Skólavarðan - 01.12.2009, Blaðsíða 13
VINNUVERNd
SKÓLAVARÐAN 8.TBL. 9. ÁRG. 2009 13
Í vinnuumhverfisbólu desembermánaðar,
sem er á www.ki.is í heild, er fjallað um
streitu og aðgerðir á vinnustöðum til að koma
í veg fyrir hana og styðja þá sem glíma við
streitu. Talið er að um þriðjungur kennara
líði af völdum streitu og/eða kulnunar í
starfi.
Í íslenskri rannsókn frá árinu 2006 sögðust
27% starfsmanna búa við vinnustreitu og 42%
hafa of mikið að gera í vinnunni. Streita og
vanlíðan starfsfólks hefur áhrif á vinnustaðinn
í heild, gerir stjórnendum erfiðara um vik og
hefur áhrif á einstaka starfsmenn, líðan þeirra
og vinnuframlag.
Of mikið álag getur leitt til aukinna fjar-
vista, meiri starfsmannaveltu, verri árangurs,
óánægju þeirra sem njóta þjónustu vinnu-
staðarins, (ef skóli, þá nemenda og foreldra)
og verri ímyndar. Fyrir starfsmann geta
afleiðingar álags og streitu meðal annars
verið einbeitingarskortur, verkkvíði, þreyta og
svefntruflanir. Auk þess geta komið fram ýmis
líkamleg einkenni eins og bak- og meltingar-
vandamál, magasár, háþrýstingur og veikt
ónæmiskerfi.
Álags- og streitustjórnun þarf að vera á
vinnustaðnum. Ekki má einblína á lausnir
sem einstaklingur þarf að sinna heldur einnig
hugsa um vinnustaðinn sjálfan og skipulag
hans. Þannig má draga úr líkum á að starfsfólk
upplifi streitu og álag í vinnunni.
Metum stöðuna
Fyrst af öllu þarf að átta sig á hvaða þættir í
vinnuumhverfinu eða skipulaginu valda álagi
og til þess má meðal annars nota vinnu-
umhverfisvísi Vinnueftirlitsins um félagslegan
og andlegan aðbúnað á vinnustað. Slóðin
er vinnueftirlit.is/vinnueftirlit/upload/files/
vinnuumhverfisvisar_og_gatlistar/visafe01_
felagsl_andl_adbun.pdf
Auk þess er hægt að spyrja starfsfólk um
líðan í vinnu. Ekki er ráðlegt að spyrja beint
hvort viðkomandi sé „stressaður“ heldur
frekar að leita eftir þáttum í starfinu og vinnu-
umhverfinu sem valda álagi. Biðja starfsfólk
um að nefna jákvæða og neikvæða þætti
vinnunnar, spyrja um álag, athafnafrelsi, sam-
skipti, vinnutilhögun, stuðning og stjórnun
ásamt samspili vinnu og einkalífs.
Að lokum má fylgjast með veikindafjarvist-
um, starfsmannaveltu, frammistöðu, slysum
og mistökum og reyna að sjá og skýra mynstur
og breytingar.
Tökum á málinu
Lýðheilsustöð mælir með eftirfarandi aðgerðum
til að lágmarka streitu á vinnustöðum:
Breytingar á skipulagi vinnunnar: Laga
kröfur að fólkinu sem vinnur störfin. Sjá til
þess að starfsfólk hafi næga þekkingu og
færni. Veita starfsfólki meiri sjálfsstjórn. Veita
starfsfólki stuðning, hvetja til samvinnu og
meiri samskipta starfsfólks.
Þjálfun í streitustjórnun: Bjóða upp á
fræðslu um einkenni og afleiðingar streitu
og hafa námskeið í slökun, tímastjórnun og
markmiðasetningu. Styðja fólk til að stunda
hreyfingu.
Vinnuvistfræðilegir þættir: Bæta aðbúnað.
Draga úr hávaða, tryggja gott inniloft, bæta
búnað og draga úr óvæntum truflunum.
Fræðsla og þjálfun stjórnenda um streitu og
í leiðtoga- og samskiptafærni ásamt því
hvernig megi leysa úr ágreiningi á árangurs-
ríkan hátt.
Þróun vinnustaðarins: Taka upp betri vinnu-
ferla og stjórnunarhætti. Byggja upp vinnu-
staðamenningu sem er vinsamleg, hvetjandi
og styðjandi. Virkja starfsmenn í að finna
leiðir til að ná þeim árangri sem stefnt er að.
Sérstakar aðstæður
Mikilvægt er að stjórnendur gefi starfsmönn-
um sem glíma við sérstaklega mikið álag eða
erfiðleika, í vinnu eða einkalífi, kost á að fá
ráðgjöf hjá fagaðilum. Í slíkum tilfellum er
meðal annars hægt að benda á Sjúkrasjóð
KÍ sem styrkir kennara og stjórnendur til
að sækja sér aðstoð ýmissa fagaðila. Sjá
úthlutunarreglur sjóðsins á ki.is/lisalib/
getfile.aspx?itemid=7976
Hafa ber skýrt verklag um hvernig bregðast
skuli við slíkum aðstæðum því of algengt er
að starfsfólk fái mismikinn stuðning eftir því
hvort álagið leiðir til andlegra eða líkamlegra
veikinda. Starfsmaður sem fær brjósklos á í
flestum tilfellum auðvelt með að fá greiningu
á sínum vanda, veikindadaga og skilning frá
vinnufélögum þegar hann kemur til baka. Því
miður er slíkt ekki alltaf tilfellið þegar um er
að ræða andlega kvilla svo sem þunglyndi.
Forðast skal að mismuna fólki eftir sjúk-
dómum en veita samskonar stuðning í öllum
tilfellum.
Sjá nánar á www.ki.is
Streita og vanlíðan á vinnustað
Of mikið álag getur leitt til aukinna fjarvista, meiri starfsmannaveltu,
verri árangurs, óánægju þeirra sem njóta þjónustu vinnustaðarins og
verri ímyndar. Fyrir starfsmann geta afleiðingar álags og streitu meðal
annars verið einbeitingarskortur, verkkvíði, þreyta og svefntruflanir.
Auk þess geta komið fram ýmis líkamleg einkenni eins og bak- og
meltingarvandamál, magasár, háþrýstingur og veikt ónæmiskerfi.