Morgunblaðið - 29.08.2015, Side 10
10 DAGLEGT LÍF
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 29. ÁGÚST 2015
Morgunblaðið/Styrmir Kári
Listakona Þóra við verk sín á sýningunni sem hún kallar Nærmynd.
Kristín Heiða Kristinsdóttir
khk@mbl.is
Ég fékk þessa hugmyndfyrir fimmtán árum þegar ég var að ferðastum Ísland og sá mörg
eyðibýli. Mig langaði að mála af
þeim myndir og halda sýningu ein-
vörðungu með slíkum myndum,“
segir Þóra Einarsdóttir en sýning
hennar Nærmynd, stendur nú yfir í
sal félagsins Íslensk grafík í Lista-
safni Reykjavíkur við Tryggvagötu
17, hafnarmegin.
„Þessi hugmynd lúrði alltaf
þarna á bakvið en ekkert varð úr
framkvæmdinni fyrr en í fyrrasum-
ar, þá keyrði ég gagngert um Vest-
firði til að skoða eyðibýli, rissa í
blokk og taka myndir. Ég tók með
mér bók um eyðibýlin til að geta
lesið mér til um þau og til að finna
þau, því þau eru ekki öll í alfaraleið
og það var ekki alltaf auðvelt að
komast að þeim, stundum var
vegurinn mjög illa farinn.“
Hvers vegna fór fólkið?
Þóra segist hafa fundið fyrir
sterkum tilfinningum í nálægð yfir-
gefnu húsanna og þess vegna er
hún með hugleiðingu í texta við
hverja mynd á sýningunni.
„Maður finnur fyrir trega-
tilfinningu vegna þess sem var, lífs-
ins sem eitt sinn var lifað í þessum
húsum. Og ótal spurningar vakna
um fólkið sem bjó þarna. Hvernig
leið því? Hvers vegna fór það?
Þessi hús eru minnisvarðar um
löngu liðið hversdaglíf. Stundum er
eins og fólk hafi gengið út og skilið
allt eftir, eða dáið og enginn hirt
um að fjarlægja innanstokksmuni.
Til dæmis var kjóll hangandi á
hurð í einu eyðibýlinu, rétt eins og
eigandinn hefði skroppið frá. Og í
öðru var sykurkar á eldhúsborðinu
og bollastell í skápunum, og þannig
hefur það verið óhreyft í fimmtíu
ár frá því býlið fór í eyði. Annars
staðar var allt tómt, til dæmis í
húsinu í Tjaldanesi var ekkert
nema ein tunna stóð í einu her-
bergi. Í Hrauni í Dýrafirði stendur
eyðibýli sem að flatarmáli er ekki
nema 26 fermetrar, en bóndinn þar
tók sjálfur á móti öllum börnunum
sínum sex í stofunni. Fjölskyldan
bjó öll í þessu pínulitla húsi í mikilli
einangrun, en umvafin gríðarlegri
náttúrufegurð, fjallaborgir allt um
kring.“
Þóra segir að hún hafi fundið
fyrir ólíkum tilfinningum á ólíkum
stöðum.
„Stundum fann ég fyrir afar
notalegri tilfinningu en stundum
fylltist ég sorg, eins og til dæmis
við að koma inn í húsið hans Gísla á
Uppsölum. Þó svo að nýtt þak og
nýir gluggar séu á húsinu, sem
Ómar Ragnarsson stóð fyrir að
yrði gert eftir dauða Gísla, þá er
allt í rúst inni, afar hrörlegt. Það er
undarleg tilfinning að koma þar inn
og hugsa um Gísla búa þarna í af-
dal við þessar frumstæðu aðstæð-
ur, hann hefur eflaust verið mjög
einmana.“
Ævintýri í Róm og París
Þóra segist vinna mest í olíu
en líka í vatnslitum og hún leikur
sér einnig með dúkristur og grafík.
„Ég hef verið að mála alla tíð
meðfram vinnu en ég hætti að
vinna árið 2006 og sneri mér þá al-
farið að myndlistinni,“ segir Þóra
sem hefur meðal annars verið for-
maður félags myndlistarmanna í
Garðabæ.
„Ég var í Myndlistarskólanum
í Reykjavík í nokkur ár en þar fyrir
utan hef ég farið á hin ýmsu mynd-
listarnámskeið.“ Þóra hefur tekið
þátt í mörgum sýningum hér heima
en einnig í útlandinu.
