Skírnir - 01.04.1997, Page 270
264
HRAFNHILDUR SCHRAM
SKÍRNIR
Af öðrum „huldukonum“ má nefna Kristínarnar þrjár: Kristínu Þor-
valdsdóttur (1870-1944) sem ættuð var frá Isafirði og var sú eina þeirra
sem aldrei giftist en hætti samt að mála, og Kristín Vídalín (1864-1943)
sem settist fyrst íslenskra kvenna í Konunglegu Listaakademíuna í
Kaupmannahöfn árið 1894.
Þriðja Kristínin er Kristín Bemhöft (1879-1957), höfundur mál-
verksins „Kona með prjóna“, sem nú prýðir forsíðu Skírnis. Kristín var
dóttir kaupmannanna Þorláks Johnssonar og Ingibjargar Bjarnadóttur
og ólst upp í því sögufræga húsi, Lækjargötu 4. Hún sýndi ung áhuga á
myndlist og var henni komið í einkatíma til Þórarins B. Þorlákssonar
listmálara, aðeins fimmtán ára gamalli. Um 1897 hélt hún til Kaup-
mannahafnar og stundaði þar myndlistarnám í a.m.k. tvö ár, að ölium
líkindum utanskóla við Konunglegu Listaakademíuna, þar sem nafn
hennar hefur ekki fundist í skólaskrám.
Aldamótaárið 1900 giftist Kristín, Vilhelm Bernhöft tannlækni og
eignuðust þau fimm börn. Kristín lagði fljótt penslana á hilluna, lærði
tannsmíðar og aðstoðaði mann sinn við starf hans. Hún var mikil handa-
vinnukona og virðist líkt og margar kynsystur hennar, sem gert var að
leggja list sína til hliðar, hafa fundið listrænni sköpunarþrá sinni útrás í
hannyrðum. Eftir Kristínu liggja fá verk. Meirihluti þeirra eru eftir-
myndir erlendra verka, aðallega landslagsmynda sem benda til þess að
hana hafi skort þjálfun og frumkvæði. Athyglisverðastar eru andlits-
myndir hennar þar sem hún hefur auðsýnilega málað eftir lifandi fyrir-
myndum svo sem í „Konu með prjóna“. Kristín túlkar fyrirsætu sína af
raunsæi, einbeitta á svip og niðursokkna í iðju sína og skapar sterka per-
sónulýsingu. Hún beinir athygli áhorfandans að ásjónu konunnar og
krepptum fingrum sem halda um prjónana og tengir þar með hug og
hönd. Peysufatakonuna má sjá sem tákn kvenímyndar þessa tíma.
Þessar fjórar konur sem hér er getið eru fulltrúar þeirra íslensku
kvenna sem námu málaralist á síðustu áratugum 19. aldar. Framlag þeirra
er menningar- og kvennasögulegs eðlis fremur en listfræðilegs, þar sem
eftir þær liggja að mestu skólaverk og listferli þeirra lauk áður en þeim
gafst tækifæri til að þroska hæfileika sína. Mikilvægi þeirra felst ekki
hvað síst í því að þær undirbjuggu jarðveginn fyrir þá sem fyrstir gerðu
myndlist að ævistarfi á íslandi. Með fágun sinni og menntun áttu þær
drjúgan þátt í því að veita listræna leiðsögn og þroska smekk hinnar
ungu borgarastéttar sem studdi frumherjana með listaverkakaupum þeg-
ar þeir, einn af öðrum, sneru heim frá námi í upphafi aldarinnar.
Hrafnkildur Schram