Morgunblaðið - 19.09.2016, Page 10
10 FRÉTTIRInnlent
MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 19. SEPTEMBER 2016
Sameinar það besta í rafsuðu
Smiðjuvegi 66 • Kópavogi • 580 5800 • www.landvelar.isFuruvöllum 3 • Akureyri • 461 2288
Guðni Einarsson
gudni@mbl.is
Nýlega ákvað umhverfis- og auðlinda-
ráðherra sama fyrirkomulag rjúpna-
veiða í haust og gilt hefur síðustu þrjú
ár. Umhverfisstofnun (UST) lagði til
að leyft yrði að veiða rjúpur í 18 daga
en Náttúrufræðistofnun Íslands (NÍ)
lagði til 12 veiðidaga líkt og voru á ár-
unum 2013-2015.
Fyrir friðun rjúpunnar 2003 og
2004 var veiðitíminn 69 dagar að
lengd. Leyft var að veiða rjúpur í 47
daga haustið 2005 en svo fækkaði
veiðidögunum ár frá ári og urðu þeir
fæstir árin 2011 og 2012 eða 9 dagar
hvort ár. Dr. Ólaf-
ur Karl Nielsen,
vistfræðingur og
helsti rjúpnasér-
fræðingur hjá NÍ,
sagði að veiðidög-
um hefði verið
fækkað eftir frið-
un 2004 til að
draga úr veiði-
álagi. Reyndin
varð sú að fækkun
veiðidaga skerti
ekki sóknargetuna því rjúpnaskyttur
fara flestar ekki nema 3-4 daga til
veiða á hverju tímabili. En hvers
vegna var veiðidögunum ekki fjölgað
nú?
„Það er lítið af rjúpum núna og við
teljum að það eigi ekki að auka getu
manna til að sækja í rjúpuna nú með
því að fjölga dögunum,“ sagði Ólafur.
En hefði þá átt að sleppa rjúpnaveið-
um þetta árið?
„Nei,“ sagði Ólafur. „Í mínum huga
er þetta spurning um hvort við ætlum
að halda áfram að nytja rjúpuna eða
ekki. Ef við ætlum að gera það þá eig-
um við að stíga varlega til jarðar og
láta fuglinn njóta vafans í öllum at-
höfnum sem tengjast nytjunum. Það
hefur verið gert síðustu 10-15 árin.
Veiðitíminn var styttur og sett á sölu-
bann sem skipti mjög miklu máli.
Veiðimenn hafa verið hvattir til að
sýna hófsemi og þeir hafa brugðist
drengilega við því. Þeir hafa gjör-
breytt sinni hegðan. Í mínum huga
skiptir fjöldi leyfðra veiðidaga
kannski ekki öllu máli, en við höfum
hvatt til íhaldssemi á meðan stofninn
er jafnlítill og nú.“
Heilbrigðið og viðkoman
Í mati NÍ á veiðiþoli rjúpnastofns-
ins haustið 2016 kemur m.a. fram að
viðkoma rjúpna hafi verið slakari frá
2005 en í 25 ár þar á undan. Meðalfjöl-
skyldustærð í lok júlí var 6,5 ungar á
kvenfugl á Norðausturlandi og 6,9
ungar á kvenfugl á Suðvesturlandi.
Áður var tæplega tveimur ungum
meira á hvern kvenfugl.
Ólafur sagði vitað að bæði tíðarfar
og heilbrigði rjúpunnar hafi áhrif á af-
komu unganna. Ólafur sagði að þrátt
fyrir gott veður í sumar hafi afkoma
rjúpunnar ekki verið sérlega góð.
„Rannsóknir sem gerðar hafa verið
frá 2006 sýna að samband er á milli
sníkjudýrasýkinga í rjúpum á haustin
og viðkomu þeirra sumarið á undan,“
sagði Ólafur. Þegar sníkjudýrasýk-
ingar grassera í stofninum eru unga-
hópar síðsumars að jafnaði minni en
þau ár þegar minna er um slíkar sýk-
ingar.
Rannsóknarverkefni NÍ um heil-
brigði rjúpunnar lýkur eftir tvö ár.
