Skírnir - 01.04.1997, Side 217
SKÍRNIR
KONA, SÁLGREINING, HÖFUNDUR
211
þann skilning (og ég held að hugtakið „sálfræðilegt raunsæi“, sem tengir
saman sálfræðilega nálgun og ákveðna aðferð við að skírskota til veru-
leikans, sé mun nytsamlegra en „sálfræðileg skáldsaga", sem leitast við að
setja sálfræðilega nálgun í samband við tiltekna bókmenntagrein). Dagný
bætir við að Ragnheiður skrifi „á mörkum raunsæis og módernisma í ís-
lenskum bókmenntum“ (12). Síðar er þó sem Dagný sjái fremur í ferli
Ragnheiðar einskonar þróun í átt til módernisma og hún segir að
Villieldur, síðasta bók Ragnheiðar, sé ólík öðrum verkum hennar,
módernískari í byggingu (272), „nær módernisma en raunsæi" (304).
Jafnframt segir að í verkum Ragnheiðar sé „tryggð haldið við hina raun-
sæju frásagnarhefð en trúin á samskiptahæfni tungumálsins virðist eiga
undir högg að sækja í síðustu bókum hennar [...]“ (304). Dagný er
nokkuð tvístígandi hér og þrátt fyrir að frásögn Villields byggist á
breytilegu sjónarhorni færir Dagný ekki fram sannfærandi rök fyrir því
að það sé til skilningsauka að kalla formgerð þeirrar skáldsögu eða ann-
arra verka Ragnheiðar móderníska, né heldur fyrir því að í verkunum
megi sjá „eins konar brú á milli raunsæis og módernisma“ (52). Hér
vaknar sú spurning hvort þessi lýsing á fagurfræði - sem mér finnst
almennt eiga betur við um feril Jakobínu Sigurðardóttur en verk Ragn-
heiðar Jónsdóttur - sé sprottin af þörf til að staðfesta nútímaleika í verk-
um Ragnheiðar (ekki síst í ljósi ummæla karlgagnrýnenda um hina
kvenlegu hefð, sem ég mun víkja að hér í lokin).
Miklu nær sanni virðist vera að Ragnheiður sé að „breyta raunsæinu
innan frá“, eins og Dagný kemst annars staðar að orði (532), og þarmeð
viðhalda raunsæinu sem nútímalegum framsetningarhætti fremur en að
bregðast gegn því af þeirri róttækni sem við blasir til dæmis í ýmsum
módernískum verkum sem út komu á Islandi um svipað leyti og
Villieldur. Dagný rekur prýðilega helstu einkenni þessa sálfræðilega
raunsæis, og með hliðsjón af kenningum Romans Jakobson rökfærir hún
hvernig myndast getur innri spenna í hinum raunsæja texta (50-51).
Greiningin á Þórubókunum staðfestir einmitt virkni slíkrar spennu -
það mætti kannski lýsa henni sem hljóðlátu ofboði - í texta sögumanns-
ins Þóru, texta sem togast á milli afhjúpunar og blekkingar.
Þetta mikilvæga athugunarefni lendir að nokkru leyti í skugga
annarra en þó tengdra spurninga - spurninga sem lúta að kvennabók-
menntum, femínisma og tilvistarstefnu. Það skiptir miklu hvernig afstaða
Ragnheiðar til hefðar og framsetningar tengist þeim spurningum, m.a. í
ljósi þess að Ragnheiður fer sjálf í mjög hefðbundnar varnarstellingar
gagnvart módernistum, eða þeim sem gera uppreisn gegn hefðbundinni
frásagnarhefð og láta „sögur gerast í stílnum" - en Ragnheiður bregst í
formála að smásagnasafni sínu við þessu orðalagi Kristjáns Karlssonar
um Thor Vilhjálmsson (sbr. s. 329). I víðara samhengi þessarar umræðu
kemur módernisminn við sögu á merkilegan hátt, þ.e. í umfjöllun Dag-
nýjar um menningarlíf eftirstríðsáranna. Dagný leggur áherslu á að