Skírnir - 01.04.1997, Page 228
222
JÓN YNGVI JÓHANNSSON
SKÍRNIR
t.a.m. marxisminn, sálgreiningin og síðast en ekki síst sú framfaratrú sem
fylgt hefur vestrænum þjóðfélögum frá því á tímum upplýsingarinnar. I
samtímanum, á hinum póstmóderna tíma, hafa þessar frumsagnir glatað
krafti sínum og í stað þeirra hafa orðið til ýmsar smásagnir, staðbundnar
eða jafnvel einstaklingsbundnar frásagnir til skýringar á veruleikanum.
Lyotard sér ákveðið frelsi í þessu hruni frumsagnanna. Hið póstmóderna
ástand einkennist af nýjum möguleikum og rými innan hins kapítalíska
þjóðskipulags sem gefur færi á andófi gegn skipulaginu sjálfu. Eg er ekki
sannfærður um síðastnefnda atriðið, a.m.k. er augljóst að slíkt frelsi fæst
ekki ókeypis og ef frumsagnir okkar um sífellda framþróun til betra lífs
eru fallnar - eins og allt bendir raunar til - hefur slíkt hrun ekki einungis
í för með sér frelsi, heldur einnig umtalsverðan sársauka.10
Skáldsögurnar sem hér eru til umræðu taka á þeirri frumsögn sem
hefur verið hvað öflugust í sjálfskilningi Islendinga á þessari öld; sögunni
um það hvernig aldagömlu skipulagi bændaþjóðfélagsins var kastað fyrir
róða og nútímaþjóðfélag byggt upp svo að segja í einu vetfangi. Sögurnar
snúast allar um uppbyggingu á einn eða annan hátt, meðal persóna þeirra
eru menn sem dreymir stóra drauma og reyna að hrinda þeim í fram-
kvæmd. Umfjöllunarefni þeirra er öðrum þræði hið sígilda efni íslenskra
nútímabókmennta: flutningurinn á mölina og rofið frá aldagamalli
sveitamenningu. En þær fjalla einnig um önnur umskipti, um hrun þeirra
gilda sem umskiptin til nútímans byggðu á og skipbrot þeirrar nýju
manngerðar sem nútíminn fæddi af sér.
I ágætri grein í Tímariti Máls og menningar árið 1995 vekur Kristján
B. Jónasson athygli á því hvernig athafnir og ákveðið viðhorf til vinnu
setur svip sinn á sögu Einars Kárasonar af Killian fjölskyldunni: „Þetta
er fyrst og fremst saga af „athöfnum". Athöfnum sem eru órjúfanlegur
hluti af þjóðfélagi möguleikanna og uppgripanna [...]. Þær eru tákn-
mynd þess tíma þegar bláfátækir alþýðumenn, líkt og Bárður Killian, ein
höfuðpersóna bókarinnar, geta komist í feitt ef þeir eru nógu útsjónar-
samir.“n Þetta hugarfar, að einstaklingarnir geti mótað örlög sín með at-
höfnum og vinnu, setur einnig svip á persónur í Tröllakirkju og Islenska
draumnum. Svið allra sagnanna er Island sem „gullgrafaraþjóðfélag“, þar
sem hver og einn lætur sig dreyma um að verða moldríkur í sviphend-
"ngu.
Þetta gullæði er málað sterkustum litum í sögu Einars Kárasonar.
Gullgröftur Sigfúsar Killians er táknrænn fyrir umsvif afkomenda hans
10 Kenningar sínar setur Lyotard fram í The Postmodern Condition. A Report on
Knowledge. Þýðendur G. Bennington og B. Massumi. University of Minne-
sota Press. Minneapolis 1984.
11 Kristján B. Jónasson: „Ár stöðugleikans. Um nokkrar skáldsögur sem komu
út á árinu 1994.“ Tímarit Máls og menningar 4/56 (1995), s. 110.