Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.09.2006, Blaðsíða 168
kenningu þar sem hún kveði skýrt á um mun góðs og ills. Fannst nú ýms-
um vinum og félögum þeirra Jóns og Haralds hann ganga of langt.
Þorsteinn Erlingsson sat hjá í þessari deilu en vinur hans Guðmundur
Hannesson læknir á Akureyri svaraði fyrir hans hönd í opnu bréfi í Bjarka
30. apríl 1898, en það blað var gefið út á Seyðisfirði. Þetta bréf var einnig
birt í blaðinu íslandi 22. nóvember sama ár, sem sýnir áhugann sem var
fyrir þessari ritdeilu. Guðmundur bætti um betur og skrifaði einnig langa
grein í tveimur hlutum í blaðið ísland undir heitinu: „Hugsanaflækjan. Svar
til Haraldar Níelssonar.“14
Viðbrögð Guðmundar voru að sama skapi snörp. Deilan var hin athyglis-
verðasta því að ekki var komið að tómum kofanum þar sem Guðmundur var.
Honum ofbauð það að Jón og Haraldur, kunningjar hans frá Kaupmanna-
hafnarárunum, skyldu voga sér að halda því fram að hið illa, ódyggðir og spill-
ingu megi beinlínis rekja til vantrúarmanna. Vantrúarmenn eru þeir, segir
hann, sem hafna kenningu kirkjunnar, og vantrú eru „trúarskoðanir sem eigi
eru í samræmi við kirkjunnar kenningu“.15 Meðal margra vantrúarmanna
og annarra trúarbragða sé að finna menn sem þekktir eru fyrir göfgi og háa
siðferðisvitund og siðferðiskröfur. Vantrúna megi rekja til þess að menn séu
af veikum mætti að leita sannleikans. Að sögn Guðmundur liggur að baki
vantrúnni...
alvarlegur grunur á, sumpart fullvissa fyrir því, að biblían sje mannaverk
og eigi frekar að marka en aðrar hinar svonefndu heilögu bækur, að hún
sje víða skáldskapur, víða þjóðsögur, víða hrein og bein ósannindi, að
kraftaverk hafi aldrei átt sjer stað, að heiminum sje eigi stjórnað samkvæmt
mannlegum hugmyndum um rjettvísi og siðalögmál, að bænir manna til
guðs breyti eigi rás viðburðanna - ef eigi alt þetta væri - þá væri vantrúin
engin.16
14 Ísland 25. ágúst og 14. september 1898.
15 ísland (11,34) 25. ágúst 1898:133.
16 Bjarki (111,17) 30. apríl 1898:65.
166