Skólavarðan - 01.12.2009, Blaðsíða 3

Skólavarðan - 01.12.2009, Blaðsíða 3
FoRMANNSPISTILL Formaður og varaformaður KÍ og formenn aðildarfélaga KÍ skiptast á um að skrifa formannspistla í Skólavörðuna. Félögin á bak við formannspistlana eru: Félag framhaldsskólakennara (FF), Félag grunnskólakennara (FG), Félag leikskólakennara (FL), Félag stjórnenda í framhaldsskólum (FS), Félag tónlistarskólakennara (FT), Skólastjórafélag Íslands (SÍ). SKÓLAVARÐAN 8.TBL. 9. ÁRG. 2009 Ólafur Loftsson formaður Félags grunnskólakennara 3 Ansi er orðið þreytt að hlusta á suma af forystumönnum sveitarfélaga tala um að þeir ætli að standa vörð um störfin og grunnþjónustuna. Á sama tíma eru þeir ófáanlegir til að skilgreina hvað er grunnþjónusta og hvað ekki. Þeir fáu sem hætta sér út á þá braut tala út og suður um málin. Hvernig er hægt að skera niður kennslumagn í skólum, setja á yfirvinnubann, sameina bekki, fækka fólki, hætta með viðbótarstund, segja upp öllum lausráðnum, hætta að endurnýja tæki og tól, fækka í hópi stjórnenda og um leið: auka gæði og þjónustu? Hvers konar della er þetta? Hvers vegna ákveða sveitarstjórnarmenn ekki hvaða málaflokka þeir ætla að setja í forgang og setja þá svo í forgang? Ég sé ekki betur en stefnan sé sú að skera alls staðar niður, skerða alla þjónustu og minnka gæði í allri þjónustu sveitarfélaga – og þannig missa allt niðrum sig alls staðar. Með öðrum orðum: Þjónusta versnar á öllum sviðum og enginn stendur vörð um grunnþjónustuna. Ég er samt nokkuð viss um að flestir eru sammála um að við viljum standa vörð um heilbrigðisþjónustu, lögreglu, slökkvi- og sjúkralið og menntakerfi svo að helstu málaflokkar séu nefndir. Allt Kennarasambandinu að kenna Eitt af þreyttustu rökum sumra forsvarsmanna sveitarfélaga er að kenna kjarasamningum kennara um það sem aflaga fer í skólastarfi. Það nýjasta er að ekki sé hægt að stytta skólaárið vegna þess að það sé bundið í kjarasamninga kennara! Kennarar séu svo ósveigjanlegir. Með nýsamþykktum grunnskólalögum á Alþingi var ákveðið að binda í lög að nemendadagar eigi að vera 180. Sveitarfélögin hafa skrifað undir stöðugleikasáttmála þar sem meðal annars kemur fram að: Forsendur stéttarfélaga á opinberum vinnumarkaði fyrir gerð kjarasamn- inga eru að ekki verði gripið til lagasetninga eða annarra stjórnvaldsaðgerða sem hafa bein áhrif á innihald kjarasamninga eða kollvarpa með öðrum hætti þeim grunni sem kjarasamningar byggjast á. Félög Kennarasambandsins hafa samkvæmt þessu skuldbundið sig til að fara ekki fram á frekari launakröfur en koma fram í stöðug- leikasáttmálanum og við hljótum að krefjast þess að sveitarfélögin standi við sinn hluta. Ef það er Kennarasambandinu að kenna að við stöndum vörð um hagsmuni nemenda og heimila í landinu þá er ég stoltur af að eiga hlutdeild í því. Það ættu fleiri að skipa sér í þá sveit. Ekki vildi ég vera sveitarstjórnarmaður í næstu kosningum og bera ábyrgð á því að hafa ekki haft dug í mér til að standa vörð um menntun barnanna okkar. Það er óumdeilt að til lengri tíma litið er öflugt og sterkt menntakerfi hornsteinn uppbyggingar í landinu. Hagfræðingar eru sammála um að á krepputímum er niðurskurður til menntamála eitt af því vitlausasta sem hægt er að gera. Þorvaldur Gylfason hagfræðiprófessor benti á í fyrirlestri á síðasta þingi Kennarasambandsins að „góð lífskjör og mikil og góð menntun haldast í hendur“. Við getum ekki leyft okkur að láta ákveðna árganga nemenda fara á mis við þessi tækifæri. Við höfum hreinlega ekki efni á því. Meinið það sem þið segið Eitt að því sem kom út úr Þjóðfundinum var sú eindregna skoðun fundarmanna að það eigi að standa vörð um menntun barnanna okkar. Menntamál voru í fyrsta sæti af níu meginþemum sem valin voru af fundarmönnum inn í framtíðina. Ég skora á sveitarstjórnarmenn að 1) hætta að þykjast en gera það í raun og taka eindregna afstöðu með menntun barnanna og 2) horfast í augu við það að frekari niðurskurður setur skólastarf í enn meira uppnám með tilheyrandi afleiðingum fyrir nemendur. Ef það er einbeittur vilji sveitarstjórnarmanna að skera enn frekar niður í skólastarfinu eiga þeir að segja það. Berum orðum. Niðurskurður þýðir sjálfkrafa skert þjónusta og minni gæði – punktur. Hann þýðir að þeir árgangar nemenda sem í lenda verða fyrir óbætanlegum missi. Segið það sem meinið og meinið það sem þið segið. Hættið að fela ykkur á bak við „störfin og grunnþjónustuna“. P.s. Ég horfi út um gluggann minn á skrifstofu Kennarasambandsins á vélar og menn leggja veg vegna Hlíðarfótarlóðar þar sem samgöngumiðstöð átti að vera. Þessi vegstubbur kostar í ár 450.000.000 krónur! Forgangs-verkefni? Ólafur Loftsson Ef það er Kennarasambandinu að kenna að við stöndum vörð um hagsmuni nemenda og heimila í landinu þá er ég stoltur af að eiga hlutdeild í því. Það ættu fleiri að skipa sér í þá sveit. Það er „nebblega“ það!

x

Skólavarðan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skólavarðan
https://timarit.is/publication/1179

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.