Skólavarðan - 01.12.2008, Page 6

Skólavarðan - 01.12.2008, Page 6
6 SKÓLAVARÐAN 7.TBL. 8. ÁRG. 2008 hann, kunnu þeir ekki allt. Þeir kunnu ekki að skrifa lygndi og rigndi, kunnu ekki að tjá sig á ensku við erlendar strandstöðvar, kunnu ekki siglingareglurnar einsog þeim bar og til að gera siglt hættulaust nærri öðrum sjófarendum og það sem kannski skipti mestu, þá kunnu þeir ekki að reikna út stöðugleika skipa. Sem er grunnur þess að vel fari. Hefðu íslenskir ráðamenn og bissnessmenn lært jafnvel að reikna út stöðugleika íslenska hagkerfisins og íslenskir sjómenn kunnað að reikna út stöðugleika skipa væri vandi þjóðarinnar annar og minni en hann er. Það var þrautaverk að kenna köllunum allt sem þeim var kennt. Sumir hverjir voru vanir að eiga síðasta orðið. Hver sem umræðan var. „Ef þú segir eitt orð til viðbótar þá kaldrota ég þig,“ sagði einn þeirra og veifaði handboltastórum hnefanum í átt að kennaranum. Allt fór vel að lokum, enginn var rotaður, allir náðu prófunum. Að muna allt Mikið hlýtur að vera merkilegt að vera kennari. Áðan var sagt frá sjómönnum sem urðu sér úti um prófgráður, bæði með réttu og svo sannarlega líka með röngu. Kannski er einfaldast að eiga við þannig nemendur. Reynda í lífsins sjó. Nemendur sem skilja hvað þeir eru að gera og til hvers. Auk þess tók námið bara einn vetur. Svo var það búið og fróðari héldu menn til hafs á ný. Börnum gengur misvel í skóla. Færum okkur í tólf ára bekk í Melaskóla. Bítlarnir voru á hátindi ferilsins og þess vegna var einhverskonar stríð í gangi. Milli stráka og skóla um hversu sítt hár mátti vera. Þeir sem vildu láta hár sitt vaxa, þeir sem vildu ekki læra heima, þeir sem áttuðu sig bara ekkert á því að það kynni að verða gagn af því að smíða skútu, geta stokkið yfir hestinn, kunna fallbeygingar, kunna jöfnur og kunna Gunnarshólma áttu í vanda í skólanum. Vandinn hafði mikil áhrif. Á aðra nemendur, á kennarana, á skólastjórann og jafnvel á heimili þeirra skilningssljóu. Þeir sem reynt hafa vita að það er ekkert grín að mæta í skólann dag eftir dag án þess að hafa lokið við heimaverkefnið og eiga eftir að standa frammi fyrir kennaranum og finna til eina afsökunina enn. Og auðvitað er það ekkert grín fyrir kennarana að þurfa að glíma við sama vandann hjá sama fólkinu aftur og aftur. Þeir voru tveir að ræða saman um utanbókarljóðalærdóminn og hversu erfitt það gæti verið að muna erindi eftir erindi. En fyrirheitin vantaði ekki, nú átti að læra allt. Kunna kvæðið frá fyrsta staf að þeim síðasta og hann meira að segja líka. Dagarnir liðu og þá um leið fresturinn til að læra kvæðið. Svo kom að dagurinn rann upp. Saman gengu þeir í snjónum og töluðust við. „Ertu búinn að læra kvæðið?“ spurði sá hærri. „Nei,“ svaraði hinn. „Ekki ég heldur.“ Þögn. Eftir fáa metra og fáar sekúndur sagði sá styttri: „Ég las í blaði að ef maður borðar blaðsíður þá man maður allt sem stendur á þeim.“ Umræður urðu engar, þeir gengu í skjól við næsta hús. Opnuðu skólatöskurnar, tóku upp Skólaljóðin, flettu á réttan stað, rifu blaðsíðurnar úr bókunum og tóku að borða þær. Það er ekki auðvelt að borða bréf. En það tekst þegar mikið liggur við. Eftir að hafa kyngt síðasta bitanum var töskunum lokað og öruggari en í langan tíma var mætt í skólann. Magnea kennari kallaði þann hærri að koma upp að töflu og fara með fyrsta erindið. Hann hafði treyst fullkomlega á árangur átsins. Og þar sem hann hafði svo sem séð kvæðið komst hann í gegnum fyrstu setninguna, en svo ekki orði meir. Stóð, þegjandi og ráðalaus. Ekki í fyrsta sinn og ekki í það síðasta. Engin breyting þrátt fyrir nýja aðferð. Eins fór fyrir þeim styttri. Sennilegast er það svo að ekki er hægt að stytta sér leið ef árangur á að nást. En það vita kennarar svo sem best. Að muna sumt Árangur kennslunnar skilar sér ekki alltaf samdægurs eða um leið og kennt er. Sú var raunin mest að læra dönsku. Mikið hafa dönskukennarar oft þurft að hafa fyrir því að koma efninu til skila. Það hefur tíðkast að vera á móti dönskukennslu. Allt fram streymir, segir á góðum stað, og það sannast svo löngu seinna. Jafnvel meðal þeirra sem verst létu vegna dönskukennslunnar. Kaupmannahöfn. Og hvað gerist? Þrátt fyrir mótþróann á sínum tíma gerist hið óvænta. Danskan. Já, danskan. Hreina satt. Það situr eftir hluti af náminu, náminu sem mætti mestri mótstöðu, og er þá langt til jafnað. Hægt að lesa blöðin, panta pulsu, kaupa mat og margt fleira á bjagaðri dönsku. Svo smátt og smátt rifjast upp meira og meira. Þetta var þá ekki til einskis. Merkilegt. Með sama hætti gagnast annað nám. Nám sem sumir krakkar taka jafnvel sem hinni mestu vitleysu, óþarfa, halda að það hafi ekki verið til neins að læra Gunnarshólma eða reikna jöfnur eða smíða skútur, að fallbeygja og allt hitt. Jafnvel kunna hörðustu og forpokuðustu karlar að strauja skyrtur. Þökk sé skólunum. Og skólar eru engir án kennara og nemenda. Þess vegna má halda að kennarar uppskeri árangur starfs síns í öllu lífi nemendanna. Það er ekki bara einkunnin sem ræður um hvernig til tókst. Hvaða unga fólk kveður skólann sinn og hvernig námið á eftir að gagnast hér og þar í lífinu skiptir jafnvel meira máli. Sennilegast gerir það það. Svo er það fólkið sem heldur áfram að mennta sig. Það fólk er svo mikils virði. Það sést best í dag. Fræðimannasamfélagið skiptir Ísland miklu máli, sérstaklega þegar illa stendur á. Einsog núna. Því má framleiðslan ekki stöðvast. Þörfin fyrir menntun hefur alltaf verið mikil og eykst alltaf. „Um morguninn rigndi en lygndi síðdegis,“ las kennarinn í sjómannaskólanum. Nú er bara að vona að það fari að koma síðdegi. Þá verður logn, svo segir í stílnum. Sigurjón M. Egilsson Höfundur er blaðamaður. „Ef þú segir eitt orð til viðbótar þá kaldrota ég þig,“ sagði einn þeirra og veifaði handboltastórum hnefanum í átt að kennaranum. Og hvað gerist? Þrátt fyrir mótþróann á sínum tíma gerist hið óvænta. Danskan. Já, danskan. Hreina satt. GESTASKRIF: SIGURjóN M. EGILSSON

x

Skólavarðan

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Skólavarðan
https://timarit.is/publication/1179

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.