Skírnir - 01.04.1997, Page 210
204
ÁSTRÁÐUR EYSTEINSSON
SKÍRNIR
sálgreiningin og femínisminn mjög saman, ekki síst í umfjöllun um
þunglyndi eða melankólíu sem grundvallarþátt í verkum Ragnheiðar. I
þriðja lagi beitir Dagný frásagnarfræðilegum kenningum sem byggjast að
mestu á formgerðarstefnu og sálgreiningu (sbr. rit Peters Brook og Réne
Girard). Greiningin á samhenginu mótast í fyrsta lagi af bókmennta-
sögulegri nálgun - og fram koma forsendur til endurskoðunar bók-
menntasögunnar á femínískum forsendum; í öðru lagi af viðtökufræði -
kannaður er vitnisburður um viðbrögð við skáldverkum kvenna; og í
þriðja lagi af menningarfræðilegri könnun frá femínískum sjónarhóli -
en þar skiptir sálgreiningin raunar einnig talsverðu máli, ekki síst vegna
þess að þunglyndið (,,melankólían“) sem Dagný fjallar um er ekki bund-
ið verkum eins höfundar, heldur reynist vera einkenni á félagslegum
menningaraðstæðum sem skipta konur sköpum. (I ljósi þess hvernig
orðinu „þunglyndi" er beitt í almennri og læknisfræðilegri málnotkun
kann það í fyrstu að koma íslenskum lesendum spánskt fyrir sjónir sem
hugtak um menningu en það venst og hefur auk þess vissa kosti sem
þýðing á ,,melankólíu“.)
Næst má þá spyrja um greinargerð fyrir vísindalegum forsendum rit-
gerðarinnar og þeirri rannsóknasögu sem hún byggist á - annarsvegar
hvað varðar verk Ragnheiðar Jónsdóttur en hinsvegar á þeim fræðasvið-
um sem hér koma við sögu. Til þessa hafa skáldsögur Ragnheiðar Jóns-
dóttur lítt verið í bókmenntafræðilegri umræðu og brýtur ritgerðin blað
að því leyti. Hin fræðilegu aðföng koma hinsvegar víða að og erfitt er að
segja hversu langt eigi að ganga í að greina frá stöðu rannsókna að því
leyti. Margt verður að draga saman og ekki er hægt að ætlast til að höf-
undurinn lýsi baksviði eða samhengi allra þeirra rita og kenninga sem
hún nýtir sér á sviðum femínisma, sálgreiningar, frásagnarfræði og bók-
menntasögu. Hvað femínismann varðar er gerð grein fyrir þeim félags-
legu áherslum og baráttumálum sem einkenndu kvenfrelsishræringar á
áttunda áratugnum (s. 16-28) og vikið m.a. að brautryðjandastarfi Helgu
Kress hér á landi á þeim tíma. Eftir það fara að myndast ýmis tengsl milli
femínisma og sálgreiningar jafnt sem annarra hræringa sem oft eru kall-
aðar einu nafni „póststrúktúralismi“. Dagný segir furðulítið um þetta
tímabil hér á landi, það er að segja síðustu 10-15 árin. Ef til vill finnst
henni óþægilegt að rekja umræðu sem hún hefur sjálf verið þátttakandi í.
Dagný segir raunar í inngangi að hún líti á póststrúktúralismann sem
„jákvæða, róttæka endurskoðun" fyrir femínismann (31), en áður hefur
hún sagt að hún hafi „reynt að forðast nýrri femínískar kenningar undir
áhrifum „afbyggingar" (deconstruction)“ (13). Nú má leiða rök að því að
afbyggingin sé einmitt það róttæka afl sem býr víða í póststrúktúralískri
endurskoðun í hugvísindum. Mér leikur forvitni á að heyra nánar hvaða
mörk Dagný kýs að draga þarna, þar eð mér finnst það ekki koma glöggt
fram í ritgerðinni.