Skólavarðan - 01.12.2008, Blaðsíða 7

Skólavarðan - 01.12.2008, Blaðsíða 7
SKÓLAVARÐAN 7.TBL. 8. ÁRG. 2008 Hluti af starfi mínu sem launafulltrúi KÍ er að leiðbeina félagsmönnum sem eru að fara í fæðingarorlof og margir nýta sér þá þjónustu. Fæðingarorlofslögin taka sífelldum breytingum, nú síðast 1. júní 2008, og eiga þær við um börn sem fæðast, eru ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur 1. júní 2008 og síðar. Að mörgu þarf að huga áður en farið er í fæðingarorlof, t.d. þarf að fylla út tvenns konar eyðublöð, annars vegar eyðublaðið „Tilkynning um fæðingarorlof“ þar sem starfsmaðurinn setur fram óskir sínar um tilhögun fæðingarorlofsins og hins vegar „Umsókn um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði“ sem sent er til sjóðsins. Þessi eyðublöð og aðrar upplýsingar um fæðingarorlof má nálgast á vef KÍ www.ki.is Þar er einnig hægt að finna „Spurt & svarað“ sem eru algengustu spurningar og svör sem safnað hefur verið saman á einn stað, m.a. um fæðingarorlofið. Samkvæmt fæðingarorlofslögunum á móðir rétt á þriggja mánaða fæðingarorlofi og faðir einnig. Sá réttur er ekki framseljanlegur á milli foreldra (nema við sérstakar aðstæður) þannig að kjósi annað þeirra að nýta ekki sjálft sinn rétt fellur hann niður. Þá eiga foreldrarnir þrjá mánuði til viðbótar sameiginlega sem þeir geta ráðið hvernig þeir nýta. Yfirleitt er sveigjanleiki á tilhögun fæðingarorlofs. Hægt er að taka það í einu lagi, skipta niður á fleiri tímabil eða vera í minnkuðu starfshlutfalli samhliða fæðingarorlofi. Náist ekki samkomulag um óskir starfsmanns á hann jafnan rétt á að taka fæðingarorlof í einu lagi. Breytingar á fæðingarorlofslögunum Þann 1. júní sl. breyttust fæðingarorlofslögin þannig að greiðslur til foreldra í fæðingarorlofi eru nú 80% af meðaltali heildarlauna og skal miðað við tólf mánaða samfellt tímabil sem lýkur sex mánuðum fyrir fæðingardag barns eða þann dag sem barn kemur inn á heimili við frumættleiðingu eða töku í varanlegt fóstur. Margir vilja vita hvað þeir komi til með að hafa í tekjur í fæðingarorlofinu og geta þeir þá farið inn á vef Fæðingarorlofssjóðs www.faedingarorlof.is þar sem er reikniforrit sem umsækjendur geta notað til að áætla þær greiðslur sem þeir fá frá sjóðnum í fæðingarorlofinu. Fæðingarstyrkir til félagsmanna í fæðingarorlofi Afgreiðsla fæðingarstyrkja til félagsmanna í fæðingarorlofi hefur hingað til verið í gegnum Fjölskyldu- og styrktarsjóð en um næstu áramót mun KÍ taka yfir sinn hluta af sjóðnum. KÍ hefur verið aðili að FOS hingað til ásamt BHM og BSRB. Ekki eru fyrirhugaðar neinar breytingar á úthlutunarreglum þegar sjóðurinn flyst alfarið yfir til KÍ. Hægt er að sækja um fæðingarstyrk fyrir þá foreldra sem a) hafa verið starfandi hjá vinnuveitanda og greitt hefur verið fyrir í sjóðinn síðustu sex mánuði fyrir fæðingu barns, b) hafa gildan ráðningarsamning í upphafi fæðingarorlofs og c) taka að lágmarki þriggja mánaða fæðingarorlof. Styrkirnir eru jafnháir til karla og kvenna en hliðsjón höfð af starfshlutfalli. Upphæðin er kr. 170.000 (fyrir skatt) m.v. 100 % starfshlutfall. Mikilvægt er að merkja við á eyðublaðinu „Umsókn um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði“ að starfsmaður vilji greiða til KÍ í fæðingarorlofinu, annars tapar hann öllum félagslegum réttindum, þ.m.t. rétti í Vísindasjóði/Endurmenntunarsjóði, Orlofssjóði og Sjúkrasjóði. Þetta atriði gleymist oft og kemur ekki í ljós fyrr en viðkomandi kennari ætlar að nýta sér þau réttindi sem aðild að KÍ veitir. Ég hvet alla sem eru í vafa um einhver atriði varðandi fæðingarorlofið eða annað að hafa samband. Bæði er hægt að senda mér tölvupóst á netfangið ingibjorg@ki.is og hringja til mín í síma 595 1111. Ingibjörg Úlfarsdóttir launafulltrúi KÍ Fæðingarorlof Ingibjörg Úlfarsdóttir launafulltrúi KÍ Lj ós m yn d : S te in un n Jó na sd ót ti r KjARAMÁL

x

Skólavarðan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skólavarðan
https://timarit.is/publication/1179

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.