Skólavarðan - 01.04.2009, Síða 6

Skólavarðan - 01.04.2009, Síða 6
6 SKÓLAVARÐAN 3.TBL. 9. ÁRG. 2009 GESTASKRIF: DAvíÐ A. STEFÁNSSON við það sama í grunnskólakerfinu og þegar ég stundaði þar nám. Þar tíðkaðist páfagaukalærdómur af gamla skólanum sem fólst aðallega í því að læra utanbókar mjög mörg og óspennandi ljóð eftir gamla kalla með barta, engin tilraun var gerð til að vekja áhuga okkar á ljóðum, okkur voru ekki færð nein tól til að grafa inn í merkingarheim ljóðanna til að skilja þau betur. Námið snerist að öllu leyti um ytra byrði ljóðanna en að engu leyti um innihald þeirra eða tungumálið sjálft. Útkoman er sú að ég kann enn utanbókar Fyrr var oft í koti kátt og Hafið bláa hafið, sem er gott og blessað en ekki sérlega fullnægjandi, svona á venjulegum degi. Allt sem ég lærði um áhrifamátt tungumálsins, undirtexta, ljóðrænar víddir, hugrenningatengsl – allt þetta lærði ég ekki fyrr en í háskólanáminu, farinn að nálgast þrítugsaldurinn. Ég trúi á hugvekjur, kveikta forvitni, innleiðingu, vakningu. Ég trúi því að allar manneskjur geti bæði skapað, skilið og skynjað listir og bókmenntir. Allar mann- eskjur, engar undantekningar. Við fæðumst öll með frumþörfina – ALLIR fara í gegnum einhvers konar skapandi tímabil á lífsleiðinni þar sem þörfin til að raða saman orðum á blað eða strjúka pensli á striga er svo sterk að þeirri köllun verður að fylgja. Oftast nær gerist þetta á unglingsárunum, enda er einstaklingurinn á því tímabili eins og jörð sem opnast undan þrýstingi úr iðrum sínum, þá er allt opið, allt vellandi og kvikt, ýkt og óendanlegt. Þannig eru unglingsárin. Og að þeim yfirstöðnum stendur eftir einhvers konar landslag, lítill hraunbreiða, hóll, fjall. Stundum gígur. Á þessum árum mótast nánast allt, en mótunin er óútreiknanleg, ófyrirsjáanleg. Og kannski af þessum sökum reynir skólakerfið að hafa hemil á náttúruhamförum unglingsáranna. Í stað þess að virkja kraftinn og fagna fæðingu hins nýja landslags bregst skólakerfið við með páfagaukalærdómi og mötun. Stífum ramma. Prófum þar sem „rétt“ túlkun á ljóði gefur háa einkunn, rétt eins og til sé rétt túlkun á ljóði, eins og ekkert sé sjálfsagðara. Er til rétt túlkun á hafi? Rétt túlkun á mosa? Kennum við börnunum okkar að meta náttúruna í gegnum náttúrufræði? Hvað hefur skapandi unglingur að gera með að læra ljóð utanbókar? Hvaða skilaboð senda svona viðhorf honum um ljóð? Eru þau hvetjandi? Það vill þannig til að í kvöld er ég að fara í tuttugu ára útskriftarafmæli með skólafélögum úr Hólabrekkuskóla. Það vill bara þannig til. Við ætlum að hittast í gamla skólanum, rölta um stofurnar, hitta nokkra kennara, rifja upp gamlar og góðar (og óþægilegar og hallærislegar) minningar og fara svo og skemmta okkur saman. Það eru sem sagt tuttugu ár síðan ég stundaði nám í grunnskóla og hér er ágætt að taka fram að ofangreind lýsing er auðvitað byggð á minni eigin reynslu og sennilega hefur skólakerfið tekið jákvæðum breytingum síðan þá. Þó er ég viss um að betur má ef duga skal. Þeir kennarar sem ég hef rætt við staðfesta að lítið sé um mjög safaríkt efni þegar kemur að ljóðum, bókmenntum, tungumáli og allra síst þegar kemur að neyslulæsi eða menningarlæsi. Þegar efna- hagstískan reið sem harðast yfir þjóðina var mikið rætt um átak í kennslu á fjár- málalæsi og rökin voru þau að fjármál og fjármálaumræða væri svo fyrirferðarmikil og ríkjandi í nútíma samfélagi. Það er gott og blessað. Á sama hátt langar mig óskaplega mikið til að koma þeirri hugmynd inn í skólakerfið að við þurfum að brynja okkur fyrir neysluskilaboðum. Þetta byggist á sömu lögmálum – unglingur þarf að þekkja muninn á vaxtakjörum til að láta ekki plata sig í viðskiptum, hann þarf að kunna skil á vissum hugtökum og með því verður hann að betri borgara. Líkurnar á persónulegum peningavandræðum minnka. Að nákvæmlega sama skapi þarf unglingur að þekkja muninn á góðum skilaboðum og slæmum, hann þarf að brýna augun, skerpa hugsunina og þora að standa með sjálfum sér en ekki tískustraumum í neyslu. Þetta snýst um þjónkun við ríkjandi viðhorf og tísku – við, bæði sem einstaklingar, þjóð og heimur, þurfum meira á því að halda en nokkru sinni fyrr að samfélagið sé uppfullt af skapandi og vel dugandi einstaklingum. Til að það gerist þarf íkveikja að verða grunnurinn í menntakerfinu – sú hugsun að börn og unglingar séu eldiviður, að í þeim búi allur heimurinn og meira til, og að okkur beri skylda til að kveikja í þeim áhuga, metnað og skapandi hugsun. Hugmyndafræðileg íkveikja, ekki óþreyjufull mótun eða mötun. Núna, á þrítugasta og sjötta aldursári, er ég að uppgötva að líklega ætlaði ég alltaf að verða kennari. Hugsunin um kennaranám er því farin að láta á sér kræla og kannski maður skelli sér með haustinu. Þetta kemur víst allt með kalda vatninu, sagði maðurinn og sótti sér vatn í lækinn – kannski rætist loksins þessi leyndi kennaradraumur. Ég hef að minnsta kosti fengið forsmekkinn af því að kenna upp úr bókinni minni, að nota bókina mína til íkveikju. Og það eru alvöru forréttindi að fá að beita eigin hugsunum á raunverulegar manneskjur, forréttindi sem mig langar til að upplifa fyrir alvöru. Davíð A. Stefánsson Höfundur er bókmenntafræðingur. Er til rétt túlkun á hafi? Rétt túlkun á mosa? Þannig eru unglingsárin. Og að þeim yfirstöðnum stendur eftir einhvers konar landslag, lítill hraunbreiða, hóll, fjall. Stundum gígur. Lj ós m yn d : V il hj ál m ur I ng i V il hj ál m ss on

x

Skólavarðan

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Skólavarðan
https://timarit.is/publication/1179

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.