Skólavarðan - 01.09.2007, Blaðsíða 22

Skólavarðan - 01.09.2007, Blaðsíða 22
22 UMRæÐA UM REIKNILÍKAN FRAMHALDSSKÓLA SKÓLAVARÐAN 6.TBL. 7. ÁRG. 2007 Þorsteinn Þorsteinsson, skólameistari í Garðabæ, ritar athugasemdir og veltir vöngum í maíhefti Skólavörðunnar af tilefni sem undirritaður gaf einu hefti fyrr. Sumt af því sem Þorsteinn segir orkar tvímælis. Það er rétt að reiknilíkan mennta- málaráðuneytis fyrir framhaldsskóla er heimasmíðað. Hins vegar er óréttmætt að gefa því það neikvæða formerki sem Þorsteinn gerir með því að jafna til þeirrar þarflausu iðju að finna aftur upp hjólið. Reiknilíkön lágu fyrir (1997), m.a. taxameterkerfi í ýmislegri mynd. Ekkert þeirra var áður, mér vitanlega, tengt hugtökunum samningsstjórnun eða árangursstjórnun. Þau hugtök komu til sögu eftir daga „Módelsamtakanna“ og beindust sérstaklega að brottfallinu sem margir hafa talið eitt brýnasta viðfangsefni íslensks skólastarfs. Í sigtinu var einnig rótgróin íslensk tilhneiging til að byggja of stórt og án tillits til nýtingar og rekstrarkostnaðar. Sveitarstjórnir hugsa gjarnan stórt um uppbyggingu en þurfa síðan ekki að bera ábyrgð á rekstrinum. Meginhugmyndin var að árangurs- miðað reiknilíkan hvetti annars vegar til ráðdeildar en hins vegar til frumkvæðis skólanna til þess að búa til og bjóða fram nám á almennri braut sniðið að sérstökum þörfum nemenda. Það mundi strax borga sig fyrir skólana og að lokum fyrir alla. Ráð- deildarþátturinn hefur haft mikil áhrif og á meðal annars vafalítið þátt í bættu launaumhverfi kennarastéttarinnar. Nýsköpunarþátturinn hefur ekki gengið eftir með þeim hætti sem vonast var til. Eftir á að hyggja voru það e.t.v. mistök af hálfu ráðuneytisins að búa ekki sjálft til fyrirmyndir eða dæmi um almenna braut. Fjárhagslegur ávinningur skóla af því að takast slík verk á hendur lá heldur ekki ljós fyrir í byrjun. Talið var að viðfangsefnið væri svo fjölbreytilegt eftir skólasvæðum og námsframboði skólanna og mönnun þeirra væri sömuleiðis svo margslungin að fyrirfram gerð einsleit lausn mundi engum henta. Á hverjum tíma liggur nú nákvæmlega fyrir á hvaða forsendum rekstrarheimildir framhaldskóla verða til. Enginn skólamaður hefur, mér vitanlega, komið í ráðuneytið frá upphafi reiknilíkans til þess að leita skýringa á fjárheimildum síns skóla án þess að fá þær. Stofnframkvæmdir, stofnun skóla eða byggingaframkvæmdir og nokkur sérverkefni eru að vísu utan þessa kerfis en það er samt opnara en áður var og átti að vera til þess að auka traust milli aðila. Skólakerfið hefur löngum átt í vök að verjast fyrir óréttmætri gagnrýni á meðferð fjár. Sú gagnrýni birtist meðal annars í þrálátu nöldri fáfræðinnar um að kennarar séu aðallega í fríum og þess á milli í verkföllum. Fjárveitingakerfi, sem er algerlega uppi á borðinu og að sama skapi ljóst hvaða fjárheimildir duga og hverjar ekki, mátti halda að væri betri leið en áður hafði gefist til þess að sýna fram á samhengi hlutanna. Þegar því voru í fyrri grein gerðir skórnir að tími núverandi reiknilíkans kynni að vera liðinn þá var það haft í huga að nú um nokkurra ára skeið hefur verið haldið uppi linnulitlum áróði gegn reiknilíkaninu bæði út á við gagnvart almenningi og inn á við í sumum skólunum. Nokkur hluti skóla og skólamanna hefur sannfært sjálfa sig og aðra um það, gagnstætt því sem ætlað var, að skólar og ráðuneyti gætu litið á sig sem samstarfsaðila (með sömu meginmarkmið) en ekki andstæðinga, enda er það eitt af höfuðmarkmiðum árangursstjórnunar. Aðalástæða þess að ég tek aftur til lyklaborðsins er þó þrálát missögn sem kemur fram í grein Þorsteins. Hann segir m.a. að skóli hans verði fyrir tugmilljóna króna tjóni vegna brottfalls. Helst er að skilja að þetta sé af völdum reiknilíkansins og menntamálaráðuneytis og sé til marks um skort á metnaði þess og viljaleysi til að hjálpa minni máttar. Hvað sem líður ætluðum metnaði ráðuneytis er missögnin í því fólgin að ríkissjóður en ekki skólinn ber meginþunga tjóns vegna brottfalls. Þetta felst í afslætti á fullri stærð námshópanna (79,1 % eða lægri nýtingarkröfu). Hugsanlegt er að skólar verði fyrir tjóni vegna brottfalls en svo er ekki í því dæmi sem Þorsteinn tekur af sínum skóla. Framlög (reiknilíkans) til kennslu byggjast á skilgreindum hópstærðum og kröfu um að tiltekið hlutfall hópa skili sér til prófs. Hópstærð hægferðanna (sem Þorsteinn talar um) hefur í líkaninu verið skilgreind 25 nemendur og nýtingarkrafan 77,46%. Þetta merkir í raun að 19, 365 ársnemendur (prófaðir að meðaltali í hópi) leggja skólanum til andvirði launa fyrir 6 kennslustundir á viku í hægferðaráfanga. Hafi nemendur í 29 hægferðaráföngum FG verið að meðaltali 20 í hópi fær skólinn greitt andvirði 6,19 kennslustunda á viku á hóp eða alls 5,51 kennslustund á viku umfram það sem hann þarf að greiða kennurum þessara hópa í (meðal-) kennslulaun. Þessir hópar hafa þannig verið að skila skólanum rúmum fimmta hluta kennarastarfs í afgang. Þessi röksemd Þorsteins fyrir því að innrita ekki hægferðarnemendur stenst því ekki og er mál að málflutningi af því tagi linni. Það eru nóg álitamál og erfiðleikar við að fást í skólakerfinu þótt ekki séu búin til ný með því að halla réttu máli. Aðalsteinn Eiríksson Höfundur er fyrrverandi kennari og skólameistari, starfar enn sem verkefnisstjóri í menntamálaráðuneyti. Reiknilíkan fyrir framhaldsskóla Aðalsteinn Eiríksson svarar Þorsteini Þorsteinssyni Skólakerfið hefur löngum átt í vök að verjast fyrir óréttmætri gagnrýni á meðferð fjár. Sú gagnrýni birtist meðal annars í þrálátu nöldri fáfræðinnar um að kennarar séu aðallega í fríum og þess á milli í verkföllum. Fjárveitingakerfi sem er algerlega uppi á borðinu er góð leið til þess að sýna fram á samhengi hlutanna. Aðalsteinn Eiríksson

x

Skólavarðan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skólavarðan
https://timarit.is/publication/1179

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.