Skólavarðan - 01.09.2012, Blaðsíða 6

Skólavarðan - 01.09.2012, Blaðsíða 6
6 Skólavarðan 1. tbl. 2012 Texti og myndir: GG Grunnþættirnir sjö á gólfið Ný námskrá boðar hún breytingar? var yfirskrift ágústráðstefnu Samtaka áhugafólks um skólaþróun (SÁS) 2012. Hún fjallaði um nýja aðalnámskrá fyrir grunnskóla og var haldin í Ingunnarskóla 14. ágúst sl. í samvinnu við mennta- og menningarmálaráðuneytið. Rúmlega fjögur hundruð kennarar og aðrir starfsmenn grunnskóla flykktust á ráðstefnuna og komust færri að en vildu. Stjórnendur ráðstefnunnar sögðu að áhuginn fyrir ráðstefnunni hefði farið langt fram úr vonum þeirra og óneitanlega væri ánægjulegt að finna fyrir þeim lifandi áhuga sem ríkti þar. Helgi Grímsson, formaður SÁS, setti ráðstefnuna en Ólafur H. Jóhannsson stjórnaði ráðstefnunni og flutti inngangsorð en síðan tóku frummælendur við. Aðalnámskrá grunnskóla 2011 er um margt byltingarkennd og boðar margvíslegar nýjungar og breytingar á skólastarfi á öllum skólastigum á nýrri öld. Þar segir m.a. í öðrum kafla sem fjallar um almenna menntun: „Almenn menntun byggist á fjölbreyttu námi á meginsviðum menningar okkar, umhverfis og samfélags. Stefnt er að almennri menntun í heildstæðu skólastarfi og námi á námssviðum, í námsgreinum og námsáföngum. Skilgreining á grunnþáttum er tilraun til að kortleggja þau meginsvið almennrar menntunar sem skólastarfið stefnir að.“ Í sjöunda kafla segir m.a. að áhersla sé lögð á að allir nemendur eigi rétt á að stunda nám við sitt hæfi. Tækifærin eigi að vera jöfn óháð atgervi og aðstæðum hvers og eins. Þar stendur líka að skólinn eigi að vera griðastaður barna þar sem þau finni til öryggis, fái tækifæri til að þroska og nýta hæfileika sína og njóta bernsku sinnar. Mikilvægt sé að halda við eðlislægri forvitni barnsins þar sem hún sé ein mikilvægasta forsenda alls náms. Leikurinn sé leið ungra barna til að læra á heiminn og læra um heiminn. Miklu skipti að leiknum sem námsaðferð sé gert hátt undir höfði í grunnskóla og sú áhersla einskorðist ekki við yngstu nemendurna. Í þessum rétti felist einnig að bernsku- og æskuárin hafi tilgang í sjálfu sér en séu ekki eingöngu undirbúningur fyrir frekara nám og störf. Hér er háleitum markmiðum lýst og nýja námskráin boðar margar spennandi nýjungar og nýja sýn á kennslu og námsmat til framtíðar en sú spurning brennur á mörgum kennurum hvort námskráin nýja sé raunhæf eða hvort hún birti draumsýn sem ekki sé framkvæmanleg í skólunum sem flestir berjast við niðurskurð og þurfi að hagræða í hvívetna. Víða í skólum séu hópar stórir og kennarar meta það svo að þeir séu undir miklu álagi. Ráðstefnunni í Ingunnarskóla var m.a. annars ætlað að varpa ljósi á spurningar eins og þessa. Fulltrúar þeirra starfshópa sem samið hafa kafla um einstök námssvið fjölluðu um grunnþættina, læsi, sjálfbærni, heilbrigði og velferð, lýðræði og mannréttindi, jafnrétti og sköpun, og sýndu með dæmum hvernig mætti útfæra þá í kennslunni. Hér á eftir fara stuttir útdrættir úr máli þeirra. Síðasti frummælandinn, Þóra Björk Jónsdóttir, fjallaði um nýja sýn námskrárinnar á námsmat. Að loknum framsöguerindum gafst gestum ráðstefnunnar færi á að dýpka skilning sinn með þátttöku í málstofum þar sem þeir gátu rakið garnirnar úr námskrárhöfundunum. Ágústráðstefna Samtaka áhugafólks um skólaþróun Á fimmta hundrað skólamanna fjölmenntu á ráðstefnu um nýja aðalnámskrá grunnskóla. RáÐstEfnuR

x

Skólavarðan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skólavarðan
https://timarit.is/publication/1179

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.