Morgunblaðið - 20.09.2016, Blaðsíða 22

Morgunblaðið - 20.09.2016, Blaðsíða 22
22 MINNINGAR MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 20. SEPTEMBER 2016 ✝ Eiríkur SmithFinnbogason fæddist 9. ágúst 1925. Hann lést á hjúkrunarheimili Hrafnistu í heimabæ sínum, Hafnarfirði, 9. september 2016. Foreldrar hans voru Sigríður Benjamínsdóttir, f. 1896, og Finnbogi Kolbeinsson, f. 1893. Hann giftist Bryndísi Sigurð- ardóttur, f. 1929, þeirra börn eru Sóley Eiríksdóttir, f. 1957, d. 1994, maki hennar var Jón Axel Björnsson og dóttir þeirra er Brynja Jónsdóttir, f. 1990. Smári Eiríksson, f. 1961, er kvæntur Birnu Lísu Jens- dóttur. Smári á dótturina Tinnu Smáradóttur, f. 1981, með Heiðu Hringsdóttur og dóttir Tinnu er Kolfinna Ósk Andradóttir, f. 2007. Útför Eiríks verður gerð frá Hafnarfjarðarkirkju í dag, 20. september 2016, kl. 13. Þegar ég var lítil varði ég ófáum stundum í Klukkuberginu hjá ömmu og afa. Heimsóknin byrjaði á því að fá koss á kollinn frá afa sem alltaf kallaði mig litlu lúsina sína. Á yngri árum voru spjöllin ekki löng en ég tyllti mér við hliðina á honum fyrir framan sjónvarpið eða færði honum kvöldverðinn með bláberjaskyri í eftirrétt. Afi var mjög einbeittur við sína vinnu og börnum var ekki boðið á vinnustofuna. Hann var mjög ákveðinn en alltaf blíður og ég bar heilmikla virðingu fyrir honum en hafði gaman af að ögra honum pínulítið þegar ég varð eldri. Súkkulaðiskúffan þar sem hann geymdi suðusúkkulaði í bunkum var ekki fyrir hvaða krumlur sem er, en nokkrir út- valdir fengu aðgang, hægt og ró- lega komst ég í súkkulaðifrelsið hjá afa og sótti gjarnan fyrir hann fjóra mola í seinni desert. Afi minn var ekki ísbíltúra-afinn eða bíó-af- inn. Göngulagið var ákveðið, hann passaði alltaf upp á að ég kynni að heilsa kurteisislega og að ég færi ekki óvarlega með hnífinn þegar ég var að skera mér brauðsneið. Það var varla að ég mætti halda á hníf fyrir 14 ára aldur, svo vand- lega passaði hann uppá mig. Þegar ég var í kringum 12-13 ára stakk amma mín upp á sam- verustund fyrir okkur afa og úr varð að hann tók mig með sér á golfvöllinn, en hann stundaði golf af miklum krafti og var nokkuð góður. Áður en við lögðum af stað fann hann til nokkrar kylfur sem hann mátti sjá af og við skelltum þeim í gamlan golfpoka sem afi hafði fært mömmu minni að gjöf þegar hún var unglingur. Af stað lögðum við eftir klassískan morg- unverð, en á hverjum morgni eld- aði afi hafragraut og lagði á borð af mikilli nákvæmni. Alltaf tvö box, eitt með vítamínum, annað með eplum og áleggi fyrir brauð- sneið. Þetta var fyrsta skiptið sem við afi áttum langa samverustund ein. Hann kenndi mér sveifluna og sýndi mér mikla þolinmæði, mér þótti virkilega vænt um þessar stundir þrátt fyrir að ferðirnar væru ekki margar þar sem áhugi minn fyrir golfi var takmarkaður. Því betur sem ég kynntist afa og því eldri sem ég varð áttaði ég mig betur á honum. Ég sá betur dýptina í honum og tilfinninga- semina. Fyrst sá ég einbeittan, ákveðinn mann sem ég vildi helst ekki ögra, þegar hann varð eldri varð hann mun mýkri. Svona er okkar saga, hann á aðra með Smára syni sínum, aðra með mömmu minni og þá lengstu með ömmu sem þekkti hann best allra. Mikið sem mér þótti vænt um þig, elsku afi minn, takk fyrir allt. Við sjáumst í hinni víkinni eins og amma segir. Brynja Jónsdóttir. „Þar sem andi Drottins er þar er frelsi (2. Kor. 3.18).