Skírnir - 01.04.1997, Side 240
234
JÓN YNGVI JÓHANNSSON
SKÍRNIR
hann einnig og þroskar líkamlega. Hann á í erfiðleikum með þunga
sendilshjólið í fyrstu, en nær smám saman valdi á því:
Þórarinn reyndi næstum daglega við Bókhlöðustíginn. Hjólið
slengdist til og frá, læri og kálfar þyngdust, honum svelgdist á, hann
verkjaði í fæturna, hjartað dundi, steingarður Menntaskólans varð
skjannahvítur, rauðu húsin dimmrauð og það græna fyrir botni
götunnar logandi grænt, hann hallaði sér fram en fékk ekki bifað
pedölunum. Hann steig niður og horfði upp á horn. Furðu fljótt
höfðu komið vöðvar í ljós sem hann vissi ekki að væru til. (ÓG, 119)
Hér má sjá framhald af fyrri lýsingum Þórarins, sem verðandi karl-
manns; vinnan þroskar hann og gerir líkama hans harðari og vöðvastælt-
ari. Við fylgjumst með vaxandi þroska hans og tilraunum til sjálfstæðis.
Þær felast m.a. í því að hann „leikur" fullorðinn karlmann þegar hann
reynir að selja hluti í Vöruhúsinu fyrir Sigurbjörn (ÓG, 80-81). Á ferð-
um sínum um bæinn dáist Þórarinn að byggingum föður síns og horfir
jafnframt á húsin í bænum með augum hans:
Hann þaut Laufásveginn, hjá fjölda húsa í fúnkisstíl, upp Hellusund
[...]. Hvað hét stíllinn hér? I garðinum var kassalaga viðbygging með
stórum gluggum, var þetta bölvaður Kalíforníu stíllinn sem Sigur-
björn hafði svo oft úthúðað brúnaþungur? Eða geómetríski strang-
flatarstíllinn? (ÓG, 69)
Þroski Þórarins felst þannig bæði í sjálfstæði frá föður sínum og í því að
hann líkir sífellt meira eftir honum, enda bölvar hann honum og hefur
hann til skýjanna á víxl.
En nauðgunin í Vöruhúsinu bindur enda á þetta nýja líf Þórarins,
hann dregur sig út úr heiminum eftir árásina og um leið verður ákveðin
breyting á frásagnaraðferð bókarinnar. Alvitur sögumaður, sem hefur
verið mjög nálægur Þórarni, fjarlægist hann nú að mestu og sér örsjaldan
í huga hans eftir nauðgunina. Þess í stað eru birt brot úr skrifum
Þórarins og dagbókarfærslum. „Brot“ er líka rétta orðið til að lýsa Þór-
arni, í stað þess heilsteypta „manns“ sem hann var að verða birtist hann
okkur niðurbrotinn og í brotum. Heimur hans er í uppnámi og hann
kennir föður sínum og svikum hans um ógæfu sína: „Eg hata föður
minn. Ég hata hann pabba“ (167) er ein af færslum hans í dagbókina.
Önnur dagbókarfærsla og kannski sú athyglisverðasta er eftirfarandi:
„Allir vita allt um mig. Ég er ekki lengur ég“ (168). Það „ég“ sem hér
hefur glatast er sú sjálfsmynd Þórarins sem var að mótast, sú mynd sem
lesendum og fólkinu í hverfinu er sýnd í upphafskafla bókarinnar, þar
sem hann gekk bísperrtur við hlið föður síns. Sú sjálfsmynd hverfur með
nauðguninni, og þess í stað er hann merktur henni, nauðgunin verður