Tímarit Máls og menningar - 01.05.2006, Síða 5
TMM 2006 · 2 5
Jóhann Jónsson
Til Sigrúnar
Augun þín hin djúpu eru drauma minna nótt.
Þar dreymdi mig að heimurinn var fagur.
Og sorgirnar í hjarta mínu sofnuðu rótt,
úr sortanum steig dagur,
úr sortanum steig lífs míns fyrsti dagur,
því fjöregg mitt var fólgið í hjarta þínu.
Rödd þín er vængurinn sem ljóði mínu lyfti,
er ljósið sem húminu frá augum mínum svipti,
er þráin sem að bar mig upp í söngs míns sólarhallir,
er sverðið sem að harmar mínir dóu allir, allir.
Og bros þitt féll sem geisli inn í hjarta míns hyl.
Það heillaði ást mína loga sinna til.
Þú vaktir eld minn, Sigrún, nú syng ég fyrir þig
minn sumaróð, mín svanaljóð, ó, Sigrún, kysstu mig.
Þetta ljóð Jóhanns Jónssonar færði Hugrún Gunnarsdóttir kennari mér í hendur 4.
nóvember síðastliðinn, og samdist svo með okkur að ég fylgdi því úr hlaði. Að því
er við bezt vitum hefur það ekki birzt fyrr á prenti, og ekki verður það fundið í
eftirlátnum handritum Jóhanns.
Sumarið 1964 vann Hugrún á barnaheimili sem starfrækt var að Laugarási í
Biskupstungum og skrifaði kvæðið þar upp eftir vinnufélaga sínum, konu að nafni
Jennýju Guðmundsdóttur, sem hún kynntist allnáið. Jenný var fædd 1899 og varð
fjörgömul, lézt árið 2000.