Skólavarðan - 01.12.2009, Blaðsíða 6
6 SKÓLAVARÐAN 8.TBL. 9. ÁRG. 2009
vinnur þjóðfélagið betur í að byggja sjálft sig
upp að mínu mati og við öðlumst ríkara og
gjöfulla samfélag. Þeir listamenn sem eru
ekki á listamannalaunum geta farið í skólana
líka á sínum eigin forsendum, vegna þess að
þá langar til þess að lesa bækur, segja sögur,
mála myndir, dansa ballett og spjalla og leika
sér við börn og fullorðna án endurgjalds. Ég er
eiginlega alveg viss um að það er ekki sá skóli
eða leikskóli í landinu sem hefur ekki tíma
aflögu frá strangri aðalnámsskrá til að taka á
móti slíkum gestum.
Rithöfundasambandið hefur staðið fyrir því
að senda skáld í skóla um árabil með góðum
árangri og eru þessar hugmyndir ekki settar
upp gegn því framtaki, enda er það frábært.
En það má kannski taka það til fyrirmyndar
og skoða hvernig rithöfundar, gjarnan tveir
saman, hafa sett saman dagskrá úr verkum
sínum og flutt þau fyrir grunnskólabörn víða
um landið.
Ef til vill má taka þetta skapalón rithöfund-
anna og búa til hópa listamanna; rithöfund og
hönnuð eða tónlistarmann og myndlistarmann
eða leikara, tónskáld og ballerínu, sem dæmi.
Hóparnir færu svo saman og kynntu list sína
í skólum og kynntust daglegu lífi í skólunum í
leiðinni. Sjá ekki allir hvað þetta er frábært og
gefandi fyrir alla aðila, eða eins og sagt er á
góðri útlensku „win-win situation“?
Að öllu gríni slepptu þá lifum við á tímum
þar sem við þurfum að hugsa út fyrir kassann
og finna lausnir frekar en að leggja árar í
bát. Við upplifðum hrun á mörgum sviðum,
ekki síst efnahagslega og siðferðislega en
líka tilfinningalega, og nú er komið að því að
byggja upp aftur. En í stað þess að hætta að
fara í skólana út af fjárskorti eigum við einmitt
að fara oftar þangað, rithöfundar og aðrir
listamenn eiga að gera innrás í skólana, taka
þá yfir í stutta stund og lesa, spjalla og eiga
stund með skólafólki, sjálfum sér og öðrum
til ánægju. Lyfta andanum á hærra plan án
þess að hugsa um það hvað hlutirnir hefðu
kostað ef það væri ennþá 2007. Þá komum
við hjartanu og tilfinningum aftur í réttan takt,
gott siðferði blómstrar og við byrjum sjálf á
tiltektinni sem við erum öll að bíða eftir að
stjórnvöld hefji, innan frá. Aðlögum stjórnvöld
að okkur en ekki öfugt, þá lagast allt hitt af
sjálfu sér og við verðum heilsteypt þjóð aftur.
Einhvers staðar las ég eða heyrði að þegar
maður á lítið þá eigi maður að gefa mikið.
Þannig sé maður að segja alheiminum að
það sé til nóg fyrir alla. Ég veit með vissu
að það er nóg til af rithöfundum og öðrum
listamönnum sem eru meira en til í að koma
í skólana og eiga stund með nemendum, gefa
tíma sinn. Ég tel að við sem störfum sem
listamenn höfum ekki efni á því að gera það
ekki. Oft var þörf en nú er nauðsyn.
Heimsókn í Heiðarskóla
Ég sjálf var svo heppin um daginn að vera
boðið að koma og hitta yngri bekki í Heiðar-
skóla í Reykjanesbæ. Þetta var sérstakt að
því leyti að ég var ekki að kynna nýju bókina
mína heldur að ræða við nemendur um það
hvernig það er að vera rithöfundur, segja
þeim hvernig vinnudagurinn væri og svara
spurningum. Fyrri daginn hitti ég krakka í 1.
bekk og seinni daginn 2. bekk, 3ja bekk og
að lokum fimmta bekk. Það er skemmst frá
því að segja að þessar heimsóknir voru ein-
staklega ánægjulegar fyrir mig. Krakkarnir
voru að undirbúa dagskrá fyrir Dag íslenskrar
tungu og voru þau yngri að vinna dagskrá
úr Ávaxtakörfunni og þau eldri úr Diddu og
dauða kettinum. Þau sungu, unnu leiklestra
upp úr bókinni um Diddu og léku af bestu list.
Ég var mjög ánægð með það sem þau voru að
gera og þakklát fyrir að fá að koma og fylgjast
með þeim í undirbúningnum.
Seinni daginn þegar ég hafði hitt alla
bekkina og var á leið út úr skólanum kom til
mín ungur drengur sem ég hafði hitt í fyrsta
bekk deginum áður. Hann tók í höndina á mér
og horfði voteygður á mig. „Heyrðu Kikka, ég
ætla bara segja þér að ég vil ekki vera eins
og Immi ananas, ég ætla alltaf að vera góður
við alla“. Svo labbaði stubburinn út og fór að
leika sér við skólafélaga sína. Ég hins vegar
stóð eftir á ganginum og horfði á eftir honum,
orðin voteyg líka, og hugsaði með mér hvað
það væru mikil forréttindi sem höfundur að
fá að upplifa andartak sem þetta. Að ná til
eins lesanda eða áhorfanda er gefandi og
gerir skriftirnar, sem oft geta tekið á, þess
virði. Jafnvel þó lesandinn sé aðeins sjö ára
gamall. Eða kannski ég ætti heldur að skrifa:
Sérstaklega vegna þess að lesandinn er bara
sjö ára.
Þegar ég gekk út úr Heiðarskóla skömmu
síðar fór um mig einkennilegur sæluhrollur,
ég hafði fengið bestu viðurkenningu sem
rithöfundar fá, viðurkenningu lesanda. Ég
vona að „ástandið“ verði ekki til þess að rit-
höfundar og aðrir listamenn hætti að fara
í skólaheimsóknir og eiga þar stund með
nemendum og kennurum. Það væri mikill
missir, bæði fyrir skólana og ekki síst rithöf-
undana sjálfa. Þess vegna er ekki vitlaust að
tengja listamenn við skólana í gegnum lista-
mannalaunin, bara tímabundið, þar til við
höfum komið okkur upp á lappirnar aftur.
Kristlaug María Sigurðardóttir
Höfundur er rithöfundur.
Aðlögum stjórnvöld að okkur en ekki öfugt, þá lagast allt
hitt af sjálfu sér og við verðum heilsteypt þjóð aftur.
GESTASKRIF: KRISTLAUG MARíA SIGURÐARdóTTIR