Skírnir - 01.04.1997, Síða 226
220
JÓN YNGVI JÓHANNSSON
SKÍRNIR
hvernig þeir færast síðar hvor frá öðrum og að lokum er greint frá
tragískum örlögum þeirra. Kjartan er athafnamaður, sífellt að áforma,
þótt hann geri í raun aldrei annað en að skálda upp athafnir og láta sig
dreyma um þær. Hrafn stendur hins vegar í skugga Kjartans, og segir
sögu þeirra. Enn er upphaf bókarinnar um margt upplýsandi um það
sem á eftir kemur:
Ég man hvernig alltaf geislaði af honum þegar hann talaði og hvernig
allt eins og slokknaði þegar hann hafði þagnað, brosið hvarf og blik
augnanna hætti að streyma í allar áttir og varð aðeins mjór geisli sem
boraði í það sem fyrir varð, dofnaði hægt og dó. (5)
Hér birtist strax afstaða þeirra fóstbræðra hvors til annars. Það er Hrafn
sem segir frá, en frásögn hans hnitast öll um Kjartan, líkt og líf hans og
sjálfsmynd verði ekki til nema fyrir tilverknað vinarins. Frásögn Hrafns
er að drjúgum hluta byggð upp af því hvernig hann sér Kjartan og
hvernig Kjartan mótar í sífellu líf þeirra beggja. Kjartan er miðdepill frá-
sagnarinnar, en Hrafn baðar sig í ljósinu sem frá honum stafar, þegar það
deyr út hverfur hann um leið.
Hrafn stendur líkt og Halldór Killian á hálfgerðum berangri, þegar
hann segir sögu sína, þótt persónulegur ósigur hans sé miklu meiri.
Hann hefur sjálfur glatað öllu, heimili og fjölskyldu. Hann er fórnar-
lamb þeirrar bábilju sem hvað eftir annað er sagður kjarni íslenskrar
tilveru í sögunni, að hægt sé að skálda líf sitt úr draumum, að verða sjálf-
stæður maður og hefja sig þannig yfir aðstæður sínar.
I bakgrunni þessarar fóstbræðrasögu er frásögn af Sigurði, föður
Kjartans, sem reynist raunar einnig vera faðir Hrafns þótt þeir og lesend-
ur komist ekki að því fyrr en langt er liðið á frásögnina. Sagan af Sigurði
er saga af íslenskum sveitamanni sem kemur á mölina, heillaður af mögu-
leikum nútímans; hann ætlar sér að verða þáttur í þessum glæsta nýja
tíma í sögu lands og þjóðar, og um leið hyggst hann koma undir sig fót-
unum, byggja upp, verða sinn eigin herra. Hann er slitinn úr samhengi
við fortíðina, líkt og persónur Tröllakirkju og Islensku mafíunnar, en
hann hefur sjálfur skorið á rætur sínar, flust úr sveitinni, neitað að vera
einn hlekkurinn enn í þeirri keðju „landnámsmanna“ sem eru forfeður
hans, Jón Sigurðsson Jónssonar Sigurðssonar langt aftur í aldir. Kjartan
og Hrafn eru framhald þessarar ættar landnámsmannanna, og segja má
að í sögu þeirra sé sagan af Sigurði og hinni íslensku nútímavæðingu
endurtekin. Saga þeirra fóstbræðra er hliðstæð sögu Halldórs Killians og
forfeðra hans, en í Islenska draumnum eru þeir færðir inn í sömu kyn-
slóð, athafnamaðurinn Kjartan og áhorfandinn Hrafn, sem stendur utan
hinnar karllegu athafnasemi. Það er raunar einn helsti styrkur bókarinn-
ar hvernig sú saga í senn styður og dýpkar þá greiningu og vangaveltur
sem fer fram á síðum hennar og í tengslum við söguna af Sigurði.