Skírnir - 01.04.1997, Blaðsíða 245
SKÍRNIR
FÉLAGSVlSINDAMANNA SAGA
239
sem þær færi okkur nytsamlega vitneskju um menningu íslendinga á
tíma goðaveldisins.
Eftirsókn eftir hagnýtum félagsvísindalegum gögnum breytir inntaki
fræðibrýna fyrri tíma og sýnir reipdráttinn milli sagnfestu- og bókfestu-
kenninga í nýju ljósi. í stað þess að leita endanlegs sannleika eru félags-
vísindamenn einfaldlega á höttunum eftir „góðum og gildum ástæðum"
til að trúa á bestu tilgátur sínar.3 Til að vera nothæfar í þessum breiða
skilningi þurfa Islendingasögurnar ekki lengur að lúta þeim stífu kröfum
sem vanalega eru gerðar til strangvísindalegra „staðreynda“. Málið snýst
ekki um það hvort nota megi sögurnar sem félagsvísindaleg gögn, heldur
hvernig best fari á því.
Einn hinna áreiðanlegu heimildarmanna um innrás félagsvísinda er
hinn virti mannfræðingur Gísli Pálsson, sem ritar mjög skilmerkilegan
inngang að greinasafni því sem hann ritstýrir, From Sagas to Society, en
það er afrakstur ráðstefnu í Reykjavík árið 1991. Ef litið er á þessi þrjú
verk kemur í ljós að Gísli ber fram haldbestu rökin fyrir þvf að beita
verkfærum félagsvísinda í þágu rannsókna á Islendingasögum, jafnframt
því sem hann gerir best grein fyrir takmörkunum þeirra.
Að sögn Gísla vonast félagsvísindamenn til að breyta rannsóknum
íslendingasagna á tvo vegu. I fyrsta lagi vilja þeir færa áhersluna af hinu
málvísindalega yfirborði sagnanna að dýpri og bitastæðari greiningu, að
því sem Gísli kallar etnógrafískan veruleik,4 eða einfaldlega (og það er
dularfyllra) „líf“. Markmiðið er að afhjúpa hina duldu merkingu sagn-
anna með því að endurreisa samfélagið utan textanna. Þessi etnógrafíska
veröld, sérstæð og óháð hinu ritaða orði, skapar kjörin skilyrði fyrir nú-
tímalegan textaskilning. Hinn etnógrafíski veruleiki Gísla er félags- og
hagvísindalegt tilverusvið sem raunverulegir íslenskir miðaldamenn
byggðu einu sinni, sögulegt rými sem væri enn til þó að allar fornsög-
urnar hefðu orðið eldinum í Kaupmannahöfn að bráð. Það er um þennan
gleymda eða yfirgefna veruleika sem sögurnar snúast í raun og sann, og
sérfræðingar um Islendingasögur ættu nú að einbeita sér að því að end-
urgera hann, í stað þess að rýna í textatákn á gömlum dýrshúðum.5
Hin breytingin sem félagsvísindamenn tala fyrir tekur óvænta stefnu.
Með því að þeir hafa lýst þeirri fyrirætlun að endurskapa hinn etnógraf-
íska veruleik Islendingasagna geta þeir ekki látið yfirborð textans lönd
og leið. Þrátt fyrir mikla löngun til að sigrast á takmörkunum textans
þurfa félagsvísindamenn á sögunum að halda, vegna þess að þær eru sá
þýðingarmikli gagnagrunnur sem hinar nýju og djörfu alhæfingar þeirra
3 Sjá nánar um „góðar og gildar ástæður" í grein Gísla Pálssonar „Text, life, and
saga“, í From Sagas to Society, bls. 1.
4 Sjá skilgreiningu á etnógrafíu í grein Gísla Pálssonar hér í heftinu, bls. 37.
5 Sama heimild, bls. 19. Sjá einnig grein Jesses Byocks, „History and the sagas,
the effect of nationalism“ í From Sagas to Society, bls. 46.