Skírnir - 01.04.1997, Page 268
262
HRAFNHILDUR SCHRAM
SKÍRNIR
En ekki var þó allur sigurinn unninn þar sem konum var gert að setj-
ast í kvennabekki og fylgja sérstakri kennsluskrá. Til að mynda fengu
þær ekki tækifæri til að teikna nakið karlmódel og þar með var búið að
útiloka þær frá samkeppni við karlmálara. Trúarleg og söguleg myndefni
voru í mestum metum en þar voru karlmenn gerendur og í flestum hlut-
verkum.
Það þurfti mikla færni og þekkingu á byggingu karlmannslíkamans
og reyndar aðgang að honum, til að geta túlkað hann á sannfærandi hátt,
klæddan eða nakinn. Konur höfðu því enga möguleika á að þjálfa sig í
túlkun líkamans og völdu sér þess vegna myndefni sem þær þekktu og
var þeim nærtækara. Þær máluðu gjarnan sitt nánasta umhverfi, börn sín,
andlitsmyndir, dýr, blóm og fugla og sérhæfðu sig oft í ákveðnu mynd-
efni.
Helgu Kress hefur orðið tíðrætt um „myndmál smæðarinnar" í rann-
sóknum sínum á bókmenntum íslenskra kvenna. I fyrstu ljóðabók ís-
lenskrar konu sem út kom árið 1876, ávarpar Júlíana Jónsdóttir landa
sína:
Lítil mær heilsar
löndum sínum
ung og ófróð.
Þar kemur fram áhugi á að lýsa því sem er lítið og valdalaust, nærskynj-
un hversdagslegra fyrirbæra og daglegs umhverfis er í forgrunni. Finna
má ákveðna samsvörun í myndefnisvali kvenna á síðustu öld. Málverk
þeirra eru undantekningarlaust ákaflega lítil umfangs, smámyndir sem
hægt var að mála í stofuumhverfi og auðvelt var að skjóta undan.
Það var ekki fyrr en árið 1924 sem konur og karlar stóðu hlið við
hlið í dönsku listaakademíunni og máluðu nakið karlmódel og þar með
gátu konur keppt við karlmálara á jafnréttisgrundvelli. Þó að jafnrétti
fengist á pappírnum þá aftraði félagsleg mótun og staða kvenna þeim frá
því í reynd að framfylgja þeim réttindum sem þær höfðu náð.
Islenskar huldukonur
Hátt í tuttugu íslenskar konur hlutu myndlistarmenntun í Kaupmanna-
höfn á síðari helmingi 19. aldar. Vegna borgaralegs uppruna og fjárhags-
stöðu fjölskyldna þeirra voru þær fyrstu íslensku konurnar sem höfðu
tækifæri og þor til að láta drauma sína rætast og lögðu út á braut sérhæf-
ingar þó að leið þeirra yrði ekki löng. Allar sem ein sneru þær heim að
námi loknu, giftust, stofnuðu heimili og sneru sér að barnauppeldi. Það
þótti sjálfsagt að þær legðu list sína til hliðar, þar sem ríkjandi hugmynd-
ir um stöðu giftra kvenna samræmdust ekki hlutverki listakonunnar. Oft
eru síðustu verkin ársett giftingarár þeirra.