„Ég hef sýnt í Róm, á Sikiley
og í París, en það kom þannig til að
ítalskt fólk rakst inn í gallerý Stíg
sem ég rek ásamt fleiri listamönn-
um á Skólavörðustíg, og þar sáu
þau myndir eftir mig og buðu mér
að vera með í sýningu í Róm á veg-
um borgarinnar. Það skemmtilega
var að ég var búin að kaupa mér
far til Rómar þegar þetta kom upp,
þannig að ég skellti mér auðvitað
og þetta var mikið ævintýri, við
vorum tvö með verk á þessari sýn-
ingu, ég og ítalskur ljósmyndari
sem hafði komið til Íslands og tekið
myndir hér. Þetta var árið 2008 og
ári síðar sýndi ég á Sikiley og það
var líka í tengslum við þetta fólk
frá Róm. Þá var tíu listamönnum
frá hinum ýmsu löndum boðið að
koma til Sikileyjar og vinna saman
í tíu daga og sýna svo afraksturinn.
Þarna eignaðist ég góða vini sem
ég er enn í sambandi við. Síðan
sýndi ég í sal í Louvre-safninu í
París árið 2010 í gegnum ítölsk
myndlistarsamtök. Franskur gall-
erýeigandi sem kom á þá sýningu
bauð mér að sýna í gallerýi hjá sér
og ég gerði það að sjálfsögðu.“
Yfir eyðibýlum svíf-
ur andi liðins tíma
Yfirgefin hús vekja sérstakar tilfinningar, þau eru vitnisburður um líf sem eitt
sinn var lifað. Þau vekja ótal spurningar um fólkið sem þar bjó, hvernig leið því í
afdalnum? Hvers vegna skildi það eftir kjóla og bollastell? Þóra Einarsdóttir
myndlistarkona er heilluð af eyðibýlum á Íslandi og hún hefur fangað stemningu
nokkurra þeirra í verkum sínum sem hún sýnir nú.
Spurn Hver ætli hafi eitt sinn sofið undir þessari súð og kíkt út um glugga?
Autt Regn og vindar eiga greiða leið inn í þetta hús sem eitt sinn veitti skjól.
Yfirgefið Það er tregi og tómleiki yfir húsum sem hafa verið yfirgefin.
Á sunnudögum er dásamlegt að gera
eitthvað skemmtilegt með litla fólk-
inu. Heimilislegir sunnudagar snúa
aftur eftir tveggja mánaða sumar-
dvala á Kex Hostel og kveðja sumarið
með stæl á morgun, sunnudag. Þá
mun Leikhópurinn Lotta mæta með
söngvasyrpu úr leikritinu um litlu
gulu hænuna. Skemmtunin hefst kl.
14, en í vetur verður fjölskyldu-
dagskráin alla sunnudaga klukkan 13.
Allir velkomnir og ókeypis inn.
Heimilislegir sunnudagar hefjast að nýju á Kex Hosteli
Morgunblaðið/Styrmir Kári
Skemmtilegt Litla gula hænan.
Söngur, gleði
og gaman Hinn árlegi útimarkaður Íbúasamtaka Laugardals verður í
dag kl. 11-16 á skjólsælu bílastæði í Laugardalnum við
Laugardalshöllina. Á markaðnum verður til sölu allt milli
himins og jarðar; föt, fínerí, geisladiskar, grænmeti, leik-
föng, listmunir, húsgögn, handverk, heimagerðar sultur,
bækur, ber og fleira. Ávallt er mikið fjör á markaðnum
enda eru skemmtilegar uppákomur stór hluti af aðdrátt-
arafli hans. Meðal tónlistaratriða þetta árið eru Mentos
Brass, Muscycle, Harmonikkubandið, Svavar Knútur, Helí-
um, Blue Ice Project, Baby it’s only you (Frank Raven, Logi
Marr og Lelló) og Lily of the Valley. Huggulegt kaffihús á
staðnum og í anda vistvænnar stefnu útimarkaðarins eru
allir markaðsgestir hvattir til að sækja markaðinn gang-
andi, hjólandi eða í strætó.
Útimarkaður Íbúasamtaka Laugardals
Allt mögulegt í boði
Stemning Ævinlega ríkir gleði og létt lund á markaðinum.