Skírnir - 01.04.1997, Page 242
236
JÓN YNGVI JÓHANNSSON
SKÍRNIR
Þessi hreyfing Þórarins frá föður sínum er einnig hreyfing frá þeim
heimi sem Sigurbjörn er læstur í, heimi geðveiki og úrkasts. Þórarinn er
ekki einungis að rýma til fyrir móður sinni, sem alla söguna hefur staðið
föstum fótum í samfélaginu, heldur einnig og kannski fyrst og fremst
fyrir lögreglunni, fulltrúa samfélagsins, sem hann veit að er komin til að
sækja föður hans. Þannig þokast Þórarinn þrátt fyrir allt í lok sögunnar
aftur í átt til þess samfélags sem hann er útlægur úr. Það er raunar
athyglisvert hvernig öllu er hér umsnúið, það er móðirin sem kemur á
milli föður og sonar, og táknar þannig endurinngöngu sonarins í samfél-
agið. Faðirinn stendur hins vegar fyrir það sem samkvæmt hefðinni er
tengt konunni: úrkastið, hið líkamlega og óhreina.
Við lok Tröllakirkju er því sleginn ákveðinn bjartsýnistónn. Þrátt
fyrir að Sigurbjörn farist er gefið í skyn að Þórarinn eigi afturkvæmt til
manna. En Sigurbjörn hverfur okkur á vit fangelsisins og á ekki aftur-
kvæmt. Hann hefur tapað öllu, og undir lokin meira að segja syni sínum.
Líkt og sögur þeirra Guðmundar Andra og Einars Kárasonar segir
Ólafur Gunnarsson sögu af ráðandi karlmennskuhugmynd sem er horf-
in, ímynd sem mótaðist af samfélagi sem hvarf með henni. Heimur feðr-
anna er liðinn undir lok. Eftir standa arftakar þeirra, synirnir, að því er
virðist með sín mál óuppgerð. Þeir lifa í rústum goðsagnanna, þeir eru
ráðvilltir og geta ekki og vilja ekki taka á sig þau hlutverk sem feður
þeirra hafa leikið. I frásögnum útmála þeir heim feðranna, þann heim
sem var merktur athafnaæðinu. Afstaða þeirra er vissulega gagnrýnin, en
gagnrýni þeirra er ekki reist á neinu mótvægi, engri fastri undirstöðu,
heldur er hún hluti að leit þeirra að nýrri sjálfsmynd í þeim heimi sem
tekur við að gullæðinu loknu.