Skírnir - 01.04.1997, Síða 207
SKÍRNIR
KONA, SÁLGREINING, HÖFUNDUR
201
sig við það, eins og fram kemur [s. 33, nmgr. 2]), en þýski frumtextinn
birtist neðanmáls. Meðferð textanna og þýðing er vönduð - svo mjög að
það vekur athygli þegar Dagný vitnar á einum stað án heimildarvísunar í
Freud og hefur þar eftir honum fleyg orð, „anatomy is destiny" (sem
Dagný þýðir „líffræðilegt kyn er örlög“, s. 21). Lét Sigmundur fróði þetta
virkilega flakka á ensku?
Vitnað er í fjölda fræðirita sem samin eru á ensku og skandinavískum
málum og höfundur þýðir úr þeim á íslensku (það er raunar aðdáunar-
vert að hún leggur sig í framkróka að þýða einnig alla titla, sem er þraut-
in þyngri). Allnokkrar heimildir Dagnýjar, sumar mikilvægar, eru
upphaflega samdar á frönsku. Þá styðst hún í langflestum tilvikum við
enskar þýðingar og er ekkert við það að athuga, enda er hún að vinna úr
hugmyndum fremur en nákvæmu orðalagi þeirra texta. Hitt kann að
orka tvímælis (eða öllu heldur þrímælis) að nokkrum sinnum eru sam-
felldar tilvitnanir í ensku þýðingarnar þýddar á íslensku, sem er þá orðið
þriðja málið. Ollu verra finnst mér þó að höfundur skuli almennt ekki
tilgreina hverjir þýðendurnir eru, það er að segja höfundar þessara ensku
texta; þess er hvorki getið neðanmáls né í heimildaskrá. Halda mætti að
höfundar frumverkanna, t.d. Jean-Paul Sartre, Simone de Beauvoir eða
Julia Kristeva hefðu annað hvort samið þessi verk á ensku eða sjálf þýtt
verk sín á það mál. Ég veit að það er ekki óbrigðul hefð fyrir því í fræði-
ritum að geta þýðenda, en að mínu mati eiga vandaðir fræðimenn að gera
það; þýðingar eru mikilvægur hluti hinnar alþjóðlegu fræðasamræðu og
þýðendurnir þar með þátttakendur í henni.
Þegar um er að ræða jafn lærða ritgerð og þessa - og ekki skal undan
dregið að Dagný Kristjánsdóttir er firna vel að sér á þessu sviði og hefur
kynnt sér ógrynni fræðirita - þá stappar það nærri guðlasti að kvarta yfir
að ekki hafi verið nóg lesið. Þó verð ég að gera það í einu tilviki. Eitt
mikilvægasta hugtak í hinni gagnrýnu umfjöllun höfundar um íslenskt
menningarástand eftirstríðsáranna kemur frá franska félagsfræðingnum
Pierre Bourdieu, ekki síst kenning hans um hina „táknrænu innstæðu”
(hið „symbólska kapítal") sem byggt er á í menningarátökum. En þá
undirstöðu sækir Dagný ekki í rit Bourdieu, heldur er hún fengin úr rit-
gerð Toril Moi um Bourdieu. Bourdieu er ekki einu sinni að finna í
heimildaskrá Dagnýjar. Þegar unnið er með jafn mikilvægar hugmyndir
og hér um ræðir í doktorsritgerð á hiklaust að kynna sér rit hins upphaf-
lega höfundar (sem m.a. eru til í enskum þýðingum). Það er raunar víðar
sem mér finnst Dagný þiggja leiðsögn Toril Moi í umræðunni og halda
ekki áfram alla leið í höfuðritin (þar sem þau eru uppspretta lykilhugtaka
og meginhugmynda), m.a. í umfjöllun um Simone de Beauvoir. Svo rétt-
mætis sé gætt skal bent á að í umræðu um kenningar Juliu Kristevu
gagnrýnir Dagný túlkun og viðbrögð Toril Moi og tekur sjálfstæða af-
stöðu á skýran og athyglisverðan hátt (217-20).