Skagfirðingabók - 01.01.1991, Blaðsíða 37
STEFANÍA FERDÍNANDSDÓTTIR OG SÖLVI JÓNSSON
Erla Ásgrímsdóttir. Börn þeirra eru Sölvi Stefán, Halldór,
Elísabet Osk, Arnfríður, Ingólfur og Anna.
Stefanía fór ætíð snemma ofan til að vinna, um fimmleytið á
veturna; var enda kvöldsvæf, og á seinni árum gekk hún jafnan
til náða milli klukkan átta og níu - nema setið væri við spil. Hún
spann allt í plögg og nærfatnað og prjónaði, reyndi í hvívetna að
búa að því, sem heimilið lagði til sjálft. En „oft áttum við erfitt,
meðan börnin voru að alast upp. Enginn veit, hve þrá okkar til
mennta var rík,“ segir Stefanía.
Sölvi notaði hverja stund sem gafst til lesturs. „Hann var
prýðisvel að sér í sögu og ættfræði,“ segir Stefanía. „Eg hafði
minni tíma til lesturs framan af,“ bætir hún við, „en ég gat bætt
mér það upp, er börnin fóru í skóla, ég lét þau þá lesa upphátt
og lærði með þeim. Þá lærði ég til dæmis öll skólaljóðin.“ „Ég
var áttundi nemandi þinn af heimilinu,“ sagði hún í gamni og
alvöru við Jón Þ. Björnsson kennara. Stefanía las allt sem hún
komst yfir eftir að börnin færðust á legg, eftir 1930. Þau Sölvi
eignuðust smám saman allgott bókasafn, en elzti hluti þess
eyðilagðist frostaveturinn 1918. Sá vetur reyndist þeim sem
öðrum þungur í skauti. Tvíburarnir fæddust í nóvember 1917,
en þá var iðulaus stórhríð. Jónas Kristjánsson læknir tók á móti
þeim, en fæðingin var Stefaníu fjarska erfið. Hún fékk lungna-
bólgu og reyndust Ingibjörg ljósa Frímannsdóttir og Jakobína
henni afar vel. Um miðjan janúar fyllti fjörðinn af ís með
fimbulfrosti. Oll fjölskyldan hafðist við í einu herbergi til þess
að nýta hitann sem bezt. Þessi harðindi stóðu fram um páska, en
úr því fór að vora.
Saga, ættfræði, ljóð og þjóðlegur fróðleikur voru hugðarefni
þeirra Sölva og Stefaníu. „Meira kann hún en nokkur annar,
sem ég hef kynnzt, af lausavísum og öðrum kveðskap alþýðu-
skáldanna gömlu, en auk þess hygg ég, að sá maður sé vand-
fundinn, sem öllu meira kann af ljóðum höfuðskáldanna yngri
og eldri“ segir Kristmundur Bjarnason. Stefanía hélt upp á
Sigurð Breiðfjörð, taldi hann taka svari kvenna. Hún hafði
35