Skagfirðingabók - 01.01.1987, Page 190
SKAGFIRÐINGABÓK
komu danskir snurvoðarbátar og skurkuðu alveg uppi í fjöru og
hirtu einungis flatfiskinn. Allt í kringum þá flaut þessi ágætis-
fiskur, ýsa og þorskur, og nutum við góðs af því. En víst verður
þessi veiði að teljast rányrkja af versta tagi.
Á haustin og veturna komu oft torfur af smáufsa, og þær
reyndum við að taka í nót og drógum í land. Bátarnir lögðust
síðan utan á næturnar, og ufsinn var háfaður um borð. Hann
var seldur bændum til skepnufóðurs, og auk þess tíðkaðist að
heilsteikja hann og þótti herramannsmatur. Ég sé í bréfi frá
einum bræðra minna 18. desember 1939, að haustið það hefur
verið óvenju gjöfult: „Þeir bræðurnir hafa verið að róa allt fram
að þessu og oft fiskað ágætlega og enn veiðist síld til beitu og
smáufsinn er hér upp við ströndina í hundruðum tunna og hafa
stundum verið teknar 20—30 tn. í einu og selt sem skepnufóður,
og hafi verið keyptir 10 strokkar1 í einu, þá hafa verið greiddar
kr. 3.00 fyrir stykkið.“ Þetta var prýðileg búbót, auk þess sem
ufsinn var fyrsta nýmetið á veturna; hann var kominn undir
bryggjuna undan hrognkelsunum. Við bræður fengumst lítið
við hrognkelsaveiðar, en þó er þess að geta, að fyrsta netið sem
ég eignaðist var hrognkelsanet, sem móðir mín spann í úr togi.
A því voru einungis tréflár og steinar neðan í, en þó fengum við
í soðið. Rauðmaginn var borðaður nýr, en grásleppan látin síga
og þótti ágætismatur, nema þegar sól komst að henni. Þá
þránaði hún.
Oft var dregið fyrir silung og lax, einkum niður með Sandi,
og sprakk nótin víst oftar en einu sinni. Einnig var gott að draga
fyrir hjá gamla öldubrjótnum. Hann hafði verið byggður dálítið
norðar en núverandi hafnargarður, burst, fyllt með grjóti, og
stóð eggin upp úr. Möl bar að henni utanverðri, en framendinn
var þó alltaf auður. Sjálfsagt hefði öldubrjóturinn haldið sér, ef
einn búkki hefði verið byggður árlega, en svo var ekki, og
1 í daglegu tali voru síldartunnur kallaðir strokkar, tóku um það bil 100
lítra og voru heldur minni en kjöttunnur.
188