Morgunblaðið - 11.07.2016, Blaðsíða 16
16
MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 11. JÚLÍ 2016
Hægt er að lýsa skoðun á ritstjórnargreinum Morgunblaðsins á http://www.mbl.is/mogginn/leidarar/
Íbreskumstjórnmálumhefur stundum
verið fleygt fram að
„sá sem bregði
hnífnum beri aldrei
krúnuna.“ Slíkt má
til sanns vegar færa
í leiðtogakjöri
Íhaldsflokksins, þar sem svipt-
ingarnar hafa verið á þann veg,
að lýsendur vilja helst líkja við
leikrit Shakespeare um Makbeð
eða Júlíus Sesar.
Margir töldu til að mynda nán-
ast óumflýjanlegt að Boris John-
son, einn helsti forystumaður
þess að Bretland gengi úr ESB,
færi fram í formannsslagnum eft-
ir að David Cameron sagði af sér.
En eftir að Michael Gove dóms-
málaráðherra sveik hann í
tryggðum til þess að undirbúa
sitt eigið framboð hætti Johnson
við.
Gönuhlaup Gove hitti hann
sjálfan hins vegar verst fyrir, þar
sem samflokksmenn hans í þing-
flokki íhaldsmanna litu svo á, að
honum væri ekki treystandi fyrir
æðsta embætti Bretlands. Sú
staða er því komin upp, að í leið-
togakjörinu eru nú einungis tveir
frambjóðendur eftir, þær Andrea
Leadsom, orkumálaráðherra, og
Theresa May, innanríkisráð-
herra. Það er því allt útlit fyrir að
í annað sinn í sögu Bretlands
verði kona forsætisráðherra.
Þær munu nú biðla til meðlima
Íhaldsflokksins, 150.000 að tölu,
um atkvæði, en kosið er í póst-
kosningu sem lýkur í september.
Fyrirfram er May sigurstrang-
legri, en hún hlaut stuðning 299
þingmanna flokksins, eða nærri
því 2/3 hluta hans. Sagan sýnir þó
að stuðningur þingflokksins er
engan veginn ávísun
á formannsstólinn.
May hefur mun
meiri pólitíska
reynslu, var fyrst
kjörin á þing árið
1997 og tók við emb-
ætti innanríkis-
ráðherra þegar
samsteypustjórn Íhaldsflokks og
Frjálslyndra demókrata var
mynduð árið 2010. May var í hópi
þeirra sem studdu áframhald-
andi veru Breta í Evrópusam-
bandinu, en hefur lýst því af-
dráttarlaust yfir að niðurstöðu
atkvæðagreiðslunnar eigi að
virða.
Leadsom settist hins vegar
fyrst á þing árið 2010 og varð
ráðherra orkumála í fyrra. Lead-
som hefur það helst framyfir
May að hún barðist ötullega fyrir
útgöngu Breta úr Evrópusam-
bandinu, og hún er talin vera
lengra til hægri en May. Hvort
tveggja gæti fallið í kramið með-
al almennra meðlima Íhalds-
flokksins.
Kosningabaráttan gæti því
orðið meira spennandi en talið
var í fyrstu, en fáir áttu von á því
að Leadsom myndi komast í
gegnum nálarauga þingflokks-
ins. Skortur á reynslu gæti þó
orðið henni fjötur um fót, þegar
almennir íhaldsmenn vega og
meta formannskostina tvo. Um
helgina var Leadsom sökuð um
að hafa reynt að vega á móti eigin
reynsluleysi með því að beina at-
hyglinni að þeirri staðreynd að
May er barnlaus. Leadsom neit-
aði þessu eins og við var að búast,
en engu að síður getur verið að
þarna hafi tónninn verið sleginn
um harða og persónulega kosn-
ingabaráttu.