Það hefur staðið í tíu ár. Hundrað
rjúpum hefur verið safnað á Norð-
austurlandi ár hvert og heilsufar
þeirra rannsakað. Verkefnið mun
varpa ljósi á tengsl frjósemi, affalla og
stofnbreytinga annars vegar og
heilsufars rjúpnanna hins vegar, auk
þess að veita fleiri upplýsingar. Ólafur
sagði að ástand fuglanna sé mjög mis-
munandi á milli ára. „Heilsa fuglanna
virðist skipta máli varðandi stofn-
breytingar. Holdastuðull fuglanna rís
og hnígur eins og stofnstærðin og
ýmsir aðrir þættir taka miklum
breytingum á milli ára,“ sagði Ólafur.
Refurinn og rjúpan
Því hefur verið haldið fram að ref-
urinn sé mikill meinvættur í lífi rjúp-
unnar. Hver eru áhrif hans á rjúpna-
stofninn?
„Refurinn grípur rjúpuna hvenær
sem færi gefst. Ef rjúpnastofninn vex
taka refir fleiri rjúpur. Áhrif tófunn-
ar, ef einhver eru, eru væntanlega
þau að halda rjúpnastofninum niðri,“
sagði Ólafur. Hann benti á að rjúpan
hafi verið alfriðuð árin 2003 og 2004.
Þá var refastofninn að komast í sögu-
legt hámark.
„Stofninn tók stóran vaxtarkipp
bæði árin og um allt land, þrátt fyrir
fjölgun refa. Það eina sem var tekið út
voru skotveiðar. Girðingar, raflínur,
fálkar og tófur og allt annað sem verð-
ur rjúpum að grandi var eins og áður.
Það er ekki hægt að benda bara á tóf-
una í þessu sambandi.“
Afrán tófu á rjúpnastofninn hefur
ekki verið kannað sérstaklega, að
sögn Ólafs. Fyrir nokkrum árum
fylgdist Aðalsteinn Örn Snæþórsson,
þá meistaranemi í líffræði, með á ann-
að hundrað rjúpum sem merktar voru
með radíómerkjum á suðvesturhorn-
inu og á Norðausturlandi. Á suð-
vesturhorninu reyndist vera mikið af-
rán bæði á hreiðrum og kvenfuglum.
Kettir, minkar og refir drápu fuglana
og eins rændu mávar og hrafnar
hreiðrin.
Veiðiafföllin voru vanmetin
„Forsendan fyrir sjálfbærum nytj-
um er að stofninn sé vaktaður. Við hjá
Náttúrufræðistofnun vöktum rjúpna-
stofninn og gerum ákveðnar mæling-
ar á sama hátt ár eftir ár,“ sagði Ólaf-
ur. „Karrar sem búnir eru að helga
sér óðul eru taldir á vorin og byggir
stofnvísitalan á þeim talningum. Við
athugum aldurshlutföll í varpstofnin-
um á vorin, hirðum dauða fugla við
hreiður fálka eða hrafna og aldurs-
greinum og síðustu ár höfum við tekið
ljósmyndir og aldursgreint eftir
myndunum. Svo metum við komuna
síðsumars. Stærðarmunurinn á ung-
um og fullorðnum rjúpum auðveldar
okkur að aldursgreina á þeim árs-
tíma. Loks eru veiddar rjúpur aldurs-
greindar á haustin. Einnig safnar
UST skýrslum frá veiðimönnum. Út
frá þessum gögnum metum við stærð
veiðistofns og hvernig afföllin breyt-
ast á milli ára,“ sagði Ólafur.
Stofnlíkan fyrir rjúpnastofninn var
smíðað í samráði við Háskóla Íslands
á sínum tíma. Það hefur verið matað á
vöktunargögnum frá Norðaustur-
landi. Reikniaðferðin er þannig að ör-
yggismörkin verða óhjákvæmilega
mjög víð.
Árið 2015 var notað nýtt líkan við
að meta stofnstærð rjúpunnar að
hausti og afföll. Sú aðferð gefur mun
þrengri öryggismörk en eldri aðferð-
in. Ólafur sagði að við samanburð á
nýju aðferðinni og þeirri eldri virðist
sem stærð rjúpnastofnsins hafi verið
ofmetin og afföll vegna veiða verið
vanmetin.
„Við höfum talið að veiðiafföllin séu
í kringum 10% síðan 2005 en sam-
kvæmt nýja matinu eru þau 15-20%.
Samkvæmt eldra matinu fóru veiði-
afföllin hæst í 40% á árunum 1995-
2002 en samkvæmt nýja matinu var
allt að helmingur fuglanna drepinn á
veiðitímanum þegar mest var þau ár,“
sagði Ólafur.