“ Lífsmyndir og sköpunarundur, er Eiríkur Smith dró fram í málverkum sín- um, vitna bæði um heim efnis og anda, innri sem ytri veruleika. Þrátt fyrir kröpp kjör fylgdi hann ungur köllun sinni og menntaðist hérlendis og erlendis til stórbrot- innar listsköpunar. Þegar ég kynntist Eiríki átti hann mynd- skeið að baki. Hann hafði vikið frá óhlutbundnum verkum og popp- list, glímt við strangflatarform en í upphafi ferils túlkað lífsbaráttu fólks til lands og sjávar. Ég kom til Eiríks og Bryndísar á Stekkjar- kinn til að kynna mig fyrir prests- kosningar og hreifst af verkum hans, einu þó mest er ég hef ekki séð á neinni sýningu Eiríks. Þar sjást stjörnuþokur í fjarska bak við mannsfóstur en fremst stúlka og piltur í listdansi. Mér þótti sem það hlyti að heita Sköpun eða Trúarjátning, því það vekur trúar- lega lífslotningu. Sýning Eiríks á Kjarvalsstöðum1981 olli tímamót- um og sannaði að stórmeistari væri á ferð. Myndverkin birtu fjöru og öldur, haf og himin, hverf- ulleika og umbreytingar á manns- ævinni en vísuðu líka til annarra vídda. Eitt þeirra sýndi móður Ei- ríks, Guðbjörgu Sigríði Benja- mínsdóttur, halda á honum barn- ungum sem greypt í fortíðarvegg. Á annarri mynd sást hún öldruð og rúnum rist umlukin öldum og him- inljósi. Innst í Ljósbroti, forsal Strandbergs, safnaðarheimilis Hafnarfjarðarkirkju, er mynd eft- ir Eirík af ljósgeisla kljúfa dökkan hamravegg og varpa skini á laug. Fínlegur kross sker hana og birtir að geislinn er frá Kristi. Eiríkur gaf kirkjunni myndina til minning- ar um móður sína. Fleiri myndir eftir hann eru í Strandbergi og aðrar hafa verið þar til sýnis. Vorið 2009 fögnuðu Eiríkur og Bryndís 70 ára fermingarafmæli hans í kirkju sinni, samstiga sem ávallt enda hún drifkraftur í lífi hans og listsköpun. Eftir messu færðu þau mér mynd að gjöf er ber heitið Strönd. Hún sýnir fjöruborð og fugl á flugi en einnig gátt líkt og að öðrum heimi. Myndin prýðir heim- ili okkar Þórhildar eins og fleiri verk Eiríks. Þau þökkum við og vináttu látins drengskaparmanns, góðar stundir á Stekkjarkinn og síðar í skjannahvítu húsi þeirra á Klukkubergi er hæfir að nefna Ei- ríksjökul þótt hlýtt sé þar og fag- urt. Yfirlitssýningar á verkum Ei- ríks í Hafnarborg eftir að hann færði listamiðstöðinni hundruð mynda sinna varpa ljósi á sam- hengið í mögnuðum myndheimi hans og stöðuga framsækni. Tvær þær síðustu báru heitið „Tilvist anda og efnis“ og „Á eintali við til- veruna“ er var opnuð á 90 ára af- mælisdegi hans. Þær votta upp- málað öryggi, frelsi fullþroska listar því það er sem jörð og him- inn, hverfulleiki og varanleiki tengist þar í æðri einingu. „Í myndum Eiríks litir leiftra og skína/og ljós sést þar sem opnar klett og hraun./ Þær fleira en ásýnd yfirborðsins sýna/ því æðri víddir birtast þar í raun.“ Guði sé þökk fyrir líf og list Eiríks Smith og leiði hann í Jesú nafni inn í þær lífsvíddir sem myndir hans vísa til og blessi ástvini hans. Gunnþór Ingason. Þegar maður er ungur, þá er það eitthvað sem er fyrir nefinu á manni eða kannski frekar fyrir augunum í þessu tilfelli, sem verð- ur þess valdandi hvar maður lend- ir á lífsbrautinni. Mér finnst ekki ólíklegt að í mínu tilfelli hafi eitt af því verið stór og kröftug mynd eftir Eirík Smith sem ég sá oft á heimili besta vinar föður sem bjó í Hafnarfirði. Seinna kynntist