Slagur Theresa May
og Andrea Leadsom
um forystuna í Bret-
landi harðnaði
óvænt um helgina}
Íhaldsmenn takast á
Ramadan, hinumhelga föstu-
mánuði múslima,
lauk sl. miðvikudag
með miklum hátíða-
höldum víða um heim. Þegar litið
verður til baka er þó líklegra að
Ramadan ársins 2016 verði
minnst fyrir skelfileg ofbeld-
isverk Ríkis íslams, sem beind-
ust ekki síst að öðrum múslim-
um. Rúmlega 300 manns hafa
fallið í þeim árásum víðsvegar
um heiminn.
Í upphafi mánaðarins kölluðu
samtökin eftir því að fylgismenn
sínir myndu nota Ramadan til
þess að sá ógn í hjörtu andstæð-
inga sinna. Það má rekja að
minnsta kosti átta árásir til sam-
takanna, allt frá Orlando í
Bandaríkjunum til Dhaka í
Bangladess. Mannskæðasta
árásin var í Bagdad, þar sem um
250 manns létust í sjálfsmorðs-
árás á hverfi sjía í höfuðborg
Íraks.
En samtökin réðust einnig á
súnníta. Árás samtakanna í Med-
ínu, annarri helg-
ustu borg múslima,
við moskuna þar
sem talið er að Mú-
hameð sé grafinn,
kom til að mynda verulega á
óvart. Virðist sem að þar hafi
skinið í gegn að raunverulegt
takmark samtakanna er að beita
ógn og skelfingu til þess að ná og
halda völdum, frekar en fylgi-
spekt við spámanninn.
Sumir sérfræðingar í mál-
efnum Mið-Austurlanda telja að
árásarhrinuna nú megi rekja til
þess að samtökin hafa látið veru-
lega undan síga á síðustu miss-
erum, og að jafnvel megi líkja
árásunum við dauðakippi. Hins
vegar er það talsvert áhyggju-
efni að samtökin virðast eiga sér
fylgismenn víða um heim, sem
tilbúnir eru að fórna lífi sínu í
þágu hins illa málstaðar.
Hætta er því á að árásum af
þessu tagi fjölgi eftir því sem
Ríki íslams fer meira halloka í
stríðsrekstri sínum í Írak og Sýr-
landi.
Ramadan vanhelg-
aður af Ríki íslams}Blóðugur helgimánuður
É
g komst við, líkt og flestir Ís-
lendingar, þegar Eiður Smári
kom inn á í lokaleiknum okkar
í EM og fékk fyrirliðabandið
um leið. Það að strákarnir
skoruðu í næstu sókn var nánast eins og
himnasending. Þvílíkur endir á glæsilegum
ferli okkar fremsta knattspyrnumanns um
árabil.
Nema hvað, þá rifjaðist upp fyrir mér pist-
ill sem Hörður Snævar Jónsson ritaði á fót-
boltaheimasíðuna 433.is fyrir nokkru. Hörður
kallaði þar eftir „alvöru“ kveðjuleik, í áttina
við það sem kallast „testimonial“ í útlöndum,
eða sem gæti kallast „heiðursleikur“ á ís-
lensku.
Ég set „alvöru“ innan gæsalappa, því að
þetta yrði enginn hefðbundinn leikur. Hug-
mynd Harðar var í stuttu máli sú að íslenska
landsliðið myndi mæta „úrvalsliði“ Eiðs, og nefndi
þar ýmsa liðsfélaga hans í gegnum tíðina eins og
Frank Lampard, Gianfranco Zola og fleiri kappa og
allur ágóðinn færi til góðgerðarmála. Troðfullur
Laugardalsvöllur, allir að skemmta sér, og Eiður
fengi þá kveðju sem honum ber sem merkisberi ís-
lenskrar knattspyrnu um langt skeið.
