Skólavarðan - 01.09.2012, Page 3

Skólavarðan - 01.09.2012, Page 3
3 Skólavarðan 1. tbl. 2012 Kristín Elfa Guðnadóttir LEIÐARI Stöndum með kennurum Leikskólar, grunnskólar, tónlistarskólar, framhaldsskólar. Þetta er Kennarasambandið og hér vinnur obbinn af félagsmönnum þess. Á þremur skólastiganna er skólastarfið nýlega hafið eftir sumarið og leikskólinn, þar sem skólaárið er lengra, er að hefja vetrarstarfið eins og hinir. Í hvaða umhverfi fara kennarar inn í veturinn? Fáum blandast hugur um að það einkennist af niðurskurði og að starfið þyngist með hverjum vetri. Skólar eru sameinaðir án samráðs svo heitið geti. Illa gengur að fá nemendur í sumt kennaranám og starfandi kennarar eru vanmetnir, undir of miklu álagi og lítið hlustað á þá. Það er í þessu samhengi sem KÍ er að berjast fyrir úrbótum og bættum kjörum og stéttarfélagið þarf svo sannarlega fleira gott fólk með sér sem er reiðubúið að fórna dýrmætum tíma sínum til félagsstarfa. Eitt af því erfiðasta að eiga við er kynjamismunun. Við erum í hópi þeirra þjóða sem eru lengst komnar í jafnrétti en eigum samt enn svo óralangt í land. Og kennarastéttin líður fyrir það. Að höndla með peninga er enn álitið miklu mikilvægara en að mennta börn og ungmenni. Alþjóðadagur kennara er 5. október. Yfirskrift dagsins að þessu sinni er Stöndum með kennurum og ég hvet félagsmenn til þess að gera sér dagamun á þessum degi og vekja á honum athygli. En ef við stöndum ekki með okkur sjálf þá gerir það enginn. Við eigum ekki bara að sýna allt það góða starf sem við erum að vinna – við erum sem betur fer farin að verða duglegri við það en fyrir nokkrum árum síðan – heldur eigum við að vera óhrædd, gera kröfur og vera í fararbroddi í allri umræðu um menntun. Það gerist nákvæmlega ekki neitt ef við sitjum úti í horni og látum allt yfir okkur ganga. Í Bandaríkjunum er vinsælt að nota hugtakið „zero tolerance“ á alla mögulega og ómögulega hluti. Höfum núll umburðarlyndi gagnvart vanvirðingu í garð kennara.

x

Skólavarðan

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Skólavarðan
https://timarit.is/publication/1179

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.