Skírnir - 01.04.1997, Side 223
SKÍRNIR
AÐ LOKNU GULLÆÐI
217
rekja til annarra menningarsvæða en Vesturlanda sem þessar breytingar
hafa orðið. Þessi þróun er sérlega áberandi í Bandaríkjunum þar sem
fræðimenn, sem leggja áherslu á kynþátt og kynhneigð ekki síður en
kynferði, hafa leitt í ljós hvernig samskipti innan samfélagsins eru ætíð
undirseld valdi af einhverri gerð, og að ýmsir þættir aðrir en kynferði
hafa áhrif á hvernig þetta vald dreifist, hvernig því er beitt og hver er
handhafi þess.7
Þegar horft er á samfélagið frá þessu sjónarhorni verður augljóst að
hið karllega norm sem áður var minnst á er ekki nauðsynlega sama fyrir-
bærið og karlar, og þar með að karlar falla ekki endilega að norminu.
Um leið verður hæpið að ganga út frá því að karlar séu „ekki kyn“ og
þess vegna komi kynjaumræðan þeim ekki við. Oðru nær, ef við lítum
svo á að staða okkar hvers gagnvart öðru, og sjálfsmynd okkar raunar
líka, byggi á hömlum og valdaformgerðum tungumáls og samfélags,
hlýtur að vera hægt að kanna stöðu karla á sama hátt og kvenna innan
þeirra valdaformgerða.8
Karlasögur
Upphaf skáldverks Einars Kárasonar um íslensku mafíuna, sem út kom í
tveimur bindum á árunum 1992 og 1994, er fyrirtaks upphafspunktur
fyrir þessa kynnisferð um lendur íslenskrar karlmennsku í nýlegum
skáldsögum.9 Þar segir frá komu hins unga Halldórs Killians á óðal ættar
sinnar, Lækjarbakka, eyðilegan stað rétt fyrir utan Reykjavík. Halldór er
kominn á fornar slóðir í heimildaleit. Hann ætlar sér að verða rithöfund-
ur og sér vænlegt efni í sögu ættar sinnar. Á Lækjarbakka er heldur öm-
urlegt um að litast, en táknrænt í meira lagi. Húsin eru í niðurníðslu og
hvarvetna má sjá minnismerki um athafnir forfeðra hans af tveimur kyn-
slóðum. Þarna er jarðýta föður hans, ryðguð og þakin grasi og njóla, og
slangur af ónýtum bílum sem föðurbræður hans hafa ekki getað nýtt í
varahluti. Þar er einnig að finna hræ af gamalli vélasamstæðu, gull-
vinnsluvél sem átti að vinna gull úr jörðu á þessum slóðum. Vélina eign-
aðist ættfaðirinn, Sigfús Killian skömmu eftir aldamót í samvinnu við
skáldið og athafnamanninn Einar Benediktsson. „Þarna átti að hefjast
7 Dæmi um gagnrýni af þessu tagi má finna í Paul Smith (ritstj.): Boys. Mascul-
inities in Contemporary Culture. Westview Press. Boulder, Colorado 1996.
8 Um þetta sjá m.a. Michael S. Kimmel (ritstj.): „Rethinking Masculinity. New
Directions in Research." Changing Men. New Directions in Research on Men
and Masculinity. Sage Publications. London/New Delhi 1987, s. 11-14.
9 Bindin tvö nefnast Heimskra manna ráð og Kvikasilfur, leikgerð sem Einar
vann upp úr þeim ásamt Kjartani Ragnarssyni nefnist Islenska mafían, og
verður það heiti notað hér, enda virðist það ætla að festast við sögurnar.