Ég las þennan pistil, og hugsaði með mér: „Hvers
vegna ekki?“ Ef einhver núlifandi íslenskur leik-
maður hefur unnið sér inn fyrir heiðursleik, þá er það
Eiður Smári. Og meira að segja, ef ég á að
taka drauminn enn lengra, þá gæfist þarna
tækifæri til þess að „leiðrétta“ ein hörmu-
legustu mistök sem knattspyrnusaga Ís-
lands hefur að geyma.
Það mætti nefnilega nota þennan leik til
þess að stilla saman upp í byrjunarliði Ís-
lands þeim feðgum Eiði Smára og Arnóri
Guðjohnsen. Hvers vegna ekki? Í leikjum af
þessu tagi sjást alls kyns hlutir sem þú færð
ekki í venjulegum leikjum. Leikmenn sem
varla hafa séð bolta í mörg ár sprikla inn á
völlinn. Ég hef séð heiðursleik þar sem sá
sem var verið að heiðra skipti um lið í hálf-
leik og skoraði meira að segja fyrir bæði lið.
Í leiknum sem Sir Alex Ferguson fékk sér
til heiðurs voru allt í einu komnir allir helstu
leikmenn Manchester United sem hafa verið
í treyju númer 7, og já, þeir voru allir í
treyju númer 7 á sama tíma inni á vellinum, og sumir
komnir vel af léttasta skeiði.
Því að heiðursleikir eru nákvæmlega það, leikir til
heiðurs einhverjum, en ekki alvöru kappleikir, þar sem
allt veltur á því að ná sem bestum úrslitum og fylgja
þarf reglunum til hins ýtrasta.
Ef byrjað væri að skipuleggja þetta núna, væri hægt
að halda leikinn næsta sumar, jafnvel í staðinn fyrir
einhvern vináttulandsleikinn. Hvers vegna ekki? Vilji
er allt sem þarf. sgs@mbl.is
Stefán
Gunnar
Sveinsson
Pistill
Hvers vegna ekki?
STOFNAÐ 1913
Útgáfufélag: Árvakur hf., Reykjavík.
Ritstjóri:
Davíð Oddsson
Aðstoðarritstjóri:
Karl Blöndal
Ritstjóri og framkvæmdastjóri:
Haraldur Johannessen
FRÉTTASKÝRING
Laufey Rún Ketilsdóttir
laufey@mbl.is
Við töldum að það myndi eflaöryggi ferðamanna og sjó-farenda og þeirra semkoma í hafnirnar að eiga
áæltun sem felur fyrst og fremst í sér
að skilgreina boðleiðir og ábyrgð
ásamt því að efla samvinnu þeirra
sem koma að svona atviki,“ segir Íris
Marelsdóttir, verkefnisstjóri hjá
Embætti landlæknis, en sóttvarn-
arlæknir hefur nú hafið vinnu við
gerð sóttvarnaráætlunar fyrir hafnir
og skip svo hægt sé að takast á við
sóttmengun sem ógnar lýðheilsu.
Komum skemmtiferðaskipa til
Íslands hefur fjölgað mikið á und-
anförnum árum og spár gera ráð fyrir
enn frekari aukningu. Árið 2015
komu 435 skip til landsins og farþeg-
ar voru rúmlega 290 þúsund en far-
þegar eru taldir oftar en einu sinni
þar sem hvert skip fer á fleiri en eina
höfn á Íslandi. Áætlað er að hinn 29.
júlí næstkomandi verði sex skemmti-
ferðaskip í Faxaflóahöfnum og skráð-
ir farþegar þeirra eru rúmlega 2.400
talsins án áhafna en 4.000 talsins séu
áhafnirnar taldar með. Þetta kemur
fram í fréttabréfi sóttvarnarlæknis.
Bæta þjónustu við ferðamenn
„Áætlunin lítur fyrst og fremst
að því að farþegar um borð fái viðeig-
andi upplýsingar og þjónustu til sín
og að þeir sem bera ábyrgð á mála-
flokknum viti hvert þeir eigi að leita
hér á landi,“ segir Íris en ekki sé ver-
ið að stækka ógnina heldur bæta
þjónustuna við þá ferðamenn sem
hingað koma ásamt þá sem starfa á
þessum vettvangi.
