Skólavarðan - 01.12.2009, Blaðsíða 22

Skólavarðan - 01.12.2009, Blaðsíða 22
SKÓLAVARÐAN 8.TBL. 9. ÁRG. 2009 NÁMSGöGN, FRéTTIR 22 Stjórn Félags grunnskólakennara ályktaði 2. desember sl. gegn frekari niðurskurði og áformum um slíkt í grunnskólum landsins. Bent er á að niðurskurður sé nú þegar orðinn verulegur og þrátt fyrir að mörg sveitarfélög nýti ekki útsvarsheimildir sínar að fullu krefjist þau engu að síður enn frekari niðurskurðar á kennslu og menntun grunnskólabarna. Ályktun 2. desember 2009 Stjórn Félags grunnskólakennara ítrekar þá staðreynd að þegar hefur verið skorið verulega niður í skólakerfinu. Tæplega 80% sveitarfélaga hafa dregið úr yfirvinnu, forfallakennslu og búnaðarkaupum auk þess sem kennslustundum hefur verið fækkað, fjölgað í námshópum og dregið úr vettvangsferðum nemenda svo eitthvað sé nefnt. Jafnframt lýsir stjórnin yfir undrun sinni á því að á sama tíma og sveitarfélög krefjast enn frekari niðurskurðar á kennslu og menntun grunnskólabarna skuli mörg þeirra ekki nýta útsvarsheimildir sínar að fullu. Stjórn Félags grunnskólakennara skorar á sveitarstjórnarmenn að taka eindregna afstöðu með menntun og standa við fyrri yfirlýsingar um að verja menntakerfið, sem sannarlega er hluti af grunnþjónustu sveitarfélaga, og láta hér staðar numið í niðurskurðaráformum. Stjórn Félags grunnskólakennara. Skrifað í skrefum – ný útgáfa Vefurinn Skrifað í skrefum hefur nú verið endurskoðaður og miklu efni bætt við hann. Á honum eru fjölbreytilegar æfingar, verkefni og hugmyndir að ritunarverkefnum. Einnig er þar að finna ítarlegar kennsluleiðbeiningar, matsblöð og gátlista fyrir kennara sem nota bókina Skrifað í skrefum. Hún kom út 1997 og er byggð á kenningum fræðimanna um ferlisritun og reynslu höfunda af öllum stigum grunnskólakennslu. Trunt, trunt og tröllin Á löngum, dimmum vetrarkvöldum sátu sögumenn í íslenskum baðstofum fyrri alda. Þeir sögðu sögur meðan fólkið sat á rúmum sínum og vann. Þær segja frá álfum, tröllum, huldumönnum, galdramönnum, draugum, sæbúum, vitrum mönnum og heimskum, englum og púkum, Kristi og Kölska. Þessar sögur eru kallaðar þjóðsögur og ævintýri. Í Trunt, trunt og tröllin eru 44 þjóðsögur og ævintýri sem skiptast í átta flokka: Álfar og huldufólk, draugar, galdrar, kímni- og ýkjusögur, tröll, helgisögur, úr sjó og vötnum og útilegumenn. Feitletruð orð í texta eru með orðskýringum. Kennaraefni er væntanlegt á vefinn í desember. Óboðnir gestir Þau sofa í tjaldi við kirkjugarðinn. Enginn er heima á bænum. Allt í einu heyrist eitthvað. Hurðaskellur! RADDIR! Hvað er á seyði? Skemmtileg og spennandi saga eftir Sigrúnu Eldjárn í flokknum Auðlesnar sögubækur fyrir mið- og unglingastig grunnskóla. Hitt og þetta, íslenska sem annað tungumál Hitt og þetta, íslenska sem annað tungumál, eftir Jacqueline Friðriksdóttur og Ragnheiði Sigtryggsdóttur, er safn lestexta og verkefna. Bókin er einkum ætluð nemendum á unglingastigi sem eru með annað móðurmál en íslensku en hafa náð nokkurri færni í íslensku máli. Henni er ætlað að efla orðaforða