Skólavarðan - 01.09.2012, Page 41

Skólavarðan - 01.09.2012, Page 41
41 Skólavarðan 1. tbl. 2012 Börnin skilji hringrásina Jónína Lárusdóttir leikskólastjóri á leikskólanum Klömbrum sagði nauðsynlegt að námið í leikskólanum væri skipulagt þannig að barnið geti notið bernsku sinnar. Hún sagði markmiðið vera að þroska hæfi- leika barna. „Barnið upplifir ekki hindranir sem mistök, heldur sem ábendingu um að velja aðra leið. Þannig eflist sjálfstraust barnsins. Við leggjum áherslu á að börnin hafi efnivið við hæfi. Börnin bjarga sér oft með knappan efnivið. Þannig sjáum við til dæmis að ef límband er ekki fyrir hendi þá reyna þau að nota band.“ Hún sagði samræðu, hvatningu, hjálpsemi og stuðning vera hluta af sköpunarferlinu og í því ferli væri annað fólk mikilvægt. Börnin lærðu líka mikið af umhverfinu og til dæmis af því að fara á sýningar. Það nýttu börnin sér svo í verkefnum sínum í leikskólanum. Börnin ættu að vera virkir þátttakendur í sjálfbærni. „Sjálfbærni í skólastarfi snýst um að börnin skilji hringrásina, t.d. með moltugerð. Þau þurfa að taka þátt í að gróðursetja og temja sér nýtni og endurnýtingu. Við leggjum áherslu á að við skilum jörðinni eins og við tókum við henni. Börnin taka ákvörðun um hverju á að henda, hvað við getum notað áfram í leikskólanum og hvað á að fara til endurvinnslu. Þau þurfa að gera sér grein fyrir að allt hefur sinn tíma. Það tekur tíma að rækta tré og það tekur tíma að smíða kassabíl, svo dæmi séu tekin.“ Jónína sagði að börnin þurfi að finna að þau taki líka ákvarðanir. „Við þurfum að tryggja að börnin okkar alist upp í samfélagi þar sem viðhorf eins og umburðarlyndi og ábyrgð ríkja,“ voru lokaorð Jónínu Lárusdóttur. Aðalnámskráin þarf að komast á dagskrá Guðlaug Sturlaugsdóttir, skólastjóri Grunnskóla Seltjarnarness, sagði að sér hefði verið falið að fjalla um grunnþætti aðalnámskrár og þátt stjórnenda í að innleiða þær en hún léti ekki alltaf vel að stjórn þannig að hún myndi fara um víðan völl. „Grunnþættirnir eru það sem allt byggir á og það er hlutverk okkar kennaranna og annarra fagmanna að vinna að þessum þáttum. Það er ýmislegt nýtt í þessari námskrá,“ sagði hún og setti upp grunnþættina á glæru til að minna fólk á. „Þegar ég renndi yfir námskrána nýju þá sá ég að í formála Katrínar Jakobsdóttur kemur raunar fram allt sem þarf að segja. Þar stendur: „Það eru gömul sannindi og ný að engin raunveruleg þróun verður í skólastarfi nema fyrir tilstuðlan kennara og skólastjórnenda.“ Þannig að ef við vinnum vinnuna okkar þá bara gengur þetta vel.“ Guðlaug sagðist vilja ræða þátt stjórnenda og þá ætti hún ekki bara við skólastjóra heldur aðstoðarskólastjóra og deildarstjóra líka. Hún sagði að aðalnámskráin þyrfti að komast á dagskrá hjá þessu fólki því hún væri frábært tæki til skólaþróunar ef hún væri nýtt sem slíkt. „Auðvitað hefur ýmislegt breyst frá fyrri námskrá en annað hefur ekki breyst eins mikið. Hvar standa skólarnir, hvað hefur breyst og hvað þarf að breytast? Við þurfum að horfa svolítið inn á við í hverjum skóla fyrir sig og skoða hverju við viljum breyta. Við þurfum að spyrja okkur hvað breytingar geri kennslunni. Kennslan er það sem þetta snýst um og það sem gerist í skólastofunni.“ Guðlaug sagði hins vegar vandann vera þann að mikið væri að gera og taldi upp ýmislegt sem þyrfti að sinna. Þess vegna þyrfti að finna rétta tímann fyrir námskrána. Það væri örugglega ekki á haustin. „Við ákváðum að setja þetta á dagskrá. Þetta þarf ekki endilega að kallast innleiðing aðalnámskrár. Það getur alveg eins heitið þróunarverkefni eins og er til dæmis hérna í Flensborgarskóla. Við höfum líka símenntunartíma sem við getum nýtt í þetta. Þetta þarf ekki að vera sérverkefni heldur hluti af skólaþróuninni. Með því að nýta símenntunina finna kennararnir betur hvernig þetta nýtist í starfi. Sveitarfélögin þurfa að setja peninga í símenntun kennara og við erum svo heppin að Seltjarnarnes hefur gert það svo við höfum getað keypt til okkar sérfræðiþekkingu,“ sagði Guðlaug Sturlaugsdóttir. Arnór Guðmundsson. Guðlaug Sturlaugsdóttir. Ragnhildur Jónsdóttir. Ráðstefnugestir. námsKRáRnAR

x

Skólavarðan

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Skólavarðan
https://timarit.is/publication/1179

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.