Fram til þessa hefur verið stuðst
við hópslysaáætlanir þó að viðbrögðin
séu ekki alfarið þau sömu þegar upp
koma til dæmis matarsýkingar eða
smitsjúkdómar.
„Matarsýkingar valda farþegum
óþægindum,“ segir hún og þá er mik-
ilvægt að bregðast við og biðja þá að
halda sig innaborðs svo þeir haldi
ekki út í ferðalög um landið þegar
smitaðir af sýkingunni. „Þá er mik-
ilvægt að þeir fái viðeigandi þjónustu
um borð,“ segir Íris en matarsýking
af þessu tagi kom upp í Reykjavík í
fyrra.
Upplýsingaskylda þjóða
„Menn mátu áhættuna þannig að
við þyrftum að gera áætlun og leiða
saman þessar stofnanir og þá sem
vinna við hafnirnar,“ segir Íris en að
gerð sóttvarnaáætlunarinnar koma
einnig almannavarnardeild ríkislög-
reglustjóra, Hafnasamband Íslands,
Samgöngustofa, Tollstjórinn, Land-
helgisgæslan, Umhverfisstofnun og
Heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga.
Það hafi þó verið árið 2011 sem
áhættuskoðun almannavarna leiddi í
ljós hættu á hópslysum vegna auk-
ins fjölda ferðamanna. „Þá fórum
við að skoða hvað væri með veik-
indin og þá var lagt til að farið yrði
strax í aðgerðir fyrir ákveðnar hafn-
ir.“
Embætti landlæknis ber einnig
skyldu samkvæmt Alþjóðaheilbrigð-
isreglugerðinni frá árinu 2005 sem
kveður á um upplýsingaskyldu
þjóða gagnvart öðrum ef til þeirra
berast smitsjúkdómar.
Tíu hafnir tilbúnar
Íslandi er skipt í sjö sóttvarn-
arumdæmi og gerir áætlunin ráð
fyrir að í hverju umdæmi verði höfn
sem geti tekist á við sóttmengun.
Stefnt er að því að áætlunin
taki til hafna í Faxaflóa, Grund-
arfirði, Ísafirði, Sauðárkróki, Ak-
ureyri, Seyðisfirði, Eskifirði, Reyð-
arfirði, Þorlákshöfn og í
Vestmannaeyjum. Verklok eru
áætluð um næstu áramót.
Bregðist við matar-
sýkingum farþega
Morgunblaðið/Árni Sæberg
Sóttvarnaráætlun Árið 2015 komu 435 skip til landsins og farþegar voru
rúmlega 290 þúsund. Áætlun þarf til að bregðast við sýkingum innanborðs.
Sóttvarnaráætlun fyrir Leifs-
stöð er til á vegum embættis
landlæknis og var undirrituð
um áramót af embættinu
ásamt Isavia og Almanna-
varnadeild ríkislögreglustjóra.
„Við erum búin að æfa hana
og búin að skila skýrslu um
þá æfingu sem gekk vel,“ seg-
ir Íris.
Við æfinguna kom í ljós að
atburðurinn sjálfur getur
gerst mjög hægt en afleiðing-
arnar geta orðið alvarlegar ef
ekki er farið strax í að upp-
lýsa alla hluti og gæta fyllstu
varúðar.
Ekki hefur verið ákveðið
hvort sambærileg æfing verði
haldin fyrir sóttvarnaráætlun
embættisins fyrir hafnir og
skip vegna umfangsins. Stýri-
hópur almannavarnadeildar og
sóttvarnarlæknis tekur
ákvörðun þar um.
Áætlun til fyr-
ir Leifsstöð
UNDIRRITAÐ OG ÆFT