ég betur verk- um Eiríks en hann tók inn í sína myndlist það sem er á bak við hið sýnilega og sýndi okkur þann heim sem þar er. Það er óþarfi að fara mörgum orðum um myndir Eiríks þær eru fullkomlega færar um að gera það sjálfar. Ég var kominn vel á stað í mál- aralistinni þegar ég varð þeirrar ánægu aðnjótandi að kynnast listamanninum sjálfum og voru kynni við hann og Bryndísi mjög ánægjuleg, ég hafði kynnst Sól- eyju dóttur þeirra í Mynd og handó en hún var auðvitað sami ljúflingurinn og foreldrarnir, það er auðvitað það sem gefur lífinu gildi að fá að kynnast svona fólki, ég bið Guð að blessa minningu þeirra feðgina og Bryndís, ég samhryggist þér innilega. Daði Guðbjörnsson. Látinn er á 92. aldursári list- málarinn og Hafnfirðingurinn Ei- ríkur Smith. Eiríkur fæddist árið 1925 og ólst upp í Straumi við Straumsvík fyrstu árin. Fjöl- skyldan fluttist inn til Hafnar- fjarðar árið 1931 og bjó Eiríkur í Hafnarfirði nær alla tíð síðan. Hann byrjaði snemma að teikna skip og báta á pappír sem honum áskotnaðist. Teikningar hans vöktu athygli og fékk hann hvatn- ingu frá kennurum sínum í Barna- skóla Hafnarfjarðar til að hlúa að þessum hæfileika. Til er einstök ljósmynd frá þessum tíma sem sýnir bekkjarstofu Eiríks skreytta myndum eftir hann. Ei- ríkur fór ungur að árum út á vinnumarkaðinn. Áhugi hans á myndlist var þó aldrei langt undan og stundaði hann samhliða vinnu námskeið og sýningar. Árið 1946 hóf hann nám við Handíða- og myndlistarskólann og tveimur ár- um síðar, 1948, hélt hann fyrstu sýningu sína í Sjálfstæðishúsinu í Hafnarfirði. Hann stundaði mynd- listarnám í Kaupmannahöfn og París en nam einnig prentmynda- smíði við Iðnskólann í Hafnarfirði. Eiríkur vann lengst af að list sinni í Hafnarfirði. Hann fékk aðstöðu í Barnaskólanum og síðar í Flens- borg. Eftir að hann byggði sér hús við Stekkjarkinn á 6. áratugnum, ásamt Bryndísi Sigurðardóttur, eiginkonu sinni, var hann ætíð með vinnustofu heima. Um 1990 byggðu þau sér glæsilegt hús í Setberginu í Hafnarfirði með bjartri og rúmgóðri vinnustofu sem gerði Eiríki mögulegt að vinna stærri olíumálverk en áður. Eiríkur var einn stofnfélaga í Golfklúbbnum Keili og var síðar stofnfélagi í klúbbnum Setbergi í Hafnarfirði. Merki beggja klúbba eru frá honum komin. Vígslusýning Hafnarborgar þann 21. maí 1988 var einkasýning Eiríks. Sýnd voru 33 olíumálverk, þar af nokkur mjög stór, og 33 vatnslitamyndir frá árunum 1983- 88. Þá voru liðin 40 ár frá því Ei- ríkur opnaði fyrstu einkasýningu sína í Sjálfstæðishúsinu. Viðfangs- efni Eiríks á sýningunni 1988 var samband manns og náttúru en einnig þau öfl sem eru ofar skiln- ingi mannsins. Eiríkur gaf Hafn- arborg, listasafni Hafnarfjarðar, veglegt safn verka, alls 341 verk, 115 málverk og 226 verk unnin á pappír, svo sem vatnslitaverk, pastel og teikningar sem spanna allan feril listamannsins, það elsta frá 1948. Gjöfin var mikilvæg lyfti- stöng fyrir safneign Hafnarborg- ar og hefur safnið sett upp fimm sýningar undanfarin ár sem sýna margbreyttan feril þessa athafna- sama og merka listamanns. Á ný- ársdag 2005 var Eiríkur sæmdur riddarakrossi fálkaorðunnar fyrir störf í þágu myndlistar og á 100 ára afmælisdegi Hafnarfjarðar- kaupstaðar, þann 1. júní 2008, var hann útnefndur heiðurslistamað- ur Hafnarfjarðar. Framlag Eiríks Smith til lista í Hafnarfirði er ómetanlegt og mun hans