Stofnmatið og sveiflurnar
UST mælti með því í tillögum um
fyrirkomulag rjúpnaveiða til um-
hverfis- og auðlindaráðuneytisins að
miðað yrði við að varpstofn rjúpu fari
ekki undir 90.000 fugla og það verði
lágmarksstofn eða sjálfbærniviðmið.
Fari stofninn svo langt niður verði
veiðar ekki leyfðar fyrr en hann fer
yfir 100.000 fugla. NÍ gerði athuga-
semdir við skilgreiningu UST á lág-
marksstofnstærð og sjálfbærum
fuglaveiðum m.a. vegna þeirrar
óvissu sem er í stofnmatinu. En við
hvaða aðstæður yrði talið að framtíð
rjúpnastofnsins sé ógnað?
„Ég tel að það væri þegar þeir vísar
sem við horfum á og fáum með vöktun
rjúpnastofnsins, vísar eins og stofn-
vísitala, frjósemi, dánartala, það er
þegar þessir vísar sýndu langtíma
neikvæða leitni. Þannig var til dæmis
ástandið þegar gripið var til friðunar
á árunum 2003 og 2004,“ sagði Ólafur.
„Við sáum hvernig toppar stofnsveifl-
unnar höfðu lækkað. Leitnin til lengri
tíma litið hafði öll verið niður á við.
Þetta stoppaði við friðunina. Stofninn
hefur haldið áfram að sveiflast eftir
það en topparnir frá 1998 verið hver
öðrum svipaðir. Þeir eru lægri en þeir
voru oft á árum áður en það er ekki að
sjá að leitnin niður á við hafi haldið
áfram eftir friðunarárin. Í augnablik-
inu bendir ekkert til þess að rjúpna-
stofninn sé í sérstakri hættu þótt það
sé lítið af rjúpu síðustu ár.“
Þrír svipað háir toppar hafa komið í
rjúpnastofninn frá árinu 1998, alla
vega á norðausturhorninu. Stofninn
er nú í niðursveiflu. Ólafur sagði að
fallið á Norður- og Austurlandi haldi
líklega áfram í einhver ár. Um vestan-
vert landið hefur sveiflan náð botn-
inum. Á sumum athugunarsvæðum
eru teikn um að þar sé að byrja upp-
sveifla.
Núna er einna mest af rjúpu á
norðausturhorninu og Austurlandi.
Toppur var á Austurlandi 2014 og
2015 á norðausturhorninu. Þótt lands-
hlutarnir liggi saman var þróunin í
rjúpnastofninum ekki samstíga. Skil-
in lágu um Vopnafjörð.
Misjöfn hegðun rjúpnanna
Þó nokkuð flakk er á rjúpunni, en
mismikið eftir staðbundnum stofnum.
„Hluti stofnsins hagar sér eins og far-
fuglar í þeim skilningi að þeir yfirgefa
varplöndin og fara í aðra landshluta
til að hafa vetursetu. Fuglarnir sem
ferðast lengst eru á norðausturhorn-
inu. Svo koma þeir aftur á vorin til
sinna varpheimkynna. Rjúpur úr
Þingeyjarsýslum fara yfir á Suður-
land og Suðvesturland og þó nokkuð á
Austurland,“ sagði Ólafur. Hluti af
veiðinni á Suðurlandi er því þingeysk-
ir fuglar.
Fuglarnir á Suðvesturlandi halda
sig á sömu torfunni mestallt árið.
Ferðalög lengra en 10 kílómetra
heyra til undantekninga. Fuglarnir
fara upp á heiðar og fjöll á haustin og
koma niður þegar vetur gengur í garð
á fjöllum.
Rjúpnastofninn er lítill, en ekki í hættu
Veiðimenn hafa sýnt hófsemi Afkoma rjúpnaunga ræðst af tíðarfari og heilbrigði Sumar rjúpur
fara á flakk en aðrar eru heimakærar Fuglinn á að njóta vafans í öllum ákvörðunum mannanna
Morgunblaðið/Sigurður Ægisson
Rjúpuungi Viðkoma rjúpna hefur verið slakari frá árinu 2005 en hún var í 25 ár þar á undan. Rannsóknir sýna að
samband er á milli sníkjudýrasýkinga í rjúpum á haustin og viðkomu þeirra sumarið á undan.
Dr. Ólafur Karl
Nielsen