Skírnir - 01.04.1997, Síða 211
SKÍRNIR
KONA, SÁLGREINING, HÖFUNDUR
205
Ég tel að Dagný Kristjánsdóttir hafi unnið íslenskri bókmenntafræði
mikið gagn með kynningu sinni og beitingu á sálgreiningu í þessu riti,
jafnt kenningum Sigmunds Freud, sem gerð er prýðileg grein fyrir, sem
og kynningu á margvíslegri sálgreiningarumræðu sem komið hefur í
kjölfar Freuds. Vitanlega er hún ekki fyrst til að fjalla ítarlega og alvar-
lega um Freud hér á landi - ég minni á verk Sigurjóns Björnssonar sál-
fræðings og þýðanda Freuds og eins má benda á grein eftir Róbert
Haraldsson heimspeking í hausthefti Skírnis 1994, grein sem er að hluta
skrifuð til varnar Freud. I umræðu sinni, sem lýtur sérstaklega að bók-
menntagreiningu, snýst Dagný einnig oftar en ekki til varnar Freud -
enda veitir ekki af, því ég efast um að nokkur hugsuður hafi mátt sæta
annarri eins mergð af sleggjudómum og hann - stundum meðal fræði-
manna, en iðulega meðal þokkalega menntaðs almennings. Sumir vísa
með öllu á bug (oft án þess að hafa lesið verk hans) kenningum hans um
dulvitundina, hvatirnar og bernskumótunina. Ef ævinni má líkja við ferð
með geimflaug, þá virðast margir líta á bernskuna sem flugtaksbúnaðinn
sem sleppt er þegar komið er út fyrir aðdráttarsvið (móðurP)jarðar og
skiptir ekki máli fyrir framhald ferðarinnar. Dagný fjallar einmitt um
persónur í verkum Ragnheiðar Jónsdóttur sem búa við svo sundurslitna
lífssýn.
Sleggjudómarnir um Freud byggjast oft á því að umfjöllun hans um
kynferðismótun og táknrænar hliðar hennar er skilin beinum líkamleg-
um skilningi (sem er kaldhæðnislegt vegna þess að hlutaðeigandi gengur
lengra í kyn-legum viðbrögðum sínum en fræðimaðurinn sem ásakaður
er um að hugsa of mikið um kynferði). Viðbrögðin við kenningu Freuds
um „tippisöfundina", ekki síst meðal kvenna, eru kannski eitt besta
dæmið um almennan misskilning á Freud. Hugtakið er þá skilið sem vís-
un á bælda löngun til að eignast og ganga með lim; semsagt til að verða
karlmaður. (I vissum skilningi eru það líklega fyrst og fremst einstaka
karlmenn sem eru haldnir svona öfund! - þrá eftir ótvíræðri eða bólginni
karlmennsku.) En sú tippisöfund (og ég veit að hugtakið er ekki að öllu
leyti gott og á sjálft nokkra sök á misskilningnum) - sú tippisöfund sem
hér um ræðir lýsir sér alls ekki í löngun til að verða eins og karlmaður
heldur er hún þrá eftir annars konar (upp)fyllingu, heildstæðri tjáningu.
Bæði kynin eru haldin þessari þrá en staða karla auðveldar þeim úr-
vinnslu (eða undankomuleið!), því að vitundin um hið fallíska vald er
flutt yfir á karlkynið og stöðu föðurins. Viðbrögð konunnar eru flókn-
ari; hún þarf að horfa á eftir valdinu (þ. á m. því valdi sem móðirin býr
eða bjó yfir) yfir í kynferðisstöðu sem hún getur ekki uppfyllt. Eftir sit-
ur þrá hennar eftir fyllingu, valdi, sjálfstæðri tjáningu. Sú þrá getur
tengst löngun til að ala barn, sem er einstæður tjáningarmáti kvenna, og
það er þrá til að eignast og gefa í senn - að fórna og stjórna. I ritgerð
sinni sýnir Dagný fram á hvernig þetta hugtak Freuds og ýmis önnur