Skólavarðan - 01.12.2008, Blaðsíða 21

Skólavarðan - 01.12.2008, Blaðsíða 21
SKÓLAVARÐAN 7.TBL. 8. ÁRG. 2008 Fáir starfandi grunnskólakennarar þekkja skóla án skólasafns. Ákvæði hefur verið í lögum um grunnskóla allt frá árinu 1974 um að í hverjum skóla skuli vera skólasafn, í hjarta skólans. Skólasöfnin hafa þó alltaf þurft að berjast fyrir tilvist sinni. Starfsmenn þeirra hafa bæði barist fyrir því að verksvið þeirra yrði betur skilgreint og hvaða kröfur skuli gerðar til þeirra sem starfa á skólasafninu. Mörg starfsheiti hafa orðið til. Sumir tala um tuttugu og tvö mismun- andi starfsheiti og þá er einnig misjafnt hvaða menntun starfsmenn skólasafnanna hafa. Sumir eru grunnskólakennarar, aðrir grunnskólakennarar með viðbótarmenntun og í seinni tíð er orðið æ algengara að skólasöfnin séu mönnuð bókasafns- og upp- lýsingafræðingum. Oft er erfitt að sækja nægilegt fjármagn til að rekstur skólasafnsins gangi sem skyldi. Ég veit ekki um neitt skólasafn sem er sátt við þá fjárveitingu sem það fær. Samt eru þessar stofnanir yfirleitt vel reknar og reynt að gæta þess að fara ekki fram úr áætlunum. Ef vel á að vera þurfa skólasöfnin að sinna innkaupum á bókum og ýmsum öðrum gögnum, bæði fyrir nemendur og starfsmenn. Má þar nefna gögn myndbönd, margmiðlunargögn og margt fleira. Til að skólasafnið sinni sínu hlutverki Öllum er ljóst að til þess að skólasafn geti verið skilvirk stofnun þarf að gæta vel að nokkrum hlutum. Má þar fyrst nefna að tryggja þarf nægilegt fjármagn svo skólasafnið geti sinnt þeim bóka- og efniskaupum sem nauðsynleg eru til að mæta þörfum nemenda, kennara og annars starfsfólks. Einnig þarf að tryggja gott aðgengi að skólasafninu því safn sem nemendur sækja ekki heim er ekki vel notað. Til að þjóna sem flestum hafa margir skólar til dæmis farið þá leið að sameina tölvuver og skólasafn og kalla upplýsingaver. Ég kýs að kalla mitt vinnusvæði þekkingarsmiðju, fyrst og fremst til að fólk fjarlægist þá hugsun að upplýsingar eða upplýsingalæsi kalli bara á tölvur, sem virðist nokkuð almenn hugsanavilla. Þá skiptir ekki síst máli að starfsmaður safnsins hafi getu og hæfni til að sinna sínum verkum vel. Hann þarf helst að vera bókasafns- og upplýsingafræðingur eða kennari með viðbótarmenntun í bókasafns- og upplýsingafræðum. Auðvitað eru margir sem sinna skólasöfnum af miklum sóma þótt þeir hafi ekki þessa menntun en starfið getur orðið þeim mjög erfitt nema þeir sinni endurmenntun af mikilli elju. Vinnuumhverfi skólasafna er nefnilega alltaf að breytast og ekki hvað síst þegar æ meira reynir á rafræna miðla og að nemendur læri að taka ábyrgð á þeim heimildum og gögnum sem þeir þurfa að nýta í námi. Upplýsingaleit og úrvinnsla fer oftast fram á skólasafni eða í upplýsingaverum sem eru samansett af tölvuverum og skólasöfnum. Baráttan fyrir starfsheitinu Það þarf ekki að benda fagfólki í grunnskólum landsins á gildi þess að efla skólasöfn og að þeim sé nokkur sómi sýndur. Ekki hvað síst þegar hugað er að því að bæta og auka bóklestur barna. Það kann að hljóma hjákátlega en það virðist alltaf gleymast þegar samið er um kaup og kjör við grunnskólakennara að hugtakið skólasafnskennari hefur aldrei verið skilgreint af Kennarasambandi Íslands. Ég hef staðið í þessari umræðu við alla sem ég tel málið varða og alltaf er mér bent á það sama, það er bara ekki til fjármagn til þess að breyta þessu. Nefna má sem dæmi að fyrir um átta árum lágu tvær nýjar starfsheitisumsóknir fyrir hjá Kennarasambandinu, önnur var um starfsheitið námsráðgjafar og hin var um skólasafnskennara. Öll undirbúningsvinna var í lagi og skilgreiningar útfærðar enda búnar að bíða heilt samningstímabil áður en þá höfðu skólasafnskennarar bara „óvart” gleymst. Viti menn, enn gleymdust skólasafnskennarar en nýtt starfsheiti námsráðgjafa flaug inn enda mjög mikilvægt. En af hverju ekki starfsheiti á skólasöfnum? Eru starfsmenn þeirra ekki mikilvægir? Þá kom enn eitt svarið. Jú, við áttum nefnilega ekki mann í stjórn. Þetta var ekki sú faglega sýn sem ég taldi að stjórnarmenn kennarafélaganna hefðu. Er það ekki þannig að stjórnarmenn standi vörð um alla starfsmenn sem falla undir Kennarasambandið? Samkvæmt núgildandi kjarasamningum þýðir þetta fyrir okkur í launum að við röðumst tveim flokkum neðar en almennur umsjónarkennari og um fimm til sex flokkum neðar en námsráðgjafar. Það er svo undir hverjum skólastjóra komið hvaða starf fer fram á skólasafninu. Þann 1. júní síðastliðinn voru sett ný lög um grunnskóla. Í þeim er ekki minnst á skólasöfnin en samt kemur fram í 25 grein laganna mikilvægi mismunandi námsleiða, til dæmis notkun tæknimiðla, upplýsingatækni og safna- og heimildavinnu. Hvar er þeirri vinnu ætlað að fara fram? Nú skora ég á þig sem þetta lest og aðra sem starfa í grunnskólum landsins að láta þig málið varða. Þetta er ekki viðunandi staða og stefnir í að það metnaðarfulla starf sem víða fer fram á skólasöfnum landsins verði að engu. Kannski hverfa skólasöfnin alveg ef við bregðumst ekki við. Stöndum vörð um skólasöfnin okkar því það er okkar allra hagur. Siggerður Ólöf Sigurðardóttir Höfundur er grunnskólakennari og nemi í bókasafns- og upplýsingafræði MLIS Í hjarta skólans - nokkur orð um stöðu skólasafna í grunnskólum landsins Þetta er ekki viðunandi staða og stefnir í að það metnaðrarfulla starf sem víða fer fram á skólasöfnum landsins verði að engu. Kannski hverfa skólasöfnin alveg ef við bregðumst ekki við þessum breytingum. 21 Siggerður Ólöf Sigurðardóttir SKóLASöFN

x

Skólavarðan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skólavarðan
https://timarit.is/publication/1179

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.