Tímarit Máls og menningar - 01.05.2006, Síða 6
J ó h a n n J ó n s s o n
6 TMM 2006 · 2
Bróðir Jennýjar var Sigurður Guðmundsson húsameistari (f. 1885, d. 1958), og
með þeim systkinum og Jóhanni skáldi virðast hafa verið góð kynni. Jenný sagði
Hugrúnu að Jóhann hefði verið heimagangur hjá þeim að minnsta kosti einn vetur,
og í Angantý, minningabók Elínar Thorarensen um Jóhann, kveðst Elín hafa eitt
sinn að sumarlagi farið fótgangandi milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar ásamt
þeim Jóhanni og Sigurði.
Jenný sagði Hugrúnu að Jóhann hefði gefið sér ljóðið af því að Sigrún sú, er
ljóðið var helgað, hafi ekkert viljað með hann hafa.
Raunar kemur á daginn, án þess að Hugrúnu væri um það kunnugt, að sjálf hét
Jenný fullu skírnarnafni Jenný Sigrún Ágústa.
Séu höfð í huga orð Jennýjar um heimsóknir Jóhanns að vetrarlagi til þeirra
systkina, má ætla að ljóðið sé ort fyrir eða um 1915. Það ár sigldi Sigurður Guð-
mundsson utan til margra vetra náms við Listaháskólann í Kaupmannahöfn. Þá
var Jenný systir hans sextán ára gömul og Jóhann Jónsson tæpt tvítugur. Á árunum
1916–’18 fara svo að birtast ljóð eftir Jóhann í Landinu, blaði Jakobs Jóh. Smára, og
1918 í Fréttum, blaði Guðmundar Guðmundssonar.
Halldór Laxness skrifar í inngangi að Kvæðum og ritgerðum Jóhanns 1952:
„Prentun únglíngsverka hans mundi eigi samrýmast þeirri minníngu sem skylt er
að geyma um svo nákvæmt og hámentað skáld sem sá var er Söknuð orti.“ Ég fæ
ekki séð að Sigrúnarljóðið á prenti geti spillt fyrir minningu Jóhanns Jónssonar;
gildi þess kann einmitt að vera í því fólgið að það er vel ort unglingsverk – tilfinn-
ingaríkur og opinskár aðdragandi hinna fágaðri dýrgripa sem í kjölfarið komu og
bornir voru til lengra lífs.
Þorsteinn frá Hamri