Skírnir - 01.04.1997, Blaðsíða 212
206
ÁSTRÁÐUR EYSTEINSSON
SKÍRNIR
geta gagnast okkur við að lesa texta, og í vissum skilningi eru öll lífs-
mynstur texti - vefur sem við rýnum í.
VI
Greining Dagnýjar leiðir í ljós að textar Ragnheiðar Jónsdóttur eru á
ýmsan hátt vel til sálgreiningar fallnir, einkum þó sagnaflokkurinn um
Þóru frá Hvammi. Hann byggist á flóknum fjölskyldumynstrum, þar
sem mikið er um að einstakar persónur séu í miðlunarstöðu milli annarra
(t.d. verður Þóra fráhverf móður sinni en myndar síðar viss móðurtengsl
við aðra konu, Ólöfu, sem reynist henni vel - þetta skiptir miklu máli
þar sem verkið mótast jafnframt mjög af móðurhlutverki Þóru sjálfrar).
Það fjölskyldunet sem umlykur aðalpersónuna reynist á endanum
þéttriðnara en hana gat sjálfa órað fyrir. Með ítarlegri greiningu sinni
dregur Dagný saman ótalmarga þræði þessa viðamikla verks. Hvað við-
fangsefni varðar eru Þórubækurnar þungamiðja ritgerðarinnar, ekki að-
eins vegna þess að Dagný ver mestu rými í þær, heldur einnig vegna þess
að í greiningu þeirra nær hin fræðilega umfjöllun mestri dýpt. Dagný
kemst svo að orði að þunglyndið sé „hinn fljótandi kjarni“ allra skáld-
sagna Ragnheiðar (13), en jafnframt verður þunglyndið viss samnefnari
þeirrar kenningalegu og fræðilegu umræðu sem fram fer í ritgerðinni.
Þunglyndið leiðir saman sálgreininguna og þær femínísku kenningar sem
stuðst er við; það birtir vissa sýn á mótun sjálfsvitundar í samfélagi þar
sem konan er undirskipuð en býr þó yfir nægilegu svigrúmi til „nei-
kvæðrar uppreisnar“ (221) - hún getur hreyft sig í rými þunglyndisins.
Hið óbeina mat á höfundarferli Ragnheiðar sem felst í greiningu
Dagnýjar, sem og áherslur í fræðilegri umfjöllun, undirstrika miðlægni
Þórubókanna í ritgerðinni. Beint mat Dagnýjar á skáldsögunum er hins-
vegar ekki að öllu leyti í takt við þetta. Hún segir í tvígang að skáldsagan
Mín liljan fríð sé „listrænn hápunktur" á ferli Ragnheiðar (225 og 331),
„ljóðrænasta bók“ hennar „og jafnframt dýpsta sálkönnun“ (242).
Greiningin á verkinu rennir ekki miklum stoðum undir þetta mat og
rökstuðningurinn sem fylgir síðastnefndu yfirlýsingunni er vægast sagt
veikbyggður, ekki síst með tilliti til mikilvægis sálgreiningar í ritgerð-
inni: „[...] dýpsta sálkönnun hennar í þeim skilningi að Lilja er ekki full-
trúi hóps eða kynslóðar á sama hátt og Þóra frá Hvammi, Lilja hefur
ekki félagslegan metnað eða möguleika eins og Þóra, Þóra er „afbrigði-
leg“ en verður „eðlileg“ í augum samfélagsins, Lilja er „afbrigðileg“ og
hið „eðlilega“ er svo óaðgengilegt í hennar augum að hún kýs heldur að
deyja“ (242). Alíka torræð er sú athugasemd að Villieldur sé „ekki sál-
fræðileg skáldsaga, a.m.k. ekki á yfirborðinu" (295). Lesandi hlýtur að
spyrja hvort sögur opni ekki sálrænt dýpi sitt undir yfirborðinu. Mér
finnst einmitt að greiningin á þunglyndi í tengslum við kynferði veiti
vissan aðgang að verkum eins og Villieldi; verki sem byggir mjög á þögn.