Skírnir - 01.04.1997, Blaðsíða 224
218
JÓN YNGVI JÓHANNSSON
SKÍRNIR
endurreisn þjóðarinnar eftir allar hunguraldirnar“, segir sögumaður (EK
Í.8).
Gullgröfturinn fer auðvitað út um þúfur. En Sigfús gefst ekki upp,
og á eyðistaðnum þar sem hann ætlaði að vinna gull úr jörðu fer hann að
mala gull úr gullgrafaratækjunum. Þau reynast vera drjúg uppspretta
varahluta í öll þau nýju tæki sem fylgja iðnvæðingu á Islandi. Þegar sú
náma er tæmd hefst Sigfús handa við að sanka að sér ónýtum bílum og
rífa í varahluti. A þessari atvinnustarfsemi lifir hann og fjölskyldan.
Gullgröfturinn verður þannig upphafið að risi ættarinnar til umsvifa og
tímabundins ríkidæmis. Synirnar halda merki föður síns á lofti í ævin-
týramennsku og draumórum. Einn heldur áfram rekstri partasölunnar.
Annar bróðirinn verður alþjóðleg íþróttahetja og seinna bankastjóri
stærsta banka á Islandi, en lýkur ferlinum sem almennur tugthúslimur,
og sjúklingur langt fyrir aldur fram. Tveir bræðranna feta menntaveginn,
annar verður geðlæknir, hinn geðveikur, en sá yngsti verður ósvikinn
braskari og ævintýramaður. Þetta er Bárður Killian, faðir sögumanns.
Halldór stendur í rústum þessarar glaðbeittu athafnasemi þegar hann
segir sögu sína og ættarinnar. Hann stendur að ýmsu leyti í skugga föður
síns og annarra karla í fjölskyldunni. Hann hefur aldrei verið athafna-
maður og af honum eru ekki sagðar sögur. Þess í stað kýs hann að segja
þær, og þess vegna, eins og minnt er á með nafni hans, á hann sér einn
máttugan forvera til viðbótar: nafna sinn, Nóbelskáldið Halldór Kiljan
Laxness. Sagan sem Halldór segir er öðrum þræði þroskasaga hans sjálfs,
eins og síðar verður vikið að; saga um uppvöxt hans innan um þessar
tröllauknu fyrirmyndir og tilraunir hans til að finna sér stað meðal þeirra
eða losna undan áhrifamættinum sem þær búa yfir.
Sigurbjörn Helgason, aðalsöguhetja Tröllakirkju eftir Ólaf Gunnars-
son, á ýmislegt sameiginlegt með athafnasömum ættmennum Halldórs
Killians. Sigurbjörn er arkítekt, og hefur lengi unnið sem aðstoðarmaður
Húsameistara ríkisins. Hann hefur tekið þátt í uppbyggingu hinnar ungu
höfuðborgar sem er sögusvið bókarinnar og er því maður hins nýja tíma
á svipaðan hátt og Sigfús, þótt hann sé raunar kynslóð yngri. Sigurbjörn
dreymir stóra drauma og reynir að hrinda þeim í framkvæmd, en þá er
vegið að honum úr óvæntri átt - Þórarni syni hans er nauðgað.
Áður en að því kemur hefur lesandinn fengið góða innsýn í samband
feðganna. Sagan hefst þar sem þeir spásséra saman uppábúnir og snyrti-
legir, fullkomnar ímyndir borgaralegrar karlmennsku. Fyrstu setningar
sögunnar eru þessar:
Sigurbjörn Helgason arkitekt átti bágt með að hugsa sér verri smán
en þá að ganga illa til fara. Jafnt vetur sem sumar fór hann í langar
gönguferðir með syni sínum Þórarni ef veður var fallegt. Feðgarnir
voru afar samrýmdir og fólkið í hverfinu brosti þegar þeir birtust
niðursokknir í spjall, alvörugefnir og prúðbúnir báðir tveir. (ÓG, 9)