Skólavarðan - 01.12.2008, Blaðsíða 10

Skólavarðan - 01.12.2008, Blaðsíða 10
10 bæKUR SKÓLAVARÐAN 7.TBL. 8. ÁRG. 2008 Gæfuspor eftir Gunnar Hersvein er í miklu uppáhaldi hjá mörgum og nú var að koma út eftir hann bókin Orðspor. Skólavarðan fékk leyfi höfundar til að birta brot úr kafla sem fjallar um kennara og Gunnar var í leiðinni spurður tveggja spurninga, í fyrsta lagi: Um hvað fjallar bókin? „Mottó bókarinnar er að enginn verði full- gerð persóna fyrr en hún finnur hjá sér knýjandi þörf til að láta gott af sér leiða í samfélaginu“, segir Gunnar. „Markmið bókarinnar er að sporna gegn kæruleysi og aðgerðaleysi með uppbyggilegri gagnrýni og athugun á samfélagsmálum. Tekið er á uppeldismálum, jafnréttismálum, umhverfis- málum og trúmálum og rætt ítarlega um hlutverk fjölmiðla. Þá fjalla ég um fjölmörg gildi og þýðingarmikla þætti, svo sem sjálf- stæða hugsun, fyrirmyndir, fegurð, fátækt og velmegun, hið góða og lygina, nægjusemi og jákvætt hugarfar, völd og umönnun, frístundir kynjanna og karllægar fréttir.“ Í öðru lagi spurðum við Gunnar um eftir- farandi: Hugsanlegt er að ástandið sem hér hefur skapast skuldsetji næstu kynslóðir í topp og börnin sem nú vaxa úr grasi eigi eftir að hugsa okkur þegjandi þörfina. Hvernig búum við til samhljóm um góð og falleg gildi við þessar aðstæður? Er ef til vill hætta á því að við taki þjóðernisstefna og jafnvel fasismi? „Aðferðin til að endurreisa samfélagið,“ svarar Gunnar, „felst í því að skipta um tíðaranda ef svo má segja og setja þau gildi á oddinn sem meðal annars hafa verið kennd í skólastofum landsins: Samábyrgð og samkennd. Tíðarandinn hefur ekki verið í takt við þau gildi sem kennarar hafa viljað rækta og efla með börnum. Taumleysið hefur ætt um og annað orðið undir. Nú hefst baráttan milli nægjusemi og áframhaldandi taumleysis og í þeirri baráttu er mikilvægt að stéttir eins og kennarar liggi ekki á liði sínu. Hugsjón kennarans nær út fyrir skólastofuna og nú er lag til að breiða út boðskapinn með aðferðum sem þegar eru kunnar.“ keg Gunnar Hersveinn skrifar um kennarastéttina í nýútkominni bók sinni, Orðspor Lifandi kennsla er undrið sem bæði er mest gefandi og krefjandi Brot úr bókinni þar sem höfundur fjallar um kennara og kennarastarfið KENNARI ER OPIN BÓK Kennari getur ekki leynt innri manni sínum: hann verður berskjaldaður fyrir túlkun. Kennarastarfið er svo feikilega gegnsætt starf. Það er sama hvað kennarinn lærir mikið í faginu sínu, hvað hann tileinkar sér mikla kennslutækni og æfir sig í uppeldisfræðum, það er sama þótt hann leggi sig allan fram um að fela sig í kennarafötunum og það er sama hvað hann setur upp margar grímur og tileinkar sér fjölbreytta stjórnunartækni, hann er nánast ávallt eins og opin bók fyrir nemendum sínum. Kennari yngri barna getur ekki leynt innri manni sínum lengi, hann er ef til vill með fleiri en tuttugu börn umhverfis sig í kennslustofunni alla virka daga vikunnar og börnin læra að þekkja hann. Þau lesa hluta af persónuleika hans, kosti og galla af hegðun hans, sanngirni og ósanngirni, sálarþroska og siðgæðisvitund. Hann verður trúnaðarvinur nemenda sinna og veit stundum það sem aðrir vita ekki. Börnin segja svo frá kennaranum sínum heima hjá sér og hann verður óbeinn áhrifavaldur á heimilinu, því hann er verkstjóri í ákveðnum þáttum í menntun barnsins. Helstu einkenni kennarans verða smátt og smátt kunnug nemendum og foreldrar heyra enduróm þeirra: skap, viska, réttlætiskennd og stilling. Verkefnin sem kennarar barna glíma við eru mörg og óvenju mikilvæg. Höfuðverkefnið er að mennta börnin og auka líkurnar á farsæld þeirra í námi og síðar starfi. Flestir kennarar nema einnig ósjálfrátt andlega líðan barnanna og leggja sitt af mörkum til að hún verði góð, þurfa til dæmis að kunna að kljást við einelti. Þannig gefur kennarinn ætíð af persónu sinni og verður um leið berskjaldaður fyrir túlkun eða gagnrýni. En sá sem gefur mikið þarf nauðsynlega á einhverri orkulind að halda. Sérhver kennari þarf innan fræða sinna og kunnáttu að finna stöðu sína gagnvart nemendum: hver verður stjórnunarstíllinn, hvert viðmótið, hversu mikið vill hann opna sig, hvernig líður honum vel, hvernig öðlast hann virðingu nemenda og væntumþykju? Þessi þáttur kennarastarfsins, lifandi kennsla, er undrið sem bæði er mest gefandi og krefjandi. Þetta verður að heppnast og ef það gerir það ekki, leiðist öllum. Kennarinn stígur á svið og spinnur sig áfram og alla leið inn í hugann og inn í hjartað og veitir ennfremur innsýn í sig sjálfan. Kennarar þurfa að gefa óvenjumikið af sjálfum sér til að verkefnið heppnist og eru viðkvæmari fyrir gagnrýni en margar aðrar stéttir. Reyndar einkennir það alla góða starfsmenn í öllum stéttum að þeir gefa af sjálfum sér en fáir þurfa að opinbera sjálfa sig jafnmikið og kennarar í grunnskóla. Enda verða þeir ógleymanlegir. Þetta feikilega gegnsæi krefst að minnsta kosti tveggja mikilvægra þátta, annar liggur hjá kennurum og hinn hjá foreldrum. Kennarinn þarf einhvern veginn að búa sig undir gagnrýni og temja sér að svara henni á yfirvegaðan hátt. Hann má gjarnan taka gagnrýni alvarlega en alls ekki of persónulega. Hann liggur vel við og má búast við höggum. Foreldrar eru vissulega mjög sundurleitur hópur en þeir verða að læra að virða starf kennarans og gæta sín á því að gera greinarmun á persónu hans og aðferðum. Foreldrar eiga að gera kröfur og það eru þeir sem ættu að geta veitt kennurum uppbyggjandi aðhald. Foreldrar mega hins vegar ekki gera of miklar kröfur og þurfa að muna eftir þakklætinu. Gunnar Hersveinn Lj ós m yn d ir f rá h öf un d i

x

Skólavarðan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skólavarðan
https://timarit.is/publication/1179

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.