Skírnir - 01.04.1997, Page 214
208
ÁSTRÁÐUR EYSTEINSSON
SKÍRNIR
„sjúkdómsgreina" höfundinn með hjálp persóna hans eins oe í hinni sál-
greinandi ævisögu?“ (216). Dagný svarar þessu ekki beint. A lokasíðum
kaflans vitnar hún í ummæli Ragnheiðar sjálfrar um tengsl hennar við
Þóru - en þar er Dagný í raun að víkja sér undan spurningunum. Loka-
orðin eru á þá lund að Þóra verði kona eins og hæfa þótti á kaldastríðsár-
unum, en þunglyndið verði sjálfseyðileggjandi, neikvæð uppreisn gegn
slíkri samfélagstamningu (221). En Dagný er ekki enn búin að svara
spurningunum um stöðu höfundarins; í millitíðinni hefur hún raunar
skotið inn umfjöllun um það hvernig Julia Kristeva túlkar orðræðu
franska höfundarins Marguerite Duras sem þunglynda og hættulega, og
á hún þá við sjálfan texta Duras sem höfundartjáningu en ekki sem um-
fjöllun um persónur. Nálægt bókarlokum kemur Dagný aftur að þessu
efni og segir að í skáldsögum sínum hafi Ragnheiður Jónsdóttir sýnt
hvernig staða kvenna var til orðin, „ekki aðeins hið neikvæða frelsi
þeirra vegna þess að í því felst engin saga, heldur hvernig jákvætt frelsi
hverfist í neikvætt og hvernig „kona verður til““ (399). Eigum við að
draga þá ályktun af þessu að „uppreisn" Ragnheiðar sjálfrar sé þá ekki
„neikvæð" og „þunglynd", því að verk hennar afhjúpi hversu torsótt hið
jákvæða frelsi kvenna er? Hinsvegar er uppreisn hennar varla „jákvæð“,
því ætla má að hið jákvæða frelsi þurfi ekki að mótast af andófi eða upp-
reisn. Og í bókarlok segir raunar um „þunglynda texta“ Ragnheiðar og
annarra kvenhöfunda á tímabilinu að þeir feli í sér „neikvæða uppreisn"
gegn þögninni og því hlutskipti sem konum sé almennt ætlað (419).
Er þá ekki grundvallarmunur á höfundinum og kvenhetjum hennar
(svo ég leyfi hinu líffræðilega kyni að taka völdin af því málfræðilega)?
Eða felst munurinn beinlínis í skrifum þessara verka? En hver er þá að-
gangur okkar að Ragnheiði Jónsdóttur? Þessi spurning verður æ áleitnari
eftir því sem maður kynnist bók Dagnýjar betur. Dagný tekur skýrt
fram að hún sé ekki að skrifa ævisögu höfundarins - það er á sinn hátt
skemmtilega dæmigert að málsgreinin „Ragnheiður Jónsdóttir fæddist 9.
apríl árið 1895 á Stokkseyri“ birtist ekki fyrr en á síðu 307 í bókinni. Á
hinn bóginn leiðir greiningin á skáldsögunum fram höfundinn í textan-
um („söguhöfundinn") og jafnframt er Dagný að rekja höfundarferil,
þannig að það örlar á hinum ævisögulega höfundi á bak við breytilegan
söguhöfundinn. Og þegar kemur að viðtökum verkanna og hinu menn-
ingarlega samhengi, þá erum við að tala um mann sem lagði fyrir sig rit-
störf í þessu þjóðfélagi - við erum ótvírætt stödd í hinum efnislega heimi
þar sem eru höfundar, ritdómarar, útgefendur og lesendur af holdi og
blóði. I raun lendir Dagný í svipuðum vanda og Kristeva með Duras
þótt viðbrögð hennar séu önnur. Titilinn Kona verður til hlýtur einum
þræði að mega skilja sem svo að hann vísi til Ragnheiðar sjálfrar: „kven-
höfundur verður til“. Og eins og Dagný sýnir glöggt fram á þá er sú saga
ekki sigurför í félagslegum skilningi, heldur einmitt saga þess hvernig