Skírnir - 01.04.1997, Page 192
186
GUÐNI ELÍSSON
SKÍRNIR
Eins og Einar hefur bent á eru Englarnir margradda skáldsaga þar
sem ægir saman ólíkum skoðunum. Augljósasta þversögnin, eins og ég
hef þegar komið inná, felst þó í tvöföldun sögumannsins sem er í senn
vanhæfur og uppspretta merkingar. I einu af mörgum geðklofaköstum
bókarinnar lýsir Páll því þegar hann er heimsóttur af guði sem segir hon-
um að breyta herbergi sínu í örk (143). Þessum geðveika nútíma Nóa er
lýst af englinum Páli, sem gerir það að verkum að ómögulegt er að skil-
greina atburðinn einvörðungu sem kómíska lýsingu á trúarlegri rang-
hugmynd.
En væri ekki hægt að lesa lýsinguna út frá andstæðum forsendum og
segja að geðveiki sögumannsins vefengi undur framliðinnar raddar? Þótt
þröngur raunsæislestur gefi of einhliða sýn á þversagnir sögunnar er
hann þörf áminning hverjum þeim lesanda sem tekur rödd engilsins bók-
staflega. Allt frá fyrstu síðum bókarinnar áréttar sögumaður að hann sé
farinn sinn veg (12), að enginn „ætti að skrifa ævisögu sína fyrr en ævi
hans er öll“ (15) og að Arnór vinur hans hafi jarðsungið hann þegar hann
dó (147). Að sama skapi áréttar umtalsverð yfirsýn sögumanns yfirskil-
vitlega stöðu hans, því hann man tár föður síns sem hélt á honum ný-
fæddum (22) og draum móður sinnar sem hún sjálf man ekki fyrr en
hann er látinn (12-14). Undir lok sögunnar lýsir hann því þegar foreldrar
hans koma og sækja jarðneskar eigur hans í íbúðina í öryrkjablokkinni
(223) og sögunni lýkur þar sem hann látinn kveður foreldra sína í hinsta
sinn áður en hann heldur á braut (224).
Allar þessar lýsingar tilheyra sviði undursins séu þær lesnar bókstaf-
lega. Þó svo að lesendur kjósi að trúa blint á þá staðhæfingu sögumanns-
ins að eitt sinn hafi hann verið geðveikur, en nú sé hann engill, má í
sögunni finna geðsjúkling sem telur sig dauðan: „Vitfirringurinn segir að
búið sé að jarða sig. Á hverjum sunnudegi fer hann upp í kirkjugarð og
setur blóm á leiðið“ (157). í bókstafstrúarlestri væri ranghugmyndin sem
þarna er lýst í andstöðu við engilinn Pál sem er í raun og veru framlið-
inn. Um leið myndi samanburðurinn árétta óljósa tengingu geðveiki og
guðlegrar vitrunar, þar sem vitfirringurinn þykist vera kominn yfir móð-
una miklu. Þó eru línurnar um vitfirringinn ekki í samhengi við aðrar
frásagnir sögunnar. Hann er aldrei nefndur á nafn og sögu hans virðist
lokið um leið og hún hefst.
Annar lestur og írónískari er sá að segja að saga vitfirringsins sem
segir að búið sé að jarða sig sé saga Páls Ólafssonar sjálfs, en hann er sá
eini innan sögunnar sem heldur því fram að hann sé dauður. Ef sá lestur
er valinn renna geðsjúklingurinn og engillinn saman í eitt og segja má að
eitt af afrekum Einars Más felist í því að gera rödd engilsins svo trúverð-
uga að lesanda hættir til að gleyma því að í lifanda lífi var sögumaður í
beinu sambandi við van Gogh og Paul Gauguin, guð kom í heimsókn til
hans, og hann taldi líf sitt samtvinnað þróun Nato og framvindu kalda