verða minnst sem merks listamanns sem sannarlega setti sinn svip á hafnfirska menningu og listir. Fyrir hönd bæjarstjórnar Hafnarfjarðar og starfsmanna sendi ég Bryndísi Sigurðardóttur, eftirlifandi eiginkonu hans, og fjölskyldu innilegar samúðar- kveðjur. Haraldur L. Haraldsson, bæjarstjóri Hafnarfjarðarbæjar. Í dag er kvaddur Eiríkur Smith myndlistarmaður. Fyrir hönd Hafnarborgar, menningar- og listastofnunar Hafnarfjarðar, vil ég minnast þessa velgjörðar- manns safnsins og einstaka lista- manns. Eiríkur var ungur dreng- ur í Hafnarfirði þegar áhugi hans á myndlist kviknaði. Með þraut- seigju tókst honum að sækja sér menntun á því sviði bæði hér heima og erlendis, en hann nam myndlist í Kaupmannahöfn og París. Við heimkomuna settist hann að í Hafnarfirði þar sem hann bjó og vann að list sinni alla tíð síðan. Eiríkur var ætíð óhræddur við að endurskapa sína listrænu sýn. Allt frá strangflatarmálverki á 6. áratugnum til fígúratívra mynda þess 8. tók hann við áhrifum og sótti innblástur í tíðarandann, náttúruna og þá ósýnilegu krafta sem mæta manninum allt um kring. Hann setti spor sín í ís- lenska listasögu. Árið 1990 afhenti Eiríkur Smith Hafnarborg nær fjögur hundruð verka sinna til eignar. Þessi höfðinglega gjöf er safninu ómetanleg sem upp- spretta bæði rannsókna og sýn- inga. Eiríkur kannaði stöðugt nýjar slóðir í list sinni og þegar aldurinn færðist yfir naut hann þess að vera óháður þeim straumum sem í gangi voru á hverjum tíma. Eftir veikindi árið 2008 lagði Eiríkur pensilinn á hilluna en hafði ánægju af því að sitja í vinnustof- unni innan um verk frá löngum og farsælum ferli. Verk Eiríks hafa löngum átt greiða leið að hjarta al- mennings og verk úr safneign Hafnarborgar hafa gjarnan prýtt stofnanir bæjarins. Eiríkur Smith og Hafnarborg hafa verið samferða allt frá opn- unarsýningu safnsins árið 1988. Þó hér ljúki ákveðnum kafla á þeirri vegferð hefst um leið nýr, verk hans eru mikilvægur hluti safnkostsins og þau verða könnuð og skoðuð frá nýjum sjónarhorn- um í takt við samtímann hverju sinni. Ég var svo lánsöm að kynnast Eiríki og Bryndísi, konu hans, þegar ég tók við starfi forstöðu- manns Hafnarborgar síðla árs 2015. Ég heimsótti þau í Klukku- bergið og fékk örlitla innsýn í lífs- hlaup þeirra í gegnum lifandi frá- sögn þeirra og samtal. Ég er þeim ævinlega þakklát fyrir hlýjar mót- tökur. Fyrir hönd stjórnar og starfs- fólks Hafnarborgar þakka ég Ei- ríki samfylgdina og velvild hans í garð safnsins og votta um leið Bryndísi, eftirlifandi eiginkonu hans, og öðrum aðstandendum samúð mína. Fyrir hönd starfsfólks Hafnar- borgar, Ágústa Kristófersdóttir, forstöðumaður. Eiríkur, kær vinur og mikill höfðingi, er fallinn. Dagsverkinu er lokið og er afraksturinn ærið mikill, en trönurnar voru teknar niður og pensillinn lagður á hill- una þegar orkuna þraut. Það hafa verið forréttindi að fá að fylgjast með glímu Eiríks við myndlistina allt frá því að við kynntumst á sjö- unda áratugnum. Sýn hans á mál- verkið var stöðug, en þó leitandi og í þróun sem kölluð var fram ýmist í vatnslit eða olíu, en hann var mikill galdramaður í meðferð á vatnslitum, sem oft varð til úti í mörkinni. Við Karin höfðum fylgst með Eiríki og keypt nokkrar myndir eftir hann. En eftir að þau Eiríkur og Binna fólu mér að teikna nýja húsið þeirra við Klukkuberg urðu samskiptin nán- ari og tíðari