Skólavarðan - 01.09.2007, Blaðsíða 3

Skólavarðan - 01.09.2007, Blaðsíða 3
3 FORMANNSPISTILL SKÓLAVARÐAN 6.TBL. 7. ÁRG. 2007 Formaður og varaformaður KÍ og formenn aðildarfélaga KÍ skiptast á um að skrifa formannspistla í Skólavörðuna. Félögin á bak við formannspistlana eru: Félag framhaldsskólakennara (FF), Félag grunnskólakennara (FG), Félag leikskólakennara (FL), Félag stjórnenda í framhaldsskólum (FS), Félag tónlistarskólakennara (FT), Skólastjórafélag Íslands (SÍ). Sigrún Grendal Lj ó sm y n d : k e g Svæðisþing tónlistarskóla fóru fram í fimmta sinn í haust og hafa tvö af þremur þingum verið haldin þegar þetta er skrifað. Við skipulagningu þinganna var reynt að tefla fram blöndu af praktík og fagpólitík og þeir aðilar sem fara með málefni tónlistarfræðslu voru kallaðir að umræðuborðinu. Það er okkar hlutverk sem fagstéttar að kynna okkur stefnur og strauma í kringum okkur og vera virk í stefnumótun um nám og kennslu í tónlistarskólum. Í þessu skyni fengum við kynningu á fyrirkomulagi tónlistarfræðslu í Minnesota á svæðisþingunum sem virkaði vel til að kynda undir umræðum um aðalnámskrá tónlistarskóla sem tekin var til umfjöllunar þar. Tæki samtímans til að þróa menntakerfið Umræðan þróaðist svo áfram þar sem svokallaður „Vegvísir fyrir listfræðslu“, gefinn út af UNESCO, var kynntur og ræddur. Ágúst Einarsson rektor við Háskólann á Bifröst kynnti skýrsluna á þingunum en inntak hennar lýtur að því að listfræðsla þurfi að vera miðlæg í menntakerfum. Fulltrúar menntamálaráðuneytis og sveitarfélaga voru fengnir til að tjá sig um inntak hennar og má nefna að menntamálaráðherra, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, flutti erindi á einu þinganna og tók að því loknu þátt í pallborðsumræðum um efnið. Við, sem trúum á mikilvægi og gildi listfræðslu, eigum að miðla þeirri sýn að listfræðsla sé tæki samtímans til að þróa menntakerfið áfram í upphafi nýrrar aldar. Það er sameiginlegt hagsmunamál allra hópa og þar á fagfólk frá öllum skólagerðum, foreldrar, háskólasamfélagið og hið opinbera að stilla saman strengi. Ég tel brýna þörf á að skapa samstarfsvettvang með nýja nálgun á hlutina. Miðstöð menningar og lista í námi Það er vert að nefna að stjórnvöld í Noregi hafa nýverið gefið út áætlun um „skapandi nám“ sem miðar að því að • auka vægi listfræðslu og menningar í öllu grunnnámi - frá leikskóla • styrkja getu til að miðla menningu og listum í námi • þróa fjölbreyttar kennsluaðferðir og kennslufræðileg verkfæri • örva og skrá list og menningarlega þætti í uppeldi og menntun • gera það mikilvægasta í menningu og listum í fjölmenningar- samfélaginu aðgengilegt. Í upphafi árs var sett á laggirnar Miðstöð menningar og lista í námi, sem ætlað er stórt hlutverk við að koma þessari áætlun í framkvæmd. Þessar aðgerðir ríma við boðskap Vegvísis UNESCO og hvet ég alla áhugasama um þróun menntakerfisins okkar til að kynna sér skýrsluna. Skapandi atvinnugreinar – fjórða víddin Í kynningu sinni á fyrrnefndum Vegvísi á svæðisþingum tón- listarskóla kom Ágúst Einarsson meðal annars inn á að skapandi atvinnugreinar væru framtíðin, þær ættu rætur í menningu og menning ætti rætur í listum. Hann sagði 21. öldina vera öld skapandi atvinnugreina, þær væru fjórða víddin í atvinnuháttum nútímans en áður hefði hagkerfinu verið skipt í þrennt, þ.e. frumframleiðslu, iðnað og þjónustu. Um fjórðungur af íslenskum vinnumarkaði starfar við skapandi atvinnugreinar. Heimurinn er á sífelldri hreyfingu í orðsins fyllstu merkingu og aðeins eitt sem við getum verið viss um, það er að heimurinn mun halda áfram að hreyfast! Það eru spennandi tímar framundan og ég hlakka til að eiga frjóa umræðu með ykkur félögum mínum í Kennarasambandi Íslands um menntakerfi framtíðarinnar. Sigrún Grendal Fjórða víddin í atvinnuháttum nútímans Listfræðsla miðlæg í menntakerfum

x

Skólavarðan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skólavarðan
https://timarit.is/publication/1179

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.