þeirra, bæta lesskilning og vera eins konar brú yfir í lestur texta sem mæta nemendum á þessu aldursstigi. Efnið er valið með hliðsjón af mismunandi bakgrunni lesenda og kemur úr ýmsum áttum eins og heiti bókarinnar gefur til kynna. Verkefni fylgja hverjum kafla þar sem athygli nemenda er beint að einstökum orðum ásamt því að gera kröfur um lesskilning. Hitt og þetta nýtist einnig íslenskum nemendum sem þurfa skýra framsetningu á efni. Allir textar eru lesnir inn á hljóðbók sem hlaða má niður af vef Námsgagnastofnunar. Bókin er einnig til í vefútgáfu fyrir þá sem kjósa að prenta út stakar síður. Landafræði tónlistarinnar Vefurinn Landafræði tónlistarinnar eftir Ívar Sigurbergsson kynnir fyrir íslenskum grunnskólanemum menningu og tónlist sem er þeim framandi. Áhersla er lögð á tónlistina en líka það menningarlega samhengi sem hún er sprottin úr. Einnig má finna ýmis verkefni á vefnum. Í þessari fyrstu atrennu eru kynnt tvö lönd: Krít og Túnis. Þá er væntanlegt efni um Spán og spænska tónlist. Efnið er einkum ætlað mið- og unglingastigi. KÍ vekur athygli félagsmanna sinna á umræðufundum um TALIS rannsóknina sem Námsmatsstofnun heldur í fundarsal sínum í Borgartúni 7 A í Reykjavík. Fyrstu tveir fundirnir voru núna í desember en haldið verður áfram á nýju ári með fundi 13. janúar, 3. og 24. febrúar og 17. mars. TALIS rannsóknin fjallar um stöðu og viðhorf kennara og skólastjórnenda í grunnskólum. Þetta er alþjóðleg samanburðarrannsókn sem unnin var í samvinnu við OECD fyrir menntamálaráðuneytið. Ísland var eitt 24 þátttökulanda og voru helstu niðurstöður birtar sl. sumar, sjá nánar á ki.is/pages/2391 og á namsmat.is Á umræðufundunum verður fjallað um ýmsa þætti niðurstaðna Talis en í henni er lögð megináhersla á mat á störfum kennara og þeirri endurgjöf sem þeir fá, starfsþróun, viðhorf og skoðanir kennara til eigin kennslu og á hlutverk og starfshætti skólastjórnenda. Dagskrá umræðufundanna á næsta ári: • 13. jan. 2010. Menntun kennara. Er munur á kennurum eftir menntun? Menntunarhópar kennara eru bornir saman á mælikvörðum TALIS. Þessar upplýsingar eru nýttar til þess að greina frekar menntunarþörf íslenskra kennara. • 3. feb. 2010. Starfsánægja kennara og trú þeirra á eigin getu. Hvaða þættir hafa áhrif á starfsánægju kennara og trú þeirra á eigin getu? Hvaða þætti er unnt að bæta til þess að auðvelda kennurum og skólastjórum að rækja hlutverk sitt? • 24. feb. 2010. Mat og endurgjöf. Hvaða þættir skipta máli varðandi mat á störfum kennara, skólastjóra og skóla? Gerir matið gagn? Hvernig má bæta það og/eða auka? • 17. mars 2010. Skólamenning. Má greina ólíka skólahópa á Íslandi eftir starfsháttum og viðhorfum kennara og skólastjóra þeirra? Niðurstöður klasagreiningar kynntar. Nýtt frá Námsgagnastofnun Fundaröð Námsmatsstofnunar um niðurstöður TALIS rannsóknarinnar FG ályktar gegn niðurskurði

x

Skólavarðan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skólavarðan
https://timarit.is/publication/1179

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.