og samstarfið um hús- ið var afar gefandi fyrir mig, enda höfðu þau mikil áhrif á hvernig það varð að lokum. Þau hjónin höfðu einstakt lag á að gera alla í kringum sig að vinum sinum. Ógleymanleg er menningarferð sem við fórum saman til Þýska- lands og Amsterdam. Vinátta Ei- ríks og Binnu og tryggð hefur ver- ið okkur mikils virði. Við höfum notið rausnar þeirra en einnig mátt taka þátt í áföllum og sigr- um. Við vottum þér, elsku Binna, og allri fjölskyldunni samúð okkar. Minningin um listamanninn Eirík lifir í hjörtum okkar. Hróbjartur og Karin. Flestir listamenn eru margar persónur; innbyrðis núningur þeirra er vísast kveikjan að list- sköpun þeirra. Eiríkur Smith list- málari var að minnsta kosti tví- skiptur að eðli. Háttvísi hans og elskusemi var við brugðið en þær gæðakröfur sem hann gerði til sjálfs sín, svo ekki sé minnst á hugsjónir réttlætis sem hann drakk í sig ungur, vöktu með hon- um óbeit á fúski og ranglæti. Og eins og Eiríki leiddist um- stangið sem velgengnin hafði í för með sér, þá gladdist hann eins og barn við hrós og vinahót. Hann gaf ekkert fyrir rómantísku goð- sögnina um fátæka listamenn á hanabjálka; taldi sig einfaldlega hafa unnið til lífsins gæða. Hann hafði yndi af góðum bílum og öðr- um vönduðum hlutum. Golfkylfur hans voru „state of the art“. Penslar hans, litir og strigi, voru af bestu gerð og vatnslitapappír sérpantaður. En nákomnir vissu að fyrir Ei- ríki voru „gæði“ hlutanna ávísun á endingu þeirra. Þeir vissu líka að þegar mikið lá við voru fáir lista- menn veitulli á tíma sinn og verk en Eiríkur Smith. Að sönnu dreifðust listaverk hans til kaup- enda víða um land og úti í heimi; til þess var leikurinn gerður. En fáir fréttu um þau mörgu verk sem listamaðurinn lét renna til góð- gerðamála. Framkoma fólks við dýr er góður mælikvarði á mann- kosti. Mestan hluta langrar ævi var Eiríkur umkringdur köttum og að Klukkubergi 9 voru bæði hrafnar og spörfuglar í fæði hjá þeim hjónum. En tvíhyggja Eiríks birtist gerst í því sem hann skapaði. Ólíkt flestum myndlistarmönnum sinn- ar kynslóðar óx hann ekki frá hlutlægum myndheimi í átt til huglægrar myndlistar – eða öfugt. Þess í stað er myndlistarferill hans kaflaskiptur, þar sem hann málaði á víxl raunsærri myndir en nokkur annar og svo myndir úr tengslum við sýnilegan veruleika. Annars vegar er veraldleg um- gjörðin utan um tilveruna, hins vegar er sá hluti tilverunnar sem við skiljum ekki, heldur skynjum. En það sem sameinar hvort- tveggja er það hugboð Eiríks, sennilega til komið vegna gamall- ar barnatrúar, að tilveran sé eins konar forspil að einhverju öðru mikilvægara. Eiríkur ræddi stundum nær- veru hins yfirskilvitlega í raun- sæjum myndum sínum. Og líta má á margar myndir hans sem til- raunir til að rekja sig í átt til stórra sanninda handan hins skilj- anlega. Á efri árum þróaðist eft- irgrennslan Eiríks eftir andlegri kjölfestu yfir í mikilfenglegar landslagsstemmur, þar sem opn- ast gáttir yfir í eins konar hand- antilveru. Þessar myndir voru Eiríki ef- laust hugfró hin síðari ár, þegar lífskraftar hans fóru þverrandi og tilhugsunin um að hitta á ný Sól- eyju dóttur sína, sem lést langt um aldur fram, sótti æ oftar á hann. Eiríkur Smith gekk ekki áfalla- laust gegnum lífið. Gæfa hans var helst sú hvað hann var vel giftur. Eftirlifandi eiginkona hans, Bryn- dís Sigurðardóttir, var einstakur lífsförunautur myndlistarmanni, bar hag hans fyrir brjósti sér í einu og öllu, án þess að fórna nokkru af eigin skapgerð og áhugamálum. Hugur okkar er með henni. Aðalsteinn Ingólfsson. Ég var ekki búin að vera lengi í starfi forstöðumanns Hafnarborg- ar þegar leiðir okkar Eiríks Smith lágu saman. Verk hans skipa stór- an sess í safneign Hafnarborgar og því sjálfsagt að kynnast list hans og viðhorfum eins vel og kostur var. Eiríkur var þá hættur að mála en hann tók ákvörðun um að leggja pensilinn á hilluna árið 2008 í kjölfar veikinda. Heimsókn- ir til þessa aldna meistara og sam- töl við hann urðu sannkallaðar gæðastundir þar sem við ræddum lífið og listina. Frá honum stafaði örlæti, hlýja og einstakur velvilji. Listamannsferill Eiríks var langur og tók miklum breyting- um, bæði í takt við tíðaranda og ekki síður vegna þess að hann ákvað hvað eftir annað að kanna nýjar slóðir. Hann tókst á við ýmsa stíla innan málverksins og liggja eftir hann verk sem bera vitni um einstök tök á jafn ólíkum viðfangsefnum og strangflatarlist, tjáningarríku abstraktmálverki og raunsæisverkum þar sem mað- urinn er oft í forgrunni en landið og mannanna verk mynda magn- þrungna umgjörð. Eiríkur sýndi snemma góða teiknihæfileika og naut þess í skóla að vera góður teiknari. Hann var af alþýðufólki kominn og fór ungur að vinna fyrir sér. Hann sótti ýmis námskeið og eftir uppgrip í síldarvinnu settist hann á skólabekk í Handíða- og mynd- listaskólanum haustið 1946. Vet- urinn 1947-8 veiktist hann af berklum og lá á Vífilsstöðum í nokkra mánuði. Um vorið fékk hann aðstöðu til að mála í Barna- skólanum í Hafnarfirði og í sept- ember opnaði hann sína fyrstu einkasýningu. Hann seldi vel og gat í kjölfarið siglt til Kaupmanna- hafnar til að leggja stund á frek- ara nám í málaralist. Þetta var á tímum hafta og fyrirgreiðslupóli- tíkur og þurfti bæði sjálfstraust og einbeittan vilja til að ganga á milli manna til að afla tilskilinna leyfa til gjaldeyriskaupa. París var suðupottur nýrra hugmynda og þangað hélt Eiríkur árið 1951. Þar dvaldi hann ásamt mörgum þeirra listamanna sem áttu eftir að vera áhrifamiklir í íslensku menningarlífi allan seinni hluta 20. aldarinnar. Ef listferill Eiríks er skoðaður leynir sér ekki að hann var óhræddur við að kanna nýjar slóð- ir og hélt alltaf áfram þeirri list- rænu leit sem einkenndi fyrstu áratugina. Hann gerði tilraunir og tók áhættur sem oft þóttu á skjön við meginstrauma myndlistarinn- ar. Málverkin urðu með tímanum raunsærri í stíl en efnislega leitaði Eiríkur inn á við og greina má í verkunum áhuga á andlegum mál- efnum og hugleiðingar um tilvist mannsins í alheiminum. Svipir í landslagi og náttúran andspænis hrörnandi mannanna verkum urðu áberandi viðfangsefni. Leit Eiríks leiddi hann á brautir þar sem abstrakt myndflötur rofnar inn í handanheima og á mærum tveggja heima er mannvera, oft lítil í samanburði við umhverfið en þó sá meginkraftur sem allt snýst um. Með þakklæti í huga kveðjum við listamann sem hafði áhrif á marga, bæði sem félagi og sem skapandi einstaklingur sem skil- ur eftir sig listaverk sem margir munu njóta um ókomin ár. Ég votta Binnu og Smára, eftirlif- andi eiginkonu og syni, og öðrum aðstandendum mína dýpstu sam- úð. Ólöf Kristín Sigurðardóttir. Eiríkur Smith Finnbogason

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.