þessi munur á trílógíunni og Englunum beinist að meginhneigð sagnanna.
Sem slík er hún réttlætanleg út frá ákveðnum frásagnarlegum mun, en vissu-
lega má finna fantasíu í lokaköflum trílógíunnar eins og sést best á því að
Daníel prestur er enn fastur á sviði ókennileikans í lokaorðum Eftirmálans.
Að sama skapi herðir sögutími Englanna á því rofi sem verður undir lok sög-
unnar með sjálfsmorði Páls. Hér er þó um náðarfall að ræða, því dauðinn hef-
ur hann upp á hærra og merkingarríkara svið. Þetta gerir honum kleift að
segja sögu sína sem handhafi